MANNRÉTTINDALÖGMENN Í MORGUNBLAÐINU
Síðastliðinn laugardag birti Morgunblaðið athyglisvert viðtal við þau Ceren Uysal og Jan Fermon, mannréttindalögmenn sem komu hingað til lands til þess að fjalla um niðurstöður mannréttindadómstóls um stríðsglæpi í Kúrdahéruðum Norður- Sýrlands, Rojava. Á mánudag töluðu þau fyrir fullu Safnahúsinu en fundurinn var undir merkjum fundaraðarinnar, Til róttækrar skoðunar.
Morgunblaðið sýndi málinu strax áhuga og birti prýðisgott og mjög fróðlegt viðtal við lögmennina. Um það sem þar kom fram ætla ég ekki að fjölyrða en hvet fólk til að lesa viðtalið sem má nálgast hér:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/22/framtidin_litur_illa_ut_fyrir_kurda/
Morgunblaðsgreinin í heild sinni:
Ceren Uysal, tyrkneskur mannréttindalögmaður í forsvari fyrir European Association of Lawyers for Democracy and World Human Rights (ELDH), og Jan Fernon, belgískur mannréttindalögmaður og aðalritari International Association of Democratic Lawyers, segja að framtíð Kúrda sé óljós.
Nýverið var mannréttindadómstóllinn Permanent Peoples’ Tribunal (PPT) kallaður saman í Brussel til að rannsaka og komast að niðurstöðu um ofbeldi Tyrkja á hendur Kúrdum í Rojava, en svo nefnist það hérað í Sýrlandi sem sýrlenskir Kúrdar ráða nú yfir.
PPT eru óháð frjáls félagasamtök, upphaflega stofnuð á Ítalíu árið 1979 af lögfræðingnum Lelio Basso.
„Þetta eru félagasamtök sem miða að því að skapa annan vettvang fyrir ábyrgð og umræðu um ábyrgð ríkja þegar það eru hindranir að aðgangi að alþjóðlegum réttarkerfum. Þarna kemur saman hópur sérfræðinga á þessu sviði sem mynda dómstól sem fylgir lagalegri uppbyggingu. Hann starfar alveg eins og raunverulegur dómstóll að frátöldum framkvæmdarhluta dómsins,“ segir Uysal.
Fá virta dómara til starfa
„PPT byggir á yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi þjóða frá 1976 og færir áhersluna frá einstaklingsbundnum mannréttindum yfir á sameiginleg réttindi þjóða, eins og sjálfsákvörðunarrétt. Það velur hina virtustu dómara til starfa, oft fyrrverandi hæstaréttardómara eða fyrrverandi embættismenn Sameinuðu þjóðanna, til að veita lagalegar álitsgerðir byggðar á traustum sönnunargögnum,“ segir Fernon.
Fyrr á árinu var Rojova valin til rannsóknar.
„Við fengum skýra, vel skrifaða beiðni frá sjálfstjórnarstjórn Rojova sem spurði hvort við vildum skipuleggja eitthvað slíkt. Við greindum þetta, mátum sönnunargögnin sem þau létu saksóknarateymið hafa. Við höfum fylgst með því sem er að gerast á svæðinu í norðausturhluta Sýrlands og höfðum áhyggjur af alvarleika málsins. Við ákváðum því að samþykkja beiðnina og hófum ferlið,“ segir Uysal.
Fernon segir að árið 2017 hafi PPT skipulagt dómstól í París sem einbeitti sér að herferð sem tyrknesk yfirvöld stóðu fyrir gegn Kúrdum í Tyrklandi á árunum 2015-2016.
„Það ferli gerði PPT þekkt meðal Kúrda í Sýrlandi, sem leituðu þá aftur til okkar með nýtt mál sem sneri að aðgerðum Tyrklands í Rojova.”
Þau segja að margt af því sem hefur átt sér stað í Rojova sé almenningi hulið.
„Til dæmis vita fáir að Tyrkland er á svæðinu án samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Tyrkland er greinilega hernámsaðili á þessu svæði. Þeir hafa rutt kúrdísku út úr skólunum og tyrkneska kemur í staðinn og þeir hafa jafnvel þröngvað inn notkun tyrknesku lírunnar. Það vantaði mikið af upplýsingum sem bentu sterklega ekki aðeins til glæpa gegn mannkyni og stríðsglæpa heldur einnig aðallega til árásarglæpa. Þetta sannaði að Tyrkland er að innleiða mjög skýra nýlendustefnu á þessu svæði,“ segir Uysal.
Aukið gildi í lagalegu samhengi
Uysal segir að niðurstaða dómstólsins geti veitt málinu aukið gildi í lagalegu samhengi. Fernon tekur undir það.
„Ég er sammála, þetta snýst um sýnileika og upplýsingar en ég tel líka mikilvægt að réttarhöldin hafi farið fram á þessum tímapunkti. Vegna þess að fólkið sem ræður nú ríkjum í Damaskus er í raun og veru þeir sem störfuðu sem tyrkneskir málaliðar á svæðinu í kringum Idlib, réðust á Kúrda fyrir hönd Tyrklands og frömdu flesta þessa glæpi. Tímasetning réttarhaldanna varpaði ljósi á þetta og upplýsti almenning hverjir þessir menn eru í raun og veru,“ segir hann.
„Annað mikilvægt atriði var tilfinningaleg viðbrögð áheyrenda,“ segir Uysal og lýsir því hvernig þau hafi hitti nokkra einstaklinga sem komu bara til þess að fylgjast með fundunum, þar á meðal gamlar kúrdískar konur, líklega mæður sem höfðu misst fjölskyldur sínar í árásunum.
„Þetta fólk hefur ekki tök á því að leita til Alþjóðaglæpadómstólsins eða annarra lagalegra leiða. Þessi dómstóll er vettvangur fyrir þau til að láta í sér heyra, sem er verðmæti í sjálfu sér,“ bætir hún við.
„Þetta hefur einnig áhrif á málsvörn. Þegar svona úrskurður kemur frá virtum lögfræðingum breytir það því hvernig hægt er að beita þrýstingi. Þetta eru ekki lengur „bara Kúrdar að segja þetta“. Nú hefur dómstóll, skipaður lagasérfræðingum, farið yfir alls konar gögn og komist að þeirri niðurstöðu að þjóðernishreinsanir og aðrir glæpir hafi átt sér stað. Það skiptir máli í pólitískum og lagalegum umræðum,“ segir Fernon.
Með hliðsjón af núverandi þróun í Sýrlandi og áframhaldandi árásum Tyrkja segir Uysal að framtíðin líti frekar illa út fyrir Kúrda.
„Því miður já, en þetta snýst ekki bara um Kúrda. Þessi heimshluti stendur frammi fyrir miklum óstöðugleika. Ég held að hver sem er á þessu svæði sjái í hvað stefni. Við sjáum hvað er að gerast. Nú þurfa Kúrdarnir að takast á við þessa nýju stjórn.“
Eiginlega ekki lengur ríki
„Framtíðin er óljós. Sýrland er eiginlega ekki lengur ríki. Suðurhlutinn er undir hernámi Ísraels og Damaskus er stjórnað af hópum sem njóta stuðnings Tyrkja. Mikill óstöðugleiki ríkir þarna, eini hlutinn sem er enn nokkuð stöðugur eru Kúrdarnir í Sýrlandi. Því fer það, held ég, mjög eftir því hvaða ákvarðanir þeir munu taka, hvaða bandalög þeir munu byggja upp, hvort þeir verði hryggur nýs sýrlensks ríkis, sem er held ég alveg möguleiki,“ segir Fernon.
Hann segir það augljóst að bandalag við Tyrkland sé ólíklegt þar sem Tyrkir hafa verið uppspretta þeirra vandamála í mörg ár.
„Það er þó alveg ómögulegt að segja núna í hvaða átt þetta fer.“
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna, stendur fyrir fundi um þessi málefni en þar munu Fernon og Uysal greina frá niðurstöðum dómstólsins. Fundurinn fer fram í hádeginu á mánudaginn á Hverfisgötu.
„Nær viðstöðulaust og fram á þennan dag hefur tyrkneski herinn og málaliðar hans haldið upp stöðugum árásum á Kúrdabyggðirnar. Bandaríkjamenn hafa veitt Kúrdum í Rojava stuðning – takmarkaðan þó og aldrei að því marki að þeir yrðu ógn við NATO-ríkið Tyrkland. Þessi stuðningur Bandaríkjamanna hefur þó orðið til þess að halda Tyrkjum að einhverju marki í skefjum,“ segir Ögmundur á heimasíðu sinni.
------------------------------------------------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/