MÁLFRELSISFÉLAGINU ÞAKKAÐ OG VAKIN ATHYGLI Á KROSSGÖTUM
Að til skuli vera félag sem heitir Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, er þakkarvert.
Að félaginu skuli takast að rísa undir nafni er aðdáunarvert.
Síðastliðinn laugardag efndi félagið til fundar í Þjóðminjasafninu í Reykjavík þar sem spurt var: "Er stjórnleysi á landamærunum að valda neyðarástandi á Íslandi?" Í framhaldinu komu síðan fleiri spurningar þessu tengt; allt erfiðar spurningar sem hækka blóðþrýstinginn hjá blóðheitu fólki.
Þess vegna kallast menn á um þessi málefni í þjóðfélaginu.
Á fundi Málfrelsisfélagsins ræða menn þau.
Ég hef sótt nokkra fundi Málfrelsisfélagsins. Þar hafa jafnan orðið fyrir valinu málefni sem menn skirrast við að ræða, kjósa fremur að kallast á og hafa hátt.
Í sjálfu sér finnst mér ekkert að því að hafa hátt. Og ef út í það er farið hafa menn gert alltof litið af því að hafa hátt í þjóðfélagi sem býður upp á annað eins misrétti og við búum við í íslensku samfélagi, að ekki sé minnst á hinn stóra heim; ég ætlaði að segja hinn stóra heim þar sem fantar og bjánar hafa komið sér fyrir á valdastólum en mundi þá að ég er að tala fyrir hófsamri og yfirvegaðri umræðu. Ég ætla að halda mig við það svo lengi sem mér reynist það unnt, minnugur þess að ég er einn af þeim sem blóðið kraumar gjarnan í.
Í rauninni ætlaði ég ekki að gera annað en að þakka Málfrelsisfélaginu fyrir fundinn, Svölu Magneu Ásdísardóttur, formanni Málfrelsisfélagsins, fyrir að minna okkur á að óttinn megi aldrei hertaka umræðuna, og í framhaldinu hugsaði ég í sæti mínu á fundinum að þarna væri komin skýringin á hinum forboðnu umræðuefnum sem Málfrelsisfélagið tekur til umfjöllunar, sérstaklega valin með það fyrir augum að skora fordóma og ótta á hólm.
Frummælendur vori Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi alþingismaður, Þórarinn Hjartarson hlaðvarpsstjóri og Sóley Lóa Smáradóttir, námsmaður. Öllum mæltist þeim vel fyrir sinn málstað en umræðunum stýrði Magnea Marínósdóttir og fórst það vel úr hendi eins og hennar er vandi.
Sérstaklega gott þótti mér að hlusta á Sóleyju Lóu Smáradóttur tala fyrir fordómleysi jafnframt því sem hún gagnrýndi stjórnvöld fyrir að aðhafast ekki sem skyldi þegar brotið væri á fólki. Hún hitti í mark, beint inn í mitt hjarta.
Málfrelsisfélagið leggur áherslu á að forðast beri alla fordóma – að dæma ekki áður en öll kurl eru komin til grafar, að gefa efsemdum rými.
Og þar sem varaformaður Málfrelsisfélagsins, Þorsteinn Siglaugsson, kvaddi sér hljóðs á fundinum um þennan þankagang leyfi ég mér að birta nokkur lokaorð í endurskoðaðri útgáfu af bók minni Rauða þræðinum. Þar segir:
„En hollt er að horfa til þeirra vídda sem eiga þrátt fyrir allan ágreining að vera sameinandi. Við þurfum öll að standa saman um það sem Þorsteinn Siglaugsson heimspekingur kallar mikilvægi efasemdanna, að við látum aldrei banna okkur að efast, skoða heiminn á gagnrýninn hátt. Efasemdarmaðurinn eigi með öðrum orðum að vera maður ársins og kannski allra ára.»
Félagið Málfrelsi gefur úr vefmiðilinn Krossgötur og mæli ég með honum: https://krossgotur.is/
----------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)