STURLA BÖÐVARSSON GENGINN
Í dag fór fram minningarathöfn um Sturlu Böðvarsson í Dómkirkjunni í Reykjavík. Sturla var samstarfsmaður minn á þingi í nær hálfan annan áratug frá 1995 til 2009 og á ég góðar minningar af okkar kynnum.
Í þingsal vorum við ekki sammála um margt en þó um sumt og þá margt af því sem máli skiptir þegar upp er staðið.
Mikið fjölmenni sótti minningarathöfnina og var kirkjan þéttsetin. Um athöfnina sáu tveir prestar, Elínborg, dóttir Sturlu og Jón Ásgeir Sigurvinsson sem flutti minningaroð. Kvað hann Sturlu hafa verið mann sátta og samstarfs og að eðli til úrbótamaður. Hann sagðist ekki vera frá því að Guðrún Helgadóttir, sem líkt og Sturla gegndi um árabil stöðu forseta Alþingis, hefði hitt naglann á höfuðið í lýsingu sinni á þessum kollega sínum þegar hún sagði að Sturla Böðvarsson væri tvímælalaust frekasti maður á Íslandi, en “það tæki bara enginn eftir því!” Við þetta hló kirkjan því allir könnuðust við húmor Guðrúnar og staðfestu Sturlu.
Sturla Böðvarsson lagði sig fram um að vera forseti allra í þinginu óháð stjórnmálaskoðunum hvers og eins. Á þetta reyndi í efnahagshruninu en þá var Sturla forseti Alþingis. Áður en stjórnarskipti fóru fram hafði það verið orðað að gerð yrði rannsóknarskýrsla um aðdragandann að hruninu. Mun forsætisráðherra hrunstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Geir H. Haarde, þar hafa haft frumkvæði en verkstjórnin var hins vegar á hendi forseta þingsins. Óumdeilt er að það hafi Sturlu farist vel úr hendi.
Annað vil ég nefna þegar ég minnist Sturlu Böðvarssonar. Einhvern tímann á árunum 2011 eða 2012, eftir að ég tók við embætti innanríkisráðherra óskaði hann eftir fundi með mér. Vildi hann að þar yrðum við tveir einir. Erindið krafðist ekki margra orða en að baki þeim orðum var alvöruþungi. Það var illa farið með Geir H. Haarde í Landsdómsmálinu, sagði hann. Afstöðu þína í því máli þyrftir þú að endurskoða. Lengra var erindið ekki og tókum við nú upp almennt spjall og var aldrei minnst á þetta mál okkar í milli eftir þetta. Enda kom á daginn að þess þurfti ekki við.
Það var greinilegt við minningarathöfnina í dag að margir sakna góðs vinar nú þegar genginn er Sturla Böðvarsson.
-----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometimes people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Usually this is because the reply has been directed to the trash bin. Be aware of this.)