SAMNEFNARI OKKAR BJÖRNS OG GUNNARS
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01/02.08.25.
Um eitt held ég að við Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gætum orðið sammála og það er að um fátt séum við sammála þegar kemur að svokölluðum öryggismálum. Björn er mjög eindregið fylgjandi veru okkar í NATÓ og jafnframt stuðningsmaður ”varnarsamnings” Íslands við Bandaríkin, ég hins vegar er hvoru tveggja andsnúinn, tel þennan félagsskap meira en lítið varasaman og nú í þann veginn að leiða okkur út í miklar ógöngur.
Einn samnefnara greini ég þó með okkur fjandvinum, en hann er sá að í hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd beri að horfa raunsætt til hagsmunabaráttu í alþjóðastjórnmálum og láta hvergi villa sér sýn.
Hér sýnist mér við Björn eiga samleið með Gunnari Einarssyni fyrrverandi bónda í Öxarfirði sem skrifaði eftirminnilega blaðagrein í mars síðastliðnum undir fyrirsögninni Varnir Íslands. Þar segir: ”Stórveldin reka hagsmunapólitík, við eigum að gera það líka. Við eigum að halda okkur til hlés, sjá hvað gerist á næstu árum.” Gunnar segir enn fremur að besta leið til að tryggja öryggi okkar sé að Íslendingar verði sjálfum sér nógir eins og verða megi um fæðu og aðrar lífsbjargir.
En þótt menn vilji skilja og skilgreina hagsmunapólitík heimsins og taka mið af henni er ekki þar með sagt að réttlætiskenndin megi víkja. Samnefnarinn gengur út á það eitt að þegar íslenska ríkið undirgengst skuldbindingar þurfi það að gerast með opin augu meðvitað um hagsmuni þeirra sem sitja handan borðsins.
Þá þarf fyrst að skilja það að Bandaríkin telja sig þurfa á Íslandi að halda í eiginhagsmunaskyni, ekki bara Grænlandi. Það er rétt sem búhöldurinn fyrrverandi segir að ”þótt Kaninn færi” hafi hann aldrei farið ”alveg” og nú sjái hann sér hag í ríkari viðveru. En auknum tengslum við Ísland sækist Evrópusambandið einnig eftir og það út frá sínum hagsmunum; eygir með innlimun Íslands í sambandið stórkostlega möguleika á taflborði heimsstjórnmálanna.
Á þetta benti Björn Bjarnason réttilega í laugardagsskrifum sínum í þessu blaði hinn 19. júlí síðastliðinn: ”Við aðild að ESB fengi utanríkismálastjóri ESB stjórn samskipta Íslands við þriðju ríki, þar á meðal Bandaríkin, í sínar hendur... Þá hefur ESB augastað á hafsvæðum og landgrunni Íslands. Efnahagslögsagan er mjög víðfeðm ... Með aðild að ESB félli þetta svæði undir yfirráð Brusselmanna.”
Hinn 7. maí árið 2010 skrifaði Van Rompuy greifi, forveri Úrsulu von der Leyen sem talsmaður Evrópusambandsins, grein í Morgunblaðið þar sem höfðað var til Íslendinga og spurt í fyrirsögn „Hvers vegna Evrópa þarfnast þín nú?" Greinin minnti óþægilega á nýlenduhugsun fyrri tíðar. Stórveldisórarnir að þessu sinni voru ekki breskir, franskir, hollenskir, þýskir, spænskir eða portúgalskir. Nú var byggt á draumi um evrópskt stórríki. Við erum þegar „fimm hundruð milljónir", skrifaði Van Rompuy greifi stoltur, „og náum yfir Evrópu frá Finnlandi til Portúgals og Írlandi til Rúmeníu. Við deilum stærsta markaði heims og mikilvægri löggjöf, flest okkar hafa sameiginlega mynt, við deilum landamærum og pólitískum stofnunum; við deilum fortíð og framtíð. Þið leggið nú hart að ykkur að ganga í lið með okkur."
Það var rétt hjá Van Rompuy greifa, að margir lögðu hart að sér á þessum tíma að aðlaga íslenska stjórnsýslu regluverki og stjórnkerfi Evrópusambandsins, eða þangað til að í ljós kom að meirihluti þjóðarinnar var andsnúinn þessu brölti. Þá var ferlið stöðvað – og ákveðið að bíða átekta. Þessa sögu þekki ég vel.
Aðlögun er nú komin í gang að nýju án þess að þjóðin hafi verið spurð álits eins og lofað var við stjórnarmyndun. Þannig skrifaði ríkisstjórn Íslands hinn 21. maí undir skuldbindingu um að samræma utanríkisstefnu Íslands stefnu Evrópusambandsins í veigamiklum efnum. Hinn 15. júlí var síðan undirrituð viljayfirlýsing um afskipti ESB af málefnum hafsins og sjávarútvegs á Íslandi. Það er ekki undarlegt að Úrsula von der Leyen hafi viljað koma til Íslands til að þakka fyrir sína hönd og sinna.
Í kjölfar þess að forseti Leiðtogaráðs ESB útskýrði stórveldisdrauma Evrópusambandsins í hinu fyrra aðlögunarferli spurði ég í blaðagrein hvort menn teldu það virkilega þjóna hagsmunum Íslands að gerast útvörður ESB í norðri með stórskert yfirráð yfir auðlindum og án beinnar aðkomu að milliríkjasamningum. Með inngöngu Íslands í sambandið fjölgaði íbúum þar um 0,07 % en yfirráðsvæði sambandsins stækkaði um á aðra milljón ferkílómetra. „Koma aðrir jafn færandi hendi? Það er ekki að undra að herskáir stórveldissinnar líti hýru auga til Festung Island, Virkisins í norðri.“
En væri ekki ráð að áður en skrifað verði undir fleiri viljayfirlýsingar um aðlögun að ESB, íhuguðum við í alvöru hvar hagsmunir Íslands liggi, hvernig við best verjum lýðræði okkar og auðlindir landsins gegn ásælni hagsmunaafla sem nýlenduveldin, gömul og ný, kunna svo vel að þjóna?
--------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/