Fara í efni

ÖRSAGA ÚR FERÐALAGI: HEFNDIN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.02.24.
Að þessu sinni var allt rækilega undirbúið, búið að tryggja langtímabílastæði, flugmiðarnir pantaðir með tveggja mánaða fyrirvara, sæti 26E og 26F. Þarna voru þeir útprentaðir í plasthulstri. Og þótt hjónin hefðu ekki náð því að borða hefðbundinn hafragraut í morgunverð þá höfðu þau rætt það að gera úr þessu svolitla hátíð og fá sér smurt brauð á Jómfrúnni í Leifsstöð. Þau höfðu gert þetta einu sinni áður og þótt hreint afbragð.
Og þarna sátu þau, sódavatn í fallegum glösum – líktust alvöru kristal – rækjusneið og önnur sneið með beikoni, osti og sultu – skornar til helminga svo að hjónakornin gætu skipt með sér herlegheitunum.

Flugstöðin iðaði af lífi, hafði greinilega tekið örum breytingum, verslanir komið og farið, en augljóst að alþjóðlegu keðjurnar voru að ná undirtökunum. Loforð sem gefin höfðu verið um að Leifsstöð yrði “íslensk”, í þeim skilningi að innlend fyrirtæki fengju þar forgang, voru löngu gleymd. Epal og Kaffitár hurfu á braut og inn kom Segafredo. Eitthvað kann þetta þó að vera að snúast við aftur og þarna var jú Jómfrúin. Og þar sátu hjónin nú alsæl.

Þau spjölluðu um heima og geima, fyrirhugað ferðalag og það sem fyrir augu bar. “Og nú ætla þau að fá erlendan banka í stað Arion banka”, sagði hann og hún botnaði með því að minna á að áður hefði Landsbankinn annast gjaldeyrismillifærslur í flugstöðinni.
En nú hafði semsagt erlendur banki greinilega boðið betur – en hverjum hafði hann boðið betur? Íslensku bankarnir höfðu okrað sem best þeir gátu í Leifsstöð. En búast mátti við að erlendi bankinn, sem var í þann veginn að ryðja sér til rúms, kæmi til með að okra enn meir. Og sem fyrr yrðu það að sjálfsögðu viðskipta - ”vinirnir” sem okrað yrði á. Þannig fara fyrirtækin að því að borga sífellt hærri prísa fyrir leiguplássið.

Þetta er vandinn við kapítalismann. Hann hugsar þröngt, um arðsemi og pyngju eigandans – en eins lítið um hag neytandans og hann kemst upp með. Því meira sem rekstraraðilar í Leifsstöð geta borgað Isavia þeim mun líklegri eru þeir til að fá þar aðstöðu og þeim mun meir seilast þeir ofan í vasa kúnnans.

En þar sem þau sátu þarna á Jómfrúnni létu þau sér þetta í léttu rúmi liggja. Maturinn frábær og starfsfólkið einnig, greinilega aðkomufólk sem lagði sig fram um að tala íslensku og gerði það vel. Það er virðingarvert þegar erlent fólk sem kemur hingað til starfa sýnir þá tillitssemi að spreyta sig á að tala tungu landsmanna.

Eitthvað annað en viðmótið á afgreiðsluborði í komusal. Þar var töluð enska, hátt og skipandi og þegar svarað var á íslensku var enn bætt í. Fór svo að það var gert beggja vegna afgreiðsluborðsins. Frúnni þótti um of, að ekki sé minnst á afgreiðslukonuna. Engin viðleitni til að fara bil beggja. Rauðir dílar í kinnum og lítið um kveðjur.

En allt var nú yfirstaðið. Og Parísarflugið framundan.
Hjónin gáfu sér góðan tíma á Jómfrúnni áður en þau héldu í áttina að hliði C32. Allt stóð heima. Fljótlega var hleypt inn í flugvélina. Þau fikruðu sig inn eftir ganginum. Mundu sætisnúmerin. En viti menn. Þeim hafði verið breytt.

Skapilli eiginmaðurinn var kominn í miðsæti vinstra megin í öftustu röð en frúin í gluggasætinu sínu hægra megin.
Ekki um annað að gera en að taka þessu.
En eftir stóð þá spurningin, hafði innritaða ferðataskan verið skráð á París? Var það kannski Barcelona? Aldrei að vita hvað úrillu fólki dettur í hug að gera. Ekki síst þegar haft er í huga að freisting er talsverð og hefndin sæt.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.