Fara í efni

ÖÐRU VÍSI FRELSARI

Ekki er þetta frelsarinn með stórum staf þótt þeim hjá Frjálsri verslun finnist án efa varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, boða mikinn fögnuð.
Og gjafir vill hún gefa. Almannaeigur eins og fyrri daginn. Nú er það áfengið sem vildarvinirnir eiga að fá að græða á. Ótækt að almenningur fái söluhagnað í sínar hendur. Almennings á ekki að vera annað hlutverk en að drekka og síðan lækna þá sem drekka of mikið.
Og svo er það Mogginn sem eiginlega sló svoldið á páskastemninguna; stemningu sem hann hefur oft passað upp á.
Nú er skrifuð frétt sem dásamar hve víða verslanir eru opnar á páskum og mest er gleðin yfir þvi að hægt er að kaupa áfengi (að vísu ólöglega) í heimsendingarþjónustu.
Við erum með ríkisstjórn sem er svo vesöl að hún leyfir þessi lögbrot, er þeim samþykk eða hefur ekki bein í nefinu til að stöðva þau og því miður þá auglýsir Morgunblaðið lögbrotin sem reyndar einnig er ólöglegt að gera.


En við skulum samt eiga gleðilegan dag og sem flesta gleðilega daga.
Gleðilega páska!
 

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.