Fara í efni

SIGRÍÐAR STEFÁNSDÓTTUR MINNST

Í dag fór fram í Iðnó í Reykjavík minningarthöfn um Sigríði Stefánsdóttur. Ég flutti  þar minningarorð um hana sem eru hér að neðan svo og minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu:

 

Þegar ég sá hamarinn og sigðina á dánartilkynningu Siggu Stefáns frænku minnar þá hugsaði ég margt, þó aðallega tvennt.

Í fyrsta lagi að skipulagning þess sem sagt yrði og gert þegar hún segði skilið við þessa jarðvist skyldi vera í hennar höndum; að það yrði hún sem héldi um taumana - eins og stundum áður.

Hitt sem ég hugsaði var margbrotnara; nefnilega það að hamarinn og sigðin í dánartilkynningu á öld peningafrjálshyggjunnar væri á margan hátt lýsandi fyrir Siggu. Hún hefði aldrei sagt skilið við sósíalismann, þótt ríki sem hefðu kennt sig við þessi tákn hans, hamarinn og sigðina, hefðu risið og hnigið, þá stæði hún keik enda aldrei bundin öðru en hugsjónum um jöfnuð og jafnrétti – fremst í flokki að mótmæla ofbeldi, einnig því sem framið væri í nafni hamarsins og sigðarinnar ef því var að skipta.
Svo má ekki gleyma húmornum, að segja og gera það sem ekki má, hafa fordómafull boð og bönn að engu. Og gera það helst svo hressilega að menn misstu málið. Það var Sigga. Þá kom kankvísa brosið sem allir þekktu.

Sigga óttaðist hvorki fortíð né framtíð.
Þegar vinstri menn og baráttufólk fyrir rétti kvenna stofnaði Stefnu, félag vinstri manna, upp úr miðjum tíunda áratugnum – til að bjóða upp á meiri margbreytileika en gæfist í einhvers konar safnrétt allra þeirra sem á einhvern hátt vildu efla félagsleg sjónarmið í stjórnmálum – og vel að merkja slíkar safnréttir voru meira og minna á leið til hægri á þessum tíma – í Bretlandi var Tony Blair í óða önn að þvo allt sem minnti á félagslegan rekstur af breska Verkamannaflokknum og helst hreinsa hann af öllu rauðu og öllum rauðum líka, þá var markmiðið aldrei að rjúfa samstöðu vinstri manna, þvert á móti að efla þá samstöðu, en á þeim forsendum að hugsjónum yrði aldrei fórnað né gefist upp í andróðri gegn heimsauðvaldi og hernaðarhyggju.
Þarna stóð Sigríður Stefánsdóttir í brúnni.
Hún vildi enga feluliti í stjórnmálum.

Og þegar einhver urðu til þess að henda gaman að því að merki Stefnu, félags vinstri manna sem sýndi svani sem flugu til vinstri á bréfhausi félagsins, svo að ekki væri annað að sjá en að þeir flygju til baka út úr bréfsefninu, að þeir beinlínis flygju til fortíðar, hvort það virkilega væri svo að vinstra fólk vildi hverfa aftur til fyrri tíma – þá var svarið alveg skýrt. Stundum þarf að fljúga til baka til að geta flogið fram á við. Við yrðum að þekkja sögulegar rætur okkar, þekkja sigra og einnig ósigrana til að læra af þeim.

Ég tel víst að Sigríði Stefánsdóttur hefði verið kærkomið, nú þegar við komum saman til að minnast hennar, að vita til þess að þá yrði það tilefni til að hugleiða einmitt þetta, samtímann og söguna, tímann og manninn, hvernig okkur öllum væri gert að stefna hratt til einhverrar framtíðar sem við þekktum ógjörla. Við yrðum að vera þess meðvituð að í farteskinu flyttum við að heiman dýrmætan mal sem ef til vill vægi ekki þungt á þeirri hraðferð sem okkur er búin. Sú hætta væri fyrir hendi að veganestið yrði gleymskunni, alsystur heimskunnar, að bráð. Við yrðum því að velja eða hafna því sem að okkur væri rétt. Skáldið Indriði Þórkelsson á Fjalli tekst á við þetta hlutskipti mannsins í eftirfarandi ljóðlínum Haustkvæðis:

Enn er fagurt út um sveitir,
ótal fræin blunda í grund.
Hér er margt, sem hita veitir
hjörtum vorum, lund og mund.
Saga þjóðar, söngvar, kvæði,
sálum varma og unað bjó.
Rækjum göfug framandfræði,
fóstru vorrar betur þó.

Í lokalínum ljóðsins er falinn boðskapur skáldsins: Förum varlega inn í nýja tíma. Gleymum því aldrei hvaðan við erum komin.

Malur Sigríðar Stefánsdóttur að heiman var ekki smár. Og léttvægur var hann ekki. Foreldrar hennar voru Elín Guðmundsdóttir, fædd 1912 og Stefán Ögmundsson, fæddur 1909. Sigga sem var fædd 18. apríl 1951 var yngst fjögurra systra. Henni eldri voru þær Ingibjörg, Steinunn og Bergljót. Þær ólust upp í Þingholtunum í Reykjavík en fyrstu búskaparár sín bjuggu þau Elín og Stefán í litlu húsi á Fálkagötu steinsnar frá Hólabrekku, sem enn stendur við Suðurgötuna, gult hús með grænu þaki, en það byggðu þau Ögmundur og Ingibjörg, foreldrar Stefáns árið 1906 og síðar litla húsið sem varð fyrsta heimili fjölskyldunnar.
Í þessu húsi við Fálkagötuna á Grímsstaðaholtinu þar sem þau Stefán og Elín hófu búskap sinn hafði Stefán um skeið rekið prentsmiðjuna Dögun. Þar voru prentuð ýmis rit fyrir verkalýðshreyfinguna, verk ungra skálda, þar á meðal eftir Halldór Laxness eftir því sem ég hef komist næst, Vilhjálm frá Skáholti og þar var prentaður Rauði fáninn og Sovétvinurinn.

Í endurminningu minni var Elín Guðmundsdóttir ekki kona margra orða en enginn vafi lék á því að hún var traust og raungóð. Um það hef ég orð móður minnar, mágkonu hennar, sem ung hélt utan til Svíþjóðar og Bandaríkjanna, peningalítil og við takmarkaðan skilning og stuðning – sem kom hins vegar óskiptur með öllu frá Elínu Guðmundsdóttur sem vissi hvers virði það var að styðja ungar stúlkur að finna fótfestu í lífinu. Í mínum huga er minningin um Elínu, móður Siggu, björt. Það er hún einnig um föður hennar, sósíalistann, menningarmanninn og mannvininn, sem ég hika ekki við að kalla Stefán Ögmundsson, stofnanda Menningar- og fræðslusambands alþýðu – manninn sem sagði að svo lengi sem alþýða manna yrði ekki viðskila við menningu eins og hún best gæti orðið og sögulegan skilning þá væri hún ósigrandi þegar til kastanna kæmi – en léti hún stela frá sér menningunni og sögulegri arfleifð sinni væri voðinn vís. Það er vegna þessa sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu varð til.

Í minningarorðum á síðu Prentsögusafnsins tengir Svanur Jóhannesson, bókbindari, Sigríði Stefánsdóttur inn í þessa arfleifð og lýsir hann því vel hvernig hún kom að starfi bókagerðarmanna á gefandi hátt:
“Það var í byrjun 9. áratugarins sem leiðir okkar lágu fyrst saman”, segir Svanur. “Hún bjó þá í Lundi í Svíþjóð og gerðist túlkur fyrir okkar nýstofnaða Félag bókagerðarmanna, sem þá átti í töluverðum samskiptum við stéttarbræður okkar á Norðurlöndunum. Þetta voru allskonar fundir, þing og námskeið þar sem bókagerðarmenn báru saman bækur sínar og fræddust hverjir af öðrum. Sigga naut sín vel í þessu starfi og það var skemmtilegt að vinna með henni. Hún var fróð um verkalýðsmál og allskyns réttindamál varðandi verkalýðsstéttina enda voru þessi mál henni í blóð borin þar sem faðir hennar, Stefán Ögmundsson var einn af helstu foringjum prentara á sinni tíð. Auk þess var hún að læra um þessi mál og útskrifaðist sem réttarfélagsfræðingur á háskólastigi um þetta leyti. Þetta var skemmtilegur tími og við kynntumst mörgu góðu fólki á Norðurlöndunum. Vinnuverndarmálin voru efst á baugi og við reyndum að kynna okkur þau af fremsta megni og fluttum þá þekkingu til landsins. Sigga lagði sérstaklega fyrir sig vinnuumhverfi skjávinnufólks og skipulagði af því tilefni stóra könnun fyrir okkur um það efni og Öryggisnefnd prentiðnaðarins réði hana til verksins og hún hafði aðstöðu á skrifstofu Félags bókagerðarmanna. Hún var því eins og ein af okkur og hvatti okkur oft til dáða, t.d. í tölvumálum, en það var mikið fyrir hennar tilstilli að félagið tölvuvæddist mjög snemma á ferli sínum.”

Þröstur Ólafsson, hagfræðingur segir í nýútgefinni bók að það hafi runnið upp fyrir sér í verkfallsátökum á níunda áratug síðustu aldar, að harðdrægustu öfl innan verkalýðshreyfingarinnar hefðu ekki síður lagt upp úr átökum og verkfallsbaráttu sem slíkri en þeim ávinningi sem um var barist í krónum talið. Þetta held ég að sé rétt mat. Nema að Þröstur gleymir því að barátta skilar sér sjaldnast að bragði hún breytir hins vegar valdahlutföllum bæði inni á vinnustaðnum og í þjóðfélaginu almennt auk þess að skila krónunum einnig um síðir. Stefán Ögmundsson var spurður eftir langvinnt verkfall prentara árið 1984 hvað honum þætti um þá staðreynd að ekki hefði tekist að ná framsettum kröfum um aukinn kaupmátt. Það kann að vera rétt að gengisfelling hafi rýrt ávinninginn að þessu leyti, sagði hann, en sjálfsvirðinguna höfðu þeir ekki af okkur.

Og svo kom kvennabaráttan af miklum krafti. Hún snerist um félagslega og efnahagslega stöðu kvenna, sjálfstæði og virðingu. Og á sama hátt og vinnustaðnum og þjóðfélaginu öllu var breytt með baráttu launafólks þá gerbreytti baráttuhreyfing kvenna stöðu þeirra – og þótt á ýmsum sviðum kunni enn að vera langt í land þá var árangurinn ótvíræður.

Mikilvægi þessarar baráttu skildi Sigríður Stefánsdóttir betur en flestir gerðu. Eins og fram kom í tilvitnuðum orðum Svans Jóhannessonar nam hún réttarfélagsfræði við Háskólann í Lundi og kenndi fræði sín þar um skeið og þegar farið var að sinna kynjafræði við Háskóla Íslands var til hennar leitað. Alls staðar þar sem rétta þurfti hlut kvenna, að ekki sé minnst á ofbeldi í þeirra garð, var Sigríði Stefánsdóttur að finna. Hún átti sæti í stjórn kvennaathvarfsins og ég veit að það gladdi hana undir lokin að heyra að Drífa dóttir hennar hefði tekið að sér að gerast talskona Stígamóta. Aftur staldra ég við ummæli á samfélagsmiðlum. Það er Guðrún Jónsdóttir, forveri Drífu Snædal hjá Stígamótum, sem þar fer hlýjum orðum um Siggu, segir þær hafa tekið nokkra slagi saman en gott sé til þess að vita að hún muni lifa í gegnum sína sterku afkomendur. Undir þetta hafa fleiri tekið.

Úr kvennabaráttunni er Sigríður Stefánsdóttir mörgum samherjunum eftirminnileg: „Alltaf hress og róttæk - kona sem vildi jafnara og betra samfélag eins og meira og minna allt hennar fólk“, segir Kristín Ástgeirsdóttir. .: "Hún var baráttukona og stór í sniðum eins og hún átti kyn til. Það er sjónarsviptir að henni,” skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í samúðarkveðju á samfélagsmiðli og bætir við þessari athugasemd: "Merkilegt að hún skuli kveðja á síðasta degi ársins rétt eins og Gunna Ögmunds.” Undir þetta tek ég með Ingibjörgu Sólrúnu. Ég held að þeim hafi báðum þótt ákveðinn stíll yfir því að fara á slíkum degi, baráttukempunum, þeim Sigríði og Guðrúnu sem deildu hugsjónum um jöfnuð og jafnrétti og gerðu það alltaf með stæl.

Sigga frænka mín kom allvíða við á starfsferli sínum, í félagsþjónustunni í Reykjavík, þar sem hún hélt utan um einhvern viðkvæmasta hóp samfélagsins og um skeið veitti hún forstöðu Félagsmálasviði Fjarðabyggðar.

Hún var vel látin af skjólstæðingum félagslegrar þjónustu hvort sem var fyrir sunnan eða austan. Þetta átti líka við um þau sem störfuðu undir hennar stjórn - kannski þó síður við stjórnendur sem yfir hana voru settir, við þá voru samskiptin stundum stirð, oftast urðu þau þó á endanum góð. Og vel að merkja, sjálf gegndi hún stjórnunarstörfum um dagana og er ánægjulegt að sjá falleg ummæli um hana á samfélagsmiðlum af hálfu þeirra sem hún hafði leiðsögn yfir.
Það er ekki þar með sagt að alltaf hafi verið logn á vinnustaðnum og það veit ég að ófá fóru erindin og kröfugerðirnar frá þessari varðstöðukonu hinna undirokuðu til kærunefnda og umboðsmanna þar sem krafist var breytinga og úrbóta. Mér segir hugur að þessi barátta hennar fyrir annarra hönd hafi líkt og verkfallsbarátta fjöldans og barátta kvennahreyfingar skilað sér í bættri stöðu margra sem á þurftu að halda.
"Þú lætur yfirvaldið ekki í friði Sigga mín,” hafði ég einhverju sinni á orði við hana. “Til hvers hélstu að við hefðum knúið það fram að fá þessi embætti, fyrir þau sem þeim gegna til að njóta náðugra daga eða hin sem þau eiga að þjóna?” var þá svarað að bragði með ósvaranlegri spurningu.

Hvorki ætla ég að gleyma að minnast á Hollvinasamtök Háskóla Íslands né Siðmennt en hún var fyrsti framkvæmdastjóri Hollvinasamtaka Háskólans og hún tók þátt í að stofna Siðmennt, félag siðrænna húmanista, og sat þar í stjórn. Þetta minnir á hve áhugasviðið var vítt og viljinn mikill til verka. Áður hef ég nefnt Stefnu félag vinstri manna en myndin verður ekki full án þess að nefna Kvennalistann og Vinstrihreyfinguna grænt framboð en hún var fyrsti formaður Reykjavíkurfélags VG. Síðar sagði hún skilið við þann flokk.

Enn um æskuheimili Siggu. Á sinn hátt voru foreldrar hennar, þau Elín og Stefán, stórveldi. Stórveldi af því tagi sem vöktu aðdáun þeirra sem kynntust þeim vel, aðdáun sem innra með mér fór vaxandi með árunum þegar ég fór að gera mér betur grein fyrir því hve óblíðum höndum samtíð þeirra hafði farið um þau.
Ég tel víst að það hafi haft sín áhrif á fjölskylduna alla þegar Stefán hlaut dóm fyrir þátttöku í fjöldamótmælum við Alþingishúsið 30. mars árið 1949 þegar Ísland var keyrt inn í NATÓ án þess að þjóðin væri spurð. Dómurinn yfir Stefáni var sá þyngsti sem upp var kveðinn í kjölfarið. Hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi (18 mánuði í undirrétti) og sviptur kjörgengi og kosningarétti vegna þátttöku í mótmælunum. Engum sögum fer af dómum yfir þeim sem vörpuðu táragasinu eða héldu um kylfurnar hinn 30. mars fyrir nær 75 árum. Fangelsisdómnum var ekki framfylgt af ótta við viðbrögð almennings og 27.364 undirskriftum var safnað til stuðnings þeim sem hlutu dóma. Þetta voru undirskriftir á bensínstöðvum og í mjólkurbúðum – engin netsöfnun þá  - og jafngilti því að nú hefðu safnast 72 þúsund og 400 undirskriftir. Undirskriftalistarnir voru afhentir forseta Íslands árið 1952 en það var ekki fyrr en 30. apríl 1957 sem sakaruppgjöf var veitt. Þá höfðu sjö menn, ásamt Stefáni, verið án kosningaréttar og kjörgengis í fimm ár. Síðar kom í ljós að heimilið hafði verið hlerað. Það þótti ástæða til grafa undan manni sem verið hafði varaforseti Alþýðusambands Íslands og líklegur til stórræða á sviði félagsmála.

Þessar ofsóknir höfðu sín áhrif á fjölskylduna í tvennum skilningi, ollu vanlíðan - ég gef mér það, hvernig ætti annað að vera – en einnig varð þetta til að stappa í hana stálinu, efla staðfestu og eindrægni um að gefast aldrei upp og bjóða ofureflinu byrginn.

Stattu keikur á því sem þú telur vera satt og rétt, sagði Stefán einhverju sinni við ungan frænda sinn sem þá var stiginn inn í átakahringinn, hvikaðu aldrei og mundu að skapið er til að temja það. Og hann kvað:

Þegar okkur innra með
æsist skap og hiti
Þá skal láta þrútið geð
þoka fyrir viti.

Sumir halda að hægt sé að stilla upp sósíalisma og einstaklingshyggju sem andstæðum. Svo kann að vera í vissum skilningi en sjálfur hallast ég að skilgreiningu Bernhards Shaw sem sagði að sósíalismi væri einstaklingshyggja fyrir alla. Þetta held ég að hafi verið sterkur þáttur í mannskilningi Sigríðar frænku minnar Stefánsdóttur.

Hún elskaði börnin sín þau Sunnu, Drífu og Ögmund og barnabörnum sínum, þeim Kristni. Kötlu, Völu og Silju sýndi hún ekki aðeins ótakmarkaða ástúð og væntumþykju heldur bar hún einnig virðingu fyrir þeim hverju og einu og sýndi það í verki, hlustaði á þau og ræddi við þau sem sjálfstæða einstaklinga eins og fram kemur þegar þau minnast ömmu sinnar.
Gefum þeim orðið: “Við hugsuðum ekki endilega um hana sem mömmu mæðra okkar heldur fyrst og fremst sem ömmu okkar. Samband okkar við hana stóð alveg undir sjálfu sér. Það þróaðist úr pössunum þar sem ömmureglur giltu með endalausu nammi, prakkaraskap og bíómyndum frá Aðalvídeóleigunni yfir í spa-ferðir, vöfflur á Mokka og heimboð í hvítvín og slúður eftir því sem við eltumst. Hún passaði vel upp á að eiga margar stundir með okkur saman ásamt því að rækta sambandið við hvert og eitt. Þar af leiðandi eigum við öll ótalmargar minningar af gæðatíma með ömmu okkar þar sem hún veitti okkur sína óskiptu athygli.”
Orð barnabarnanna eru miklu fleiri og þarf enginn að velkjast í vafa um hve alvarlega Sigga tók ömmuhlutverkið. Það væri hennar að leiða barnabörnin inn í menninguna. Hún bauð þeim í leikhús og á tónleika, hvatti þau til lestrar og sjálfstæðrar hugsunar.

Já, sjálfstæðrar hugsunar! Hana sýndi amma í verki nánast öllum stundum og fór hún oft mjög ótroðnar slóðir. Á aðfangadag hélt hún opið hús í hádeginu og streymdu vinir og vandamenn, allir velkomnir og allir ákafir í að mæta til fagnaðarfundar. Þetta var hápunktur jólanna og mikið í lagt. En þegar Sigga stakk upp á pitsu um kvöldið sögðu börnin neitakk - og var þá fallist á róst bíf.
Þetta var Sigga sem var höfðingi heim að sækja þótt hún leyfði sér stundum að minna sitt lið á að enginn væri tilneyddur að gera allt eins og allir aðrir.

Þetta átti einnig við í erfiðum veikindum hennar. Þar reyndist hún hinn mesti harðnagli, viðurkenndi aldrei að neitt amaði að sér sem orð væri á gerandi, útskrifaði sig sjálf af sjúkrahúsum og hélt til útlanda eða í Hrísey á afmælisfagnað nánast með slöngurnar sem hún hafði haft í æð.

Sigga var í fyrsta árgangi Menntaskólans við Hamrahlíð. Þessi árgangur var fjörugur, mér liggur við að segja byltingarkenndur – bar uppi þann anda sem oft fylgir frumkvöðlum; anda sem ruddi braut nýjum hugmyndum í skólastarfi.
Og úti í heimi voru ærin tilefni til að koma blóðinu á hreyfinu í róttækum hjörtum. Þetta var í miðju Víetnamstríðinu. Það stríð fór ekki framhjá Sigríði Stefánsdóttur og Sigríður Stefánsdóttir fór ekki framhjá íslensku lögreglunni sem einhverju sinni taldi rétt að handtaka hana, væntanlega svo allir mættu skilja hvoru megin íslensk stjórnvöld stæðu þegar að bandalagsþjóð í NATÓ væri vegið.

Í Hamrahlíðarskólanum mynduðust vinabönd sem haldist hafa til þessa dags. Og þar komum við aftur að Siggu og afstöðu hennar til einstaklingsins. Hún átti vini og félaga úr öllu hinu pólitíska litrófi, vinir hennar voru kommar og anarkistar en einnig framsóknarmenn og kratar – líka íhald. Hver og einn var metinn á vogarskálum mannkosta.

Og þrátt fyrir allt þá er þetta hluti af menningu okkar og ekki bara okkar menningu heldur því besta og fallegasta í mannlífinu yfirleitt – að meta beri manngildi ofar öllu öðru. Þetta hafa margir skilið og ég held að öll skiljum við þetta þegar að er gáð - að innra með okkur öllum hrærast sammannlegir strengir, hjá öllum mönnum, hinum milda og hinum harða, hjá hinum ósérhlífna sem og hinum eigingjarna - og það er einmitt þetta sem gefur okkur vonina – þá von að skapa megi betri heim, ef við aðeins gætum vakið allt það sem gott er til lífsins líkt og þegar Davíð Stefánsson skáld vildi glæða lífi fuglana sem hann hafði skorið úr furutré:
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þannig á allt að vera hægt ef við bara viljum.

Við skulum aldrei vanmeta það sem vel hefur verið gert, aldrei vanmeta þá sigra sem unnist hafa og aldrei láta undir höfuð leggjast að þakka þeim sem hafa unnið að framgangi góðra mála, sigrum sem hafa orðið til þess að gera hinum undirokuðu lífið auðveldra og betra.

Sigríður Stefánsdóttir á slíkar þakkir skilið. Og nú er henni þakkað.

En hún hefði viljað – það þykist ég vita – hún hefði viljað minna á mikilvægi þess að almenningur, þorri fólksins í landinu og í heiminum öllum stæði saman í baráttu gegn handhöfum auðs og valda og hún hefði viljað að talað yrði fyrir réttlæti. Og ef við þyrftum að líta til liðins tíma í leit að vitneskju og fróðleik … ef við þyrftum að fljúga til baka til að ná í sannfæringuna, staðfestuna og óttaleysið þá gerðum við það …
Og nákvæmlega þetta skulum við gera, fljúga með Siggu Stefáns út úr rammanum - og tökum síðan með henni flugið til framtíðar.

Blessuð sé minning hennar.


Eftirfarandi er minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

Sigríður Stefánsdóttir frænka mín og vinur kvaddi á kyrrlátri aðfaranótt gamlársdags í hlýjum faðmi þeirra sem hún elskaði mest, barnanna sinna þriggja, Sunnu, Drífu og Ögmundar. Barnabörnin voru ekki langt undan enda alltaf efst í huga ömmu sinnar og hún í þeirra huga.

Líf Siggu hafði ekki alltaf verið gárulaus sigling á lygnum sjó enda vildi hún gjarna hreyfa við ýmsu sem staðið hafði kjurrt. Hún var róttæk bæði í hugsun og verkum sínum, vildi jöfnuð og jafnrétti, var í fararbroddi kvennabaráttunnar og átti drjúgan þátt í að hefja rannsóknir í jafnréttismálum til vegs. Hún lagði stund á réttarfélagsfræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð og kenndi við þann skóla að loknu námi í fræðigrein sinni. Og þegar farið var að kenna kynjafræði við Háskóla Íslands var leitað til hennar.

Sigríður Stefánsdóttir sinnti ýmsum störfum um dagana en alltaf tengdust þau á einhvern hátt viðleitni til að rétta hlut þeirra sem stóðu höllum fæti, hvort sem starfsvettvangurinn var á vegum félagsþjónustu eða annarra aðila. Þeir sem engan málsvara áttu gátu alltaf reiknað með að finna hann í Siggu Stefáns. Þá gat hún líka orðið harðdræg enda ekki fisjað saman. Hef ég grun um að hjá hinum ýmsu kærunefndum og umboðsmönnum liggi ófá erindi frá Sigríði Stefánsdóttur að krefja yfirvaldið um réttlæti.

Í pólitíkinni áttum við samleið. Sigga var einn af stofnendum Stefnu, félags vinstri manna, sem kom til sögunnar undir aldarlokin. Það var þegar stefndi í að smalað yrði öllu félagslega þenkjandi fólki í eins konar safnrétt. Stefna var félag sem vissulega vildi samstarf á vinstri væng stjórnmálanna, héldum reyndar fastar í þá hugsun en flest annað félagshyggjufólk að flokkar sem vildu leggja rækt við félagsleg sjónarmið ættu að starfa saman, en ekki þó þannig að vatnað yrði út öllu sem kalla mætti róttækan sósíalisma, baráttu gegn hernaðarhyggju og alþjóðaauðvaldinu. Þarna vorum við Sigga frænka mín sammála og fylgdumst vel að ásamt mörgu góðu fólki sem var sama sinnis.

Siggu Stefáns var umhugað um að verða ekki viðskila við samvisku sína. En sambýlið við samviskuna er ekki alltaf auðvelt. Stundum kallar það á fórnir sem kosta veraldlegan ávinning. Líf hennar hefði án efa getað orðið auðveldara hefði hún verið eftirgefanlegri í prinsipfestu sinni. En þá hefði hún líka hætt að vera Sigga Stefáns. Það hefðum við vinir hennar og félagar aldrei viljað.

Sigríður Stefánsdóttir lifir áfram í verkum sínum og þá ekki síður í öflugri sveit barna og barnabarna. Þau kveðja nú kæra móður og ömmu. Öllum þeim sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég kveð frænku mína og góðan vin.
Ögmundur Jónasson

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna https://www.ogmundur.is/  
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda