Fara í efni

Reed/McCartney og Íslendingar

Tónlistarmaðurinn Lou Reed er á Íslandi. Margir kannast við hann eins og reyndar marga aðra, listafólk og annað þekkt fólk sem hefur sótt okkur heim að undanförnu. Það eiga þessir gestir sameiginlegt að engan frið fá þeir fyrir landanum, friðlausum af æsingi. Menn vilja ljósmynd eða eiginhandaráritun eða bara góna á hina heimsþekktu gesti. Það er af sem áður var að þekkt fólk sem sótti Ísland heim fékk að vera í friði. Aðkomumenn kunnu að meta þetta og þóttu Íslendingar menn að meiri fyrir að vera lausir við þann fáfengileika sem fylgir þessu frægra manna dekri. Framar öllu kunnu gestirnir að meta að fá að njóta friðhelgi. Fyrir fjórum árum kom Paul McCartney, bítillinn frægi, hingað til lands. Hann var eltur á röndum. Af því tilefni skrifaði ég litla blaðagrein með ákalli til fjölmiðlafólks. Þetta ákall á ekki síður við nú en þá.

Niðurlagsorð Morgunblaðsgreinarinnar voru þessi:  Sú var tíðin að Íslendingar höfðu þennan háttinn á. Eftir prívatheimsóknir margra heimskunnra einstaklinga til Íslands birtist iðulega lítil og látlaus frétt í Mogga um að herra eða frú NN hefðu haft hér viðdvöl og síðan ekki söguna meir. Sama gilti um aðra fjölmiðla ef þeir á annað borð gátu um slíkar heimsóknir. Mér er minnisstætt að heyra haft eftir slíkum einstaklingum sem hingað komu að þeir kynnu vel að meta þá kurteisi og tillitssemi sem þeim væri sýnd á Íslandi.
Hlýtur sú spurning ekki að vakna hvort það sé okkur samboðið að hundelta alla þá sem koma til landsins, og eru þekktir úr heimspressunni, með hljóðnema og myndavélar á lofti? Það er óumdeilanlegt að mörgum gestanna líkar þetta illa en hafa án efa vanist því að eiga hvergi athvarf. Spurningin er þó ekki aðeins hvað gestunum finnst heldur snýr þetta að mínum dómi einnig að sjálfsvirðingu okkar. Færi ekki vel á því að gera Ísland að friðlandi fyrir fólk - einnig það fólk sem eitthvað hefur sér til frægðar unnið en vill fá að vera í friði?

Hér er slóðin að blaðagreininni sem hér var vinað til