Fara í efni

1. MAÍ RÆÐA Í STAPANUM Í REYKJANESBÆ

Ræða flutt í Stapanum í Reykjanesbæ í tilefni dagsins

Góðir félagar.
Það er sérlega ánægjulegt að vera hér í Stapanum hinn 1. maí. Það hef ég gert áður, en síðan eru liðin 16 ár. Ég hef leitað árangurslaust að ræðunni sem ég flutti þá. Kannski kemur hún einhvern tímann í leitirnar – ef til vill ekki. Það sem mig langaði til að rifja upp var tíðarandinn; hvað þá var sagt, hvort og að hvaða leyti það kynni að eiga erindi til samtímans. Ef ég man rétt gerði ég að umtalsefni auglýsingar sem þá birtust í fjölmiðlum um hann Jón og hana Gunnu. Og ef ég man rétt – sem ég þó er ekki alveg viss um að ég geri -  þá fjallaði ég um auglýsingar sem þá voru að birtast frá bönkum og fjármálafyrirtækjum; hvatningu á heilum og hálfum síðum dagblaðanna til þeirra Jóns og Gunnu að leggja fyrir – svona fimmtíu þúsund kall á mánuði – allir ættu að sýna fyrirhyggju, líka þau, líka Jón og Gunna. Nema hvað, í endurminningunni finnst mér að ég hafi staldrað við þá staðreynd að Jón og Gunna hafi alls ekki verið aflögufær. Allavega ekki hann Jón og hún Gunna í BSRB og í ASÍ, meirihluti íslenskra launamanna. Þau báru einfaldlega ekki svo mikið úr býtum fyrir vinnu sína að þau gætu séð af svo miklu sem einni krónu til að setja á bók.
Það sem var að gerast á þessum tíma var að kjaramunur var að aukast í samfélaginu – munurinn á milli þeirra sem minnst höfðu og sjálftökufólksins sem mest hafði. Hann Jón bankastjóri og hún Gunna, forstjóri fjárfestingarsjóðsins, voru búin að missa sjónar á nöfnum sínum, honum Jóni og henni Gunnu í fiskvinnslunni, á verkstæðinu  og við sjúkrabeðið.
Og nú –
nú erum við komin enn lengra á þessari vegferð.

Skyndilega gerist það að láglaunafólki á hjúkrunarstofnunum er nóg boðið og það gerir uppreisn – leggur niður vinnu og krefst kjarabóta. Þá hrekkur þjóðfélagið í kút og menn sammælast um að eitthvað verði að gera! Morgunblaðið birtir breiðsíður með áskorunum til verkalýðshreyfingarinnar um að berjast fyrir fátækt fólk á Íslandi og vandað er um við hreyfinguna og reyndar einnig atvinnurekendur af þessu tilefni.

En við hvern er að sakast? Auðvitað ber verkalýðshreyfingunni að líta í eigin barm. Þegar á heildina er litið hefur hreyfingin hamrað á mikilvægi þess að hækka lægstu laun. Jafnframt hefur hún lagt áherslu á jafnvægi og stöðugt verðlag, vel vitandi að verðbólgan er óseðjandi óargadýr sem étur upp umsamdar kjarabætur. Þróunin hefur síðan orðið sú að á stórum hluta íslenska launamarkaðarins eru aðeins til lágmarkstaxtar fyrir lægst launaða fólkið; taxtarnir sem allir segjast vilja hækka. Um aðra gilda einfaldlega hin frumstæðu lögmál; lögmálin um framboð og eftirspurn.

Þetta gerist þegar kauptaxtakerfið er afnumið eða komið úr öllum tengslum við veruleikann. Sums staðar er taxtakerfið enn við lýði upp eftir skalanum. Það á við hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum og stofnunum sem þeim tengjast. Þegar menn tala sig hása af æsingi yfir því að hækkanir til hinna lægst launuðu fari upp eftir öllum skalanum eru menn fyrst og fremst að horfa til þess sem gerist í kauptaxtakerfinu þar sem það er við lýði. Gagnrýnendur horfa sjaldnast í eigin barm eða til allra þeirra hjarða sem nánast hafa sjálftöku á launin eða hinna sem eru undirseldir markaðslögmálin.

Það er staðreynd að í síðustu samningum sömdu ríkið og mörg sveitarfélög um hlutfallslega meiri hækkanir til þeirra sem standa í efri þrepum launastigans en til hinna sem minna hafa. Það var ámælisvert. En við skulum líka vera raunsæ: Verkefnið er að halda utan um kauptaxtakerfi þannig að það gerist ekki, sem hent hefur víða í atvinnulífinu, að frumskógarlögmálin verða ráðandi. Ef menn frysta meðaltekjufólkið eða þá sem ofar standa án þess að sáttmáli um kjaraskiptinguna sé fyrir hendi og vilji til að virða hann, þá springur kerfið, menn brjótast út, fyrst í óunninni yfirtíð eða einfaldlega að taxtakerfið er virt að vettugi. Þegar launanefnd sveitarfélaga ákvað einhliða kjarabreytingar, án samráðs við stéttarfélögin þá skildi hún ekki þetta grundvallaratriði. Það kemur nefnilega dagur eftir þennan dag.

Nú eru menn að vakna upp við vondan draum þegar erlent launafólk streymir til landsins og er tilbúið að vinna á handónýtum lágmarkstöxtum. Sumir virðast aldrei geta hætt að fagna svokölluðum þjóðarsáttarsamningum sem gerðir voru fyrir hálfum öðrum áratug. Verkalýðshreyfing og atvinnurekendur náðu þá tímabundnum árangri við að kveða verðbólgu í kútinn. En í leiðinni hafa menn nánast gengið að kauptaxtakerfinu dauðu.

Fyrir launafólk er það slæmt því sjálfdæmi atvinnurekandans á kjörin í einstaklingsbundnum samningum er ávísun á vald honum til handa. Og þannig vilja þeir hafa það. Þeim er eflaust líka að skapi að verkalýðsbarátta snúist upp í að undirbúa einstaklinginn til sóknar inn á forstjóraskrifstofuna til að sækja betri kjör – ekki fyrir hópinn – aðeins fyrir sjálfan sig. Og ráðgjafar verkalýðsfélaga, ættaðir úr heimi auglýsngamennskunnar ráðleggja að menn skuli hafa sig vel til  – fara púðraðir og smurðir inn á forstjórateppið til að halda þar uppi andheitum áróðri um eigið ágæti. Þessi nálgun er þvert á alla samstöðuhugsun, hún mun aldrei verða hvatning til að berjast fyrir hina efnaminni, hina snauðu og þá sem verða útundan í þjóðfélaginu. Þetta er leið sérhyggju og sundrungar.

Ef við ætlum að smíða þjóðfélag réttlætis þá byggjum við á módeli samstöðunnar. Á vinnumarkaði er nú brýn nauðsyn að efla kauptaxtakerfið og láta það taka til sem flestra. Það er umhugsunarefni að þeir, sem hæst hafa látið í gagnrýni á Reykjavíkurborg og þá aðila sem hafa lyft lægstu kauptöxtunum, eru sjálfir á margföldum þessum launum og standa flestir utan allra kauptaxtaviðmiða. Það á til dæmis við um forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins.

Fyrr á tíð tíðkaðist það á togurum að skipstjórinn fékk tvö hluti en hásetinn einn og það mun vera almenna reglan enn. Væru menn reiðubúnir að taka upp slíkt fyrirkomulag? Væru forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og ritstjórar Morgunblaðsins reiðubúnir að vinna að slíku kerfi? Að efna til þjóðarsáttar um tekjuskiptinguna þar sem munurinn væri aldrei meiri en tvöfaldur eða eigum við að vera sveigjanleg og tala um þrefaldan mun eða jafnvel fjórfaldan, þótt slíkt væri mér þvert um geð. Og að þessi fastnegldi, niðurnjörvaði, samningsbundni munur gilti ekki bara fyrir aðra – heldur einnig um þá sjálfa, forsvarsmenn og forstjóra, alla aðstandendur Samtaka atvinnulífsins. Eitt veit ég, umræðan um kjör hinna lægst launuðu yrði þá ekki aðeins beintengd samvisku manna heldur einnig pyngjunni. Það hefur oft reynst áhrifarík tenging.

Atvinnurekendur verða nú að endurskoða sína afstöðu og nálgun við samningsgerð. Þeir hafa litið á það sem sitt verkefni að standa gegn kröfum verkalýðshreyfingarinnar um kjarabætur. Því minni kjarabætur í samningum, þeim mun hróðugri eru þeir. En er þetta rétt afstaða? Hún er vissulega skiljanleg. Enhver mörk eru á því hvað fyrirtæki og stofnanir geta greitt starfsfólki í kaup. En á atvinnurekanda hvíla einnig aðrar kvaðir. Hann þarf að geta mannað sitt fley. Það er staðreynd að vandi hinna öldruðu á biðlistum eftir hjúkrunarrými er ekki einvörðungu sá að stjórnvöld hafi ekki svarað kalli um ný rými heldur er ekki hægt að manna það sem fyrir er. Aðstaðan nýtist ekki vegna manneklu. Talsvert hefur verið rætt um skort á hjúkrunarfræðingum á heilbrigðisstofnunum landsins. Minna hefur verið rætt um skort á sjúkraliðum og er hann þó enn meiri. Árið 2001 leiddi rannsókn í ljós að um 850 sjúkraliða vantaði til starfa og væri síðan þörf á aukningu um þrjú hundruð á ári. En hvað gerðist? Þessir 850 komu aldrei til starfa og aukningin hefur aðeins verið brot af því sem talið var nauðsynlegt. Síðan þekkjum við það sem hefur verið að gerast hjá þeim sem kallaðir hafa verið ófaglærðir en eru í reynd mjög sérhæft starfsfólk – á mjög lágum launum. Á þeim sem neitað hafa að semja um hærri kjör þessu fólki til handa hvílir ábyrgð. Undir henni hafa þeir ekki risið. Fyrst og fremst er það þó fjárveitingarvaldið sem hefur brugðist. Það hefur ekki sinnt skyldum atvinnurekandans, ekki gert öldrunarheimilum og hjúkrunarstofnunum kleift að manna sitt fley.

Það merkilega er að þótt þróunin sé í þessa átt þá hafa flestir á henni ímugust. Það vita það allir, líka hálaunamaðurinn, að þjóðfélag jöfnuðar og jafnréttis er betri íverustaður en þjóðfélag mismununar. Sérstaklega veit þetta sá sem eignast fatlað barn eða barn sem gengur ekki vel í skóla eða þá sá sem er sjálfur veikur, á veika foreldra, systkini eða vini, að samfélag samhjálpar er hlýrra en samfélagið sem býður upp á þjónustu fyrir hinn þurfandi gegn gjaldi – þar sem hjálpin er ekki mæld í velvild og þolinmæði heldur í krónum og aurum, þar sem meira er lagt upp úr bókhaldi en vellíðan.

En ef við öll – eða flest viljum þetta frekar – hvers vegna önum við sífellt lengra út í frjálshyggjufenið? Hvers vegna er haldið áfram að færa alla starfsemi út á markaðstorgið? Torgið þar sem mönnum er mismunað?

Það er augljóst að markaðsöflin hafa á undanförnum árum haft yfirhöndina í hinni pólitísku baráttu í heiminum öllum – ekki bara hér á landi. Og það er sigurvegarinn  sem ræður tíðarandanum og þar með tískunni – hinni alls ráðandi tísku. Þeir sem eru í eldri kantinum muna eftir támjóu skónum – gott ef þeir eru ekki aftur komnir í tísku. Í kringum 1960 voru allir strákar á támjóum skóm - og stelpurnar með túberað hár einsog það var kallað. Svo komu þykku sólarnir. Um tíma fengust engir karlmannaskór nema með hnausþykkum sóla. Þetta var náttúrlega guðsgjöf fyrir hinn lágvaxna en hávaxni sláninn grét í hljóði – hann fann ekkert við sitt hæfi.

Eins er það með tískuna í pólitíkinni. Hún býður ekki upp á fjölbreytt úrval.
"Það er þekkt form,"  hafa þeir hverjir eftir öðrum, ráðherrarnir og ráðgjafarnir, "hlutafélagaformið hefur reynst einstaklega vel", segja þeir og trúin og alvöruþunginn leynir sér ekki. Það má vissulega til sanns vegar færa að hlutafélög eru góðra gjalda verð og prýðisform á fyrirtæki þar sem það á við. Fyrir daga hlutafélaganna reyndist til dæmis oft erfitt að selja fyrirtæki því það var annað hvort eða. Með hlutabréfum er hægt að selja fyrirtæki að hluta til sem að sjálfsögðu er mun sveigjanlegra og hentugra. Það er líka gott fyrir hluthafa að fá aðgang að rekstrinum á hluthafafundum, fylgjast þar með því hvernig gengur að ávaxta pundið. Þegar hins vegar ekki stendur til að selja – að því er sagt er – og hlutabréfíð er eitt og það síðan sett undir afturendann á einum ráðherra er vandséð hver ávinningurinn er. Fyrir starfsfólkið í stofnunum í opinberum rekstri sem eru hlutafélagavæddar eru réttindin rýrð og fólkið undirselt forstjóravaldi sem aldrei fyrr.

Á vinnuborði ríkisstjórnarinnar er ekki nóg með að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi, heldur líka ÁTVR, Flugmálastjórn – og þar með allir flugvellir landsins, og  Landhelgisgæslan – að hluta til – en þó er svo að skilja að allir starfsmennirnir verði sviptir þeim réttindum sem þeir hafa sem opinberir starfsmenn, rætist draumar ríkisstjórnarinnar.

Hún telur til mikils að vinna að gera fólk meðfærilegra eins og það er kallað. Þá er hugsunin sú að ráða alvitran ofurlaunaforstjóra sem síðan skákar taflmönnum sínum, peðunum, fram og til baka á borði sínu. Þessi sýn á starfsmanninn sem verkfæri forstjórans er í hrópandi mótsögn við þá hefð sem Íslendingar byggja á. Okkar styrkur á mesta uppbyggingarskeiði Íslandssögunnar, 20. öldinni, var hið andlega stéttleysi með þjóðinni. Þetta var að þakka því mikla umróti og þeirri uppstokkun sem varð í þjóðfélaginu. En það er líka að þakka baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir jöfnuði. Talsmenn hennar voru óþreytandi að minna á að tækist okkur að losa okkur undan sérgæsku og gróðaöflum þá ættum við bjarta framtíð. Verkalýðshreyfingin hefur alla tíð haft trú á getu mannsins – hvers og eins og vilja hans til góðra verka. Þetta er grundvallaratriði.

Þar sem Ríkisútvarpið er á annað borð til umræðu verður mér hugsað til Jóns Múla Árnasonar heitins, hins þjóðkunna útvarpsmanns og baráttukempu.
Skömmu fyrir andlátið, árið 2002, kom Jón Múli fram í sjónvarpsþætti þar sem hann ræddi lífshlaup sitt og þá ekki síst um vinnustaðinn sinn, Ríkisútvarpið. Ástæðuna fyrir því að Ríkisútvarpið varð að stórveldi íslenskrar menningar, sagði hann hafa verið þá að þangað voru ráðnir menn sem höfðu burði og getu, menn sem stundum deildu innbyrðis en áttu það sameiginlegt að hver og einn, á sinn hátt, vildi vinna útvarpi allra landsmanna vel, af trúmennsku og heilindum og það sem réð úrslitum - þeim hafi verið treyst. Þeir áttu að þekkja markmiðin, hafa leiðarljósin fyrir augum, síðan áttu þeir að hafa frelsi til að virkja eiginn sköpunarkraft.
Jón Múli lagði mikið upp úr hefðinni, sögunni, því besta úr arfleifðinni en ekki lagði hann síður áherslu á að við sýndum starfi okkar alúð og legðum við það rækt. Til þess að verða traustsins verður í starfi þyrfti sérhver maður að beita sjálfan sig aga og gera kröfur til sjálfs sín.
Mér bárust í hendur leiðbeiningareglur sem Jón Múli setti einhvern tíma niður fyrir þuli Ríkisútvarpsins. Þær bera þessu viðhorfi vott þótt alltaf hafi einnig verið stutt í glens og glettni. Á hálfri annarri vélritaðri síðu er að finna markvissar leiðbeiningar.
Vinnustaðnum ber að sýna virðingu; í leiðbeiningunum er lögð áhersla á stundvísi. Hún skal í hávegum höfð, röð og regla á öllum hlutum. En það sem lesandanum verður þegar ljóst er að þulnum er ekki fyrst og fremst ætlað að kynna menningarefni, hann er sjálfur að flytja menningarefni. Hann verður þess vegna að þekkja vel til sögu og menningar. Uppsláttarrit og fræðibækur eiga að vera þulum aðgengilegar og þeim ber að kynna sér það efni sem er á dagskrá. Rík áhersla er á það lögð að þulur hafi gott vald á íslensku máli, hann á að forðast málalengingar því þulur, segir Jón Múli, hefur skyldur við hlustendur og íslenskt mál og bætir því síðan við – að ekki síst hafi hann skyldur við eigin samvisku.
Þannig er sjálfsvirðingin samtvinnuð virðingu fyrir starfinu, fyrir hlustendum, fyrir Ríkisútvarpinu. Þetta var galdur Jóns Múla, þetta var sú sjálfsvirðing sem hann vildi innræta starfsstétt sinni enda lét árangurinn ekki á sér standa. Um kurteisina sagði Jón Múli, að hún ætti við um allt og alla – í málfari, í þeirri virðingu sem viðmælandanum er sýnd  og  “þótt leiðindaskjóður og fylliraftar hringi með derring og kjaft” – þá segir Jón Múli í leiðbeiningum sínum, að þuli beri “að taka öllu með ró – og vísa frá sér með elegansa”. Og ekki vildi hann í útvarpi upphafningu, tilgerð og guðdómleika – allt er þetta óþolandi í venjulegu útvarpi, segir lærimeistarinn – best að fresta öllu slíku til síns tíma – sem vonandi komi aldrei. Lesa ekki hótanir frá hinu opinbera um lögtök og uppboð eins og Fjallkonan sé að ávarpa þjóð sína – en engu betra er þó kæruleysið – það er jafnvel verra – einkum ef við bætist leiði og leti – þulur á alltaf að vera léttur í lund – vont skap breytist í andstyggilega fýlu í míkrófónum. Þá er gott ráð að byrja strax að brosa í huganum – og láta brosið færast í varirnar – þá léttist allt ...

Já, þá léttist allt. Ef okkur tekst að virkja jákvæðni og sköpunarkraft með hverjum og einum munum við ná árangri, langt umfram það sem gerist á vinnustað þar sem einræði og valdstjórn ræður ríkjum. Jákvæðni, vilji til góðra verka og samvinna flytur nefnilega fjöll.

Á sumardaginn fyrsta var útvarpað frá skátamessu í Hallgrímskirkju. Aðstoðarskátahöfðinginn, Bragi Björnsson, flutti þar umhugsunarverða ræðu. Hann sagði frá síðasta landsmóti skáta þar sem þúsundir skáta bjuggu saman í tjöldum um nokkurra daga skeið. Þeir mötuðust og sinntu í sameiningu öllum þörfum, í byggð sem var á við fjölmennt sveitarfélag. Þetta var eins konar reynslusveitarfélag, sagði hann, og minnti þá sem á hlýddu á öll þau verk sem þurfti að vinna bæði í undirbúningi og á meðan á mótinu stóð. Allt gekk upp. Allt unnið í sjálfboðavinnu og það sem meira var, á svæðinu var engin löggæsla. Þess gerðist ekki þörf. Menn voru staðráðnir í því að vinna saman að því að mótið yrði til fyrirmyndar. Það tókst.
Á Suðurnesjum er nú hætta á atvinnuleysi við brottför Bandaríkjahers. Það er ánægjulegt að fylgjast með bjartsýni manna og viljanum til að líta á þessar breytingar sem áskorun um nýja atvinnusköpun og ennþá kraftmeira samfélag en nú er við lýði. Hvaðanæva að af landinu heyrast nú raddir sem hvetja Suðurnesjamenn til dáða. Minnumst þess að með jákvæðni og samstilltu átaki má fá miklu áorkað. Slík viðhorf eru í anda verkalýðshreyfingarinnar. Slík viðhorf eru í anda fyrsta maí. Til hamingju með daginn.