TAKA TVÖ
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.10.25.
Áður hefur verið vikið að tilboði Samtaka iðnaðarins og lífeyrissjóðanna um að aðstoða við að greiða niður það sem þessir aðilar kalla "innviðaskuld” hins opinbera. Sagt er að vissulega sé skuldin há, en sáraeinfalt sé að koma henni í réttan farveg. Einfaldlega þurfi að horfast í augu við allt sem ógert sé; í framhaldinu að færa það upp á borð, eins konar hlaðborð, hvort sem það eru húsbyggingar sem þarf að lagfæra eða byggja frá grunni, vegir og flugvellir, skólar og stofnanir fyrir sjúka og aldraða eða annað. Þá muni ekki standa á verktökum og lífeyrissjóðum að gera hlaðboðsréttunum góð skil – að sjálfsögðu fyrir eðlilega þóknun.
Það er þetta síðasta sem vekur ugg í brjósti. Þess vegna er hér taka tvö um hlaðborðið.
Upp í hugann kemur maður sem ég hef áður vísað til í svipuðu samhengi. Sá er verktakinn og hægrisinnaði stjórnmálamaðurinn Gunnar Birgisson heitinn. Um skeið var hann bæjarstjóri í Kópavogi. Þetta var á svipuðum tíma og forsvarsmenn Reykjanesbæjar voru í óða önn að koma fasteignum sveitarfélagsins í svipað faðmlag og SI og lífeyrissjóðirnir nú bjóða upp á. Ég spurði Gunnar Birgisson hverju það sætti að hann, hægri maðurinn, færi ekki þessa leið. Það er ósköp einföld skýring á því svaraði GB að bragði. Ég er bisnismaður og læt ekki milliliði plata mig! Síðan botnaði hann hugsun sína: Þetta snýst ekki um hægri eða vinstri, þetta snýst um að kunna að reikna.
Það er nefnilega það. Höfum við nokkurn tímann fengið að sjá útreikninga sem liggja að baki því að ríkið skuli hafa selt utan af sér húsin og borgi þess í stað á komandi árum milljarðatugi til leigusala sem eflaust kunna að ganga vel um húsnæði sem þeir nú leigja nánast öllum opinberum stofnunum. En þeir kunna líka að taka til sín arð og ekki lítinn arð. Þegar Skatturinn og Fjársýsla ríkisins voru fyrir fáeinum árum látin selja eigið húsnæði og ganga Reykjanesplankann í einkareknu „Húsi íslenskra ríkisfjármála“ og hið sama látið ganga yfir Ríkisendurskoðun, sjálfa eftirlitsstofnun ríkisfjármála, man ég að það hvarflaði að mér að nú væri fokið í flest skjól.
Ekki má gleyma honum Tony Blair. Hann varð forsætisráðherra Breta árið 1997 og gegndi því embætti í áratug. Blair var að eigin sögn enginn vinur milliliða sem vildu maka krókinn með aðkomu að opinberri þjónustu. Svo var þó aðeins í orði því á borði var allt annað uppi á teningnum. Fyrst í stað gekk allt vel. Skólar voru opnaðir, brýr vígðar, sjúkrahús og öldrunarstofnanir byggðar sem aldrei fyrr. Skóflustungur teknar og klippt á borða án afláts. Allt virtist tómur ríkissjóður Breta geta gert. Og það sem meira var, reglur sem arkitektar markaðshyggjunnar höfðu sett um leyfilega lántöku ríkis og sveitarfélaga dugðu ekki til að hemja framkvæmdamanninn Blair því nú sáust skuldirnar sem hann stofnaði til ekki skýrt í ríkisbókhaldinu, þær var að finna hjá framkvæmdaaðilum. Það var að sjálfsögðu þetta sem arkitektarnir vildu, hömlur á hið opinbera, grænt ljós á markaðsöflin!
En svo fór gamanið að kárna. Þótt þessi leið þjónaði vel pólitíkusum og milliliðum, var ekki sömu sögu að segja um skattborgarana. Þetta var einkaframkvæmdin svokallaða. Hún gekk reyndar undir ýmsum nöfnum, alltaf var skipt um nafn þegar hneykslismál komu upp um óprúttna aðila að maka krókinn. En formúlan var þessi: Milliliðir byggja húsnæði, reka stundum starfsemina en ríki og sveitarfélög borga þeim síðan leigu á húsnæðinu eða gjald fyrir að reka starfsemina eftir atvikum. Í nánast öllum tilvikum hefur þetta fyrirkomulag reynst skattgreiðendum óhagstætt. En framan af létu margir blekkjast því að bókhaldið sýndist slétt og fellt. Síðar kom að skuldadögum.
Ég minnist þess ekki að á Alþingi hafi nokkur hreyft andmælum þegar þáverandi ríkisstjórn tók þá kúvendingu haustið 2023 að hér eftir skyldi húsnæði undir allar öldrunarstofnanir vera í einkaeigu en hið opinbera greiði leigugjald fyrir afnotin. Við höfum búið við blandað kerfi en nú skyldi allt húsnæði undir slíka starfsemi vera í einkaeign.
Og ekki verð ég var við að nokkur spyrji ráðherrana sem taka skóflustungur að hverju hjúkrunarheimilinu á fætur öðru við söng og gleði hvernig búið sé um hina fjárhagslegu hnúta til framtíðar.
Og enn eitt. Getur það verið að Reykjavíkurborg hafi bitið á sama agnið? Ég þykist vita að ég móðgi aðstandendur leigufélaga verkalýðshreyfingarinnar þegar ég vísa til þeirra sem milliliða í uppbyggingu leiguhúsnæðis. Og það sem meira er, milliliðir sem vísbendingar eru um að séu að færa sig upp á skaftið. Augljóst er orðið ástarsambandið á milli þessara byggingafélaga og lífeyrissjóðanna. Þeir síðarnefndu, vel verseraðir á fjármálamarkaði, vita að skapist réttar aðstæður geta milljónir fljótt orðið að milljörðum.
Í loftinu liggja spurningarnar: Eigum við ekki að taka að okkur að byggja skólana og aðrar innviðastofnanir og skipuleggja hverfin í leiðinni? Skipulagsvaldið hefur hvort eð er verið að færast til verktaka, væri ekki betra að fá félagslega aðila til slíkra verka?
Svarið við þessum spurningum ætti að vera afdráttarlaust: Enga slíka milliliði hvaða nafni sem þeir nefnast; ríki og sveitarfélög axli ábyrgð á samfélagsrekstrinum milliliðalaust.
Það er lýðræðislegra, skilvirkara, gagnsærra og ódýrara.
----------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)