Fara í efni

Frægt fólk og fjölmiðlar

Birtist í Mbl
Fyrir nokkrum dögum kom Paul McCartney, fyrrverandi bítill, í stutta heimsókn til Íslands. Hann er heimskunnur maður sem á hér marga aðdáendur. Að vissu leyti var það rökrétt að heimsókn hans vekti áhuga fjölmiðla enda varð sú raunin. Hingað til lands kom Paul McCartney að sögn til að slaka á og njóta íslenskrar náttúru. Einkaflugvél tónlistarmannsins lenti á Reykjavíkurflugvelli að nóttu til og var greinilegt af öllu atferli hans, ef marka má ljósmyndir og fréttaflutning, að mikið vildi hann vinna til að vera laus við fjölmiðla og athygli. Ekki varð honum að þeirri ósk sinni.

Svipaða sögu er að segja af heimsóknum margra annarra þekktra einstaklinga sem hingað koma í frí. Vel má vera að margir þeirra njóti þeirrar athygli sem þeim er sýnd en öðrum er miður um hana gefið. Hið síðara virðist eiga við í mjög mörgum tilvikum og er þar komið að fyrirspurn minni til íslenskra fjölmiðla. Væri hægt að gera um það þegjandi samkomulag að láta þá afskiptalausa sem greinilega óska eftir því að fá að vera í friði?

Sú var tíðin að Íslendingar höfðu þennan háttinn á. Eftir prívatheimsóknir margra heimskunnra einstaklinga til Íslands birtist iðulega lítil og látlaus frétt í Mogga um að herra eða frú NN hefðu haft hér viðdvöl og síðan ekki söguna meir. Sama gilti um aðra fjölmiðla ef þeir á annað borð gátu um slíkar heimsóknir. Mér er minnisstætt að heyra haft eftir slíkum einstaklingum sem hingað komu að þeir kynnu vel að meta þá kurteisi og tillitssemi sem þeim væri sýnd á Íslandi.

Hlýtur sú spurning ekki að vakna hvort það sé okkur samboðið að hundelta alla þá sem koma til landsins, og eru þekktir úr heimspressunni, með hljóðnema og myndavélar á lofti? Það er óumdeilanlegt að mörgum gestanna líkar þetta illa en hafa án efa vanist því að eiga hvergi athvarf. Spurningin er þó ekki aðeins hvað gestunum finnst heldur snýr þetta að mínum dómi einnig að sjálfsvirðingu okkar. Færi ekki vel á því að gera Ísland að friðlandi fyrir fólk - einnig það fólk sem eitthvað hefur sér til frægðar unnið en vill fá að vera í friði?