Fara í efni

SAMTÖK HERNAÐARANDSTÆÐINGA MÓTMÆLA VÍGVÆÐINGU

Ríkisstjórn Íslands virðist halda að fylgispekt hennar við vígvæðingarstefnu NATÓ verði tekið með þegjandi þögninni. Svo verður ekki og er kröftug ályktun Samtaka hernaðarandstæðinga til marks um það. Einnig bendi ég á grein Steinars Harðarsonar sem birtist hér á síðunni í dálkinum Frjálsir pennar. Steinar spyr hvort mönnum finnist Bandaríkin verðugur bandamaður. Hann telur svo ekki vera og færir rök fyrir máli sínu: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/verdugur-bandamadur

Ég er að hjartanlega sammála Steinari Harðarsyni. Bandaríkin eru ekki verðugur bandamaður svo blóði drifin er slóð þeirra. Þá er beinlínis dapurlegt að fylgjast með vesaldómi NATÓ ríkja í fylgispekt þeirra við bandaríska yfirgangsstefnu; kvíði ég alltaf fyrir því að heyra íslenska ráðamenn tjá sig um fundina hjá NATÓ að þeim afloknum. Það er eitthvað hræðilega pínlegt við það hve upphafnir þeir eru en jafnframt hálfskríðandi í auðmýkt sinni. Mikið væri það gott ef björguðum okkur öllum frá þessari niðurlægingu og segðum okkur frá þessum siðlausa felagsskap. Þess vegna myndin hér að ofan: Ísland úr NATÓ!

Ályktun Samtaka hernaðarandstæðinga fylgir hér á eftir:

„Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeim ákvörðunum leiðtogafundar Nató að efna til hernaðaruppbyggingar af fáheyrðri stærðargráðu. Samþykktir þessar eru gerðar í því skyni að þóknast stjórnvöldum í Bandaríkjunum, sem hafa áratugum saman staðið í stríðsrekstri vítt um heim, grafið með kerfisbundnum hætti undan alþjóðalögum og vikið til hliðar afvopnunarsamningum.

Yfirlýsing leiðtoga Nató um margföldun hernaðarútgjalda er undirbúningur stríðs sem ógnar friði í heiminum. En hún er jafnframt árás á þau gildi sem flest lönd Evrópu hafa viljað standa fyrir með því að taka fjármagn frá öflugri samneyslu, velferðar- og heilbrigðiskerfi. Forgangsröðun til vígvæðingar og hernaðaruppbyggingar í þessum mæli er glæpsamlegt athæfi á tímum þar sem brýn og aðkallandi verkefni blasa við á sviði félagsmála og umhverfismála.

Á sama tíma og NATO samþykkir að stórefla stríðsundirbúning í Evrópu, er hvorki vikið orði eða evrum að því hvað NATO ríkin ætla að leggja af mörkum til að stuðla og friði í Evrópu. Friður byggir á samtali og samvinnu milli fólks og ríkja. Þótt friðarleið verði ekki auðveld, þá verður hún í alla staði miklu farsælli en sú hernaðarleið sem nú er stefnt að.

Íslensk stjórnvöld eiga að hafna þessari siðferðislega gjaldþrota stefnu. Hagsmunum Íslendinga og öryggi er best borgið með því að standa utan hernaðarbandalaga og allrar hernaðarþátttöku. Það er forsenda þess að Ísland geti verið trúverðugur boðberi friðar.“

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course:
https://www.ogmundur.is/