Fara í efni

REYKJAVÍKURBORG OG MÁLSHÁTTURINN

Birtist í helgarblaði  Morgunblaðsins 23/24.03.24.
Gutta cavat lapidem
… dropinn holar steininn, segir í að minnsta kosti tvö þúsund og fimm hundruð ára gömlum málshætti sem við þekkjum flest og skiljum á líka lund, að staðfesta skili sér um síðir. Í samræmi við það var þessi málsháttur, sem er kominn frá Forn-Grikkjum og síðar Rómverjum, ívið lengri því hann minnti á að steinn yrði ekki holaður með afli heldur réðist árangurinn af tíðni dropanna sem á hann féllu … non vi sed saepe cadendo. Þannig kom þessi speki úr penna rómverska skáldsins Ovidíusar.

Þetta er góð lýðræðisleg hugsun þegar hún er mátuð inn í mannheima; að rök og markviss málafylgja skili betri árangri en offors og valdbeiting. Og ætli megi ekki bæta því við að ekki aðeins verði árangurinn meiri heldur megi einnig ætla að niðurstaðan verði réttlátari hjá málafylgjumanninum en þeim sem beitir valdi til að fá sínu framgengt.

Í Reykjavík sjáum við nú þessar tvær aðferðir takast á, annars vegar valdbeitingu og hins vegar lýðræðislega málafylgju.

Þannig er að fyrir nokkrum árum var ákveðið að fækka bensínstöðvum í borginni og nýta landið þar sem þær hafa verið staðsettar til annarra nota.

Almennt var þessu vel tekið eða þangað til fólk sá hvað fyrir borgaryfirvöldum vakti. Það var þegar þau fóru að hafa á orði að við þessi skipti væri ráð að virkja “hagræna hvata”.
Í ljós kom að í stað þess að leysa lóðirnar til sín, eins og ella hefði gerst sjálfkrafa því að leigusamningar voru við það að renna út, þá var ákveðið að færa fjárfestunum sem ráku stöðvarnar lóðirnar á silfurfati – í reynd gefa þeim þær - því þeim skyldi veitt heimild til að skipuleggja þar nýja byggð í anda hinna hagrænu hvata – og fá þá ábatann í eiginn vasa!
Það þýddi á mannamáli, að því fleiri íbúðum sem þeir gætu hlaðið niður, þeim mun meiri ábati. Borgin fengi hámarks fasteignagjöld og fjárfestarnir græddu á tá og fingri. Þannig réðu hinir hagrænu vegvísar ferðinni, en vel að merkja, virkjaðir í þágu hagnaðarsjónarmiða, ekki lífsgæða.

Gróðinn af þessu ráðslagi yrði með öðrum orðum á kostnað borgarbúa, talinn í milljörðum króna, og má þá hafa í huga að rekstraraðilunum höfðu verið tryggð ný athafnasvæði áður en þessi rausnarlega greiðasemi í þeirra garð kom til sögunnar.

En það er á þessu hængur. Íbúarnir í hverfunum þar sem bensínstöðvarnar eru vilja ekki sjá þetta. Það á í það minnsta við á Ægisíðunni, en sá reitur hefur að undanförnu komið opinberlega til umræðu. Þar hafa íbúarnir sett fram vel útfærðar og sannfærandi tillögur án þess að fá þær einu sinni ræddar. Sama á við um ábendingar minjavarðar um varðveislu bygginga, einnig þær eru hundsaðar. Íbúarnir á þessu svæði telja að lífsgæði þeirra yrðu rýrð með tröllauknum nýjum byggingamassa, nánast ofan í þeim með tilheyrandi umferð, og að vonum sætta þeir sig illa við að borgarstjórnin hundsi þá til að geta þjónað gróðahagsmunum sem best. Varla geti þetta verið rétta leiðin til að skipuleggja borg.

Ég ætla að leyfa mér að taka undir með íbúum þessa hverfis, og allra þeirra hverfa þar sem svipað er ástatt, og spyrja hvort það geti virkilega verið svo, að þótt á þessu ranglæti sé stöðugt vakin athygli og því andmælt af stórum hópi sem farið hefur stækkandi, sé borgarstjórnarmeirihlutinn einhuga um að hafa að engu óskir um að horfið verði frá þessum áformum?
Getur það virkilega verið svo, að vilji íbúanna skipti borgaryfirvöld engu máli, engin rök hríni á þeim, engar ábendingar og engar óskir virtar, hvað þá droparnir hans Óvidíusar sem hann sagði að myndu að lyktum sýna fram á áhrif sín.

En hinkrum við. Það skyldi þó aldrei hafa verið rétt hjá rómverska skáldinu að dropinn holi að lokum steininn; að verði óskir borgarbúa í þessu ranglætismáli virtar að vettugi, þá muni stjórnarmeirihlutinn í Reykjavík aldrei losna við orðsporið af þjónkun sínni við peningaöfl. Þannig verði holur málflutningur hans við næstu kosningar í borginni þegar rætt verður um íbúalýðræði, skynsamlega og réttláta ráðstöfun fjármuna og í hverra þágu borginni skuli stjórnað.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.