Fara í efni

SVONA EINFALT ER ÞETTA EKKI

Það eigum við að hafa lært af aðildarumsókninni að Evrópusambandinu á árunum 2009-13 að slík umsókn býður ekki upp á samningaviðræður. Að halda því fram að um eitthvað sé að semja er ljót lygi því nú höfum við reynsluna og allir sem að þessum málum hafa komið vita betur. Kominn er tími til þess að þeir fari að segja satt.

Aðlögun að regluverki ESB

Umsóknarferlið snýst um aðlögun að regluverki ESB. Í viðræðum sem fram fara við umsóknarríki er þeim gerð grein fyrir hvaða atriði þau þurfi að uppfylla og síðan er hakað við þessi atriði eftir því sem umsóknarferlinu vindur fram og orðið er við kröfum ESB. Um þetta snúast «samningaviðræðurnar». Til þess að smyrja þetta ferli eru veittir sérstakir aðlögunarstyrkir, svokallaðir IPA styrkir. IPA er skamstöfun fyrir Instrument for Pre-accession Assistance, foraðildarstuðningur. Slíkt fé var borið á Íslendinga, sumir þáðu en aðrir ekki. Það reyndist sumum stofnunum erfitt að afþakka í fjárhagsþrengingum eftirhrunsáranna.

Viðreisn skuldbindur, forsætisráðherra afvegaleiðir

Nú er þegar farið að bera á sundrungu hjá þjóðinni vegna Evrópusambands-ákefðar ríkisstjórnarinnar, sérstaklega Viðreisnar.
Við svo búið fékk forsætisráðherra að koma við á forsíðum fjölmiðla og lýsa því yfir að ESB umsóknin væri aldeilis ekki í neinum forgangi, ríkisstjórnin hefði öðrum hnöppum að hneppa.
Þetta er því miður ósatt. Aðildarferlið er í fullum gangi. Í sumar hafa tvö skref verið tekin. Íslendingar hafa verið færðir skrefi nær því að hlíta forræði Evrópusambandsins í fiskveiðimálum og síðan hefur þjóðin verið skuldbundin til þess að fylgja Evrópusambandinu í utanríkismálum í veigamiklum efnum.

Afturkalla á skuldbindingar

Þetta eru aðlögunarskref sem hakað verður við í snarhasti þegar formlegheitin taka við. Ekki var þetta þó rætt á Alþingi þannig að eftir væri tekið og út á við víkja ráðherrar sér undan því að standa fyrir máli sinu. Og til þess að drepa málinu endanlega á dreif mætir forsætisráðherra í fjölmiðla til að lýsa því yfir að málið sé ekki á dagskrá.
Svona einfalt er þetta ekki í mínum huga. Skuldbindandi ákvarðanir um fiskveiðimál og utanríkismál varða fullveldi og lýðræði og eiga ráðherrar ekki að geta tekið þær umræðulaust. Almenningur á kröfu á því að skuldbindingar sem fela í sér skerðingu á fullveldi þjóðarinnar og þar með lýðræðislegu áhrifavaldi hennar verði afturkallaðar í snarhasti.
Verði það gert skal ég trúa því að ESB aðild sé ekki á dagskrá. En fyrr ekki.

---------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course:
https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti.
Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)