Fara í efni

ORÐSENDING TIL EINARS ODDS FRÁ ÞJÓÐVILJARITSTJÓRA Á SKAGANUM

Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, og einn helsti talsmaður atvinnurekenda um árabil, hefur hafið upp raust sína til að vara við vaxandi verðbólgu. Hann beinir varnaðarorðum fyrst og fremst til hins opinbera, ekki vegna stóriðjustefnunnar, þótt til hennar megi fyrst og fremst rekja hækkandi vexti, vaxandi verðbólgu og þenslu, heldur beinast orð hans einkum að því að vara við því að ríki og sveitarfélög bæti launakjörin hjá sínu fólki – þá sé voðinn vís.
Helgi Guðmundsson, fyrrum verkalýðsforkólfur og Þjóðviljaritstjóri, núverandi rithöfundur og ritstjóri Þjóðviljans á Skaganum, skrifar einkar athyglisverðan pistil í dag um þetta efni. Helgi segir m.a.:"Atvinnuvegirnir hafa greitt þau laun sem þeim sýnist umfram lágmarkslaun undanfarin ár. Þeir hafa borgað ýmsum stjarnfræðilegar upphæðir, en um leið dregið að sér erlent vinnuafl, oft á lægsta kaupi sem möguleg er. Hefði ekki komið til atbeini verkalýðshreyfingarinnar hefðu mörg fyrirtæki svínað miklu verr á hinu erlenda verkafólki og um leið þrýst kaupi og félagslegum réttindum verkafólks niður. Hvaða fólk skyldi þingmaðurinn vera að tala um, þegar hann segir að hið opinbera megi ekki greiða starfsfólki sínu þau laun sem atvinnuvegrinir þoli ekki? Hann er að tala um fólk sem er þegar á ósæmilega lágum launum, fyrst og fremst konur, oft ófaglærðar í umönnunarstörfum. Sömu dagana og þingmaðurinn kemur með sína „frumlegu” lausn á verðbólguvandanum birtast aftur og aftur fréttir um vandann í heilbrigðiskerfinu. Það vantar allsstaðar fólk. Hvers vegna? Svo notuð sé röksemdafærsla Einars Odss: þá greiða atvinnuvegirnir hærra kaup, fólk leitar frekar þangað ef það á þess kost. Með öðrum orðum – ef sömu rökum er beitt: einkageirinn dregur fólk frá hinu opinbera – greiðir laun sem sveitarfélög og ríki ráða ekki við, en ekki öfugt."
Ég hvet menn til að lesa pistil Helga Guðmundssonar í heild sinni HÉR.

Í dag sótti ég afar áhugaverðan fund á kosningamiðstöð VG í Reykjavík um málefni sem þessu tengist: Kjör ófaglærðra á hjúkrunarstofnunum. Eftir fundinn stendur tvennt upp úr. Baráttukraftur fólksins og óraunsæi atvinnurekenda. Í mínum huga verða þeir að endurskoða afstöðu sína til kjarasamninga. Á því leikur enginn vafi. Að þessu vék ég m.a. í ræðu minni 1. maí sl. : "Atvinnurekendur verða nú að endurskoða sína afstöðu og nálgun við samningsgerð. Þeir hafa litið á það sem sitt verkefni að standa gegn kröfum verkalýðshreyfingarinnar um kjarabætur. Því minni kjarabætur í samningum, þeim mun hróðugri eru þeir. En er þetta rétt afstaða? Hún er vissulega skiljanleg. Enhver mörk eru á því hvað fyrirtæki og stofnanir geta greitt starfsfólki í kaup. En á atvinnurekanda hvíla einnig aðrar kvaðir. Hann þarf að geta mannað sitt fley. Það er staðreynd að vandi hinna öldruðu á biðlistum eftir hjúkrunarrými er ekki einvörðungu sá að stjórnvöld hafi ekki svarað kalli um ný rými heldur er ekki hægt að manna það sem fyrir er. Aðstaðan nýtist ekki vegna manneklu. … Síðan þekkjum við það sem hefur verið að gerast hjá þeim sem kallaðir hafa verið ófaglærðir en eru í reynd mjög sérhæft starfsfólk – á mjög lágum launum. Á þeim sem neitað hafa að semja um hærri kjör þessu fólki til handa hvílir ábyrgð. Undir henni hafa þeir ekki risið. Fyrst og fremst er það þó fjárveitingarvaldið sem hefur brugðist. Það hefur ekki sinnt skyldum atvinnurekandans, ekki gert öldrunarheimilum og hjúkrunarstofnunum kleift að manna sitt fley."
Ræðan er HÉR í heild sinni.