Fara í efni

MARGRÉTAR HEINREKSDÓTTUR MINNST

Í dag fór fram útför góðrar vinkonu minnar Margrétar Heinreksdóttur. Minntist ég hennar í Morgunblaðinu í dag og fer minningargreinin hér á eftir:

Hvaða mannkosti þarf góður fréttamaður að hafa til að bera? Heiðarleika og góða dómgreind myndi ég setja í efsta sætið. Síðan er það yfirsýn og þekking sem að sjálfsögðu kemur að betri notum þegar reynsla í starfi er einnig komin til sögunnar. Þá myndi ég nefna hugrekki. Fréttamaður sem flýtur með straumnum er engum til gagns en sá sem er reiðubúinn að gerast málsvari sannleikans í andstreymi rís hins vegar undir starfsheiti sínu með sæmd.

Ég er vitaskuld að lýsa Margréti Heinreksdóttur, samstarfskonu minni á fréttstofu Sjónvarps um tveggja ára bil á níunda áratug liðinnar aldar. Inn á fréttastofuna flutti Margrét með sér þekkingu og reynslu úr blaðamennsku. Vinnubrögð hennar voru öguð og er mér eftirminnilegt hve langt hún gekk eftir því að fá sannreynt allt sem hún lét frá sér fara. Óvönduð vinnubrögð voru eitur í hennar beinum. Hlutdrægni var henni fjarri.

Ég tel mig hafa lært margt af Margréti Heinreksdóttur og stend fyrir bragðið í þakkarskuld við hana. Bæði lærði ég af henni beint en ekki síður óbeint og vísa ég þar til starfsandans sem fylgdi henni. Með nærveru sinni lyfti hún fréttastofunni allri á meðan hennar naut þar við.

Varla voru til þau mannréttindasamtök í landinu þar sem Margrét Heinreksdóttir kom ekki við sögu. Ekki voru allir alltaf sáttir við framgöngu Mannréttindaskrifstofu Íslands meðan Margrét sat þar við stjórnvölinn en það átti þó svo sannarlega ekki við um þá sem brotið hafði verið á og þurftu á vörn að halda, heldur hina sem voru í valdastöðu og vildu helst að slíkar stofnanir létu lítið fara fyrir sér.

Það er mikil eftirsjá að Margréti Heinreksdóttur, sem greinanda í heimspólitíkinni, sem talskonu mannréttinda, sem háskólakennara og fræðikonu. Arfleifð hennar er hins vegar til staðar og verður ekki gleymd. Þá er minningin um góðan vin einnig dýrmæt.

Ég færi fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)