Fara í efni

LYGAR SEM ÚTFLUTNINGSVARA

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.01.24.
“Ég er maður prinsipfestu, en ef þér líkar ekki við prinsip mín þá á ég önnur sem kannski falla betur að þínum smekk.” Þetta var haft eftir þekktum háðfugli bandarískum og þótti fyndið og þykir enn.

Þegar hins vegar svo er komið að heimfæra má þessa afstöðu upp á stjórnmál samtímans þá hættir brandarinn að vera brandari.

Hvernig má það annars vera að þeim sem gefa sig út fyrir að vera umhverfissinnar, græn í gegn, líður að því er best verður séð, alveg prýðilega í stjórnarsamstarfi með þeim sem finnst allt gefandi fyrir þenslu, sífellt vaxandi hagvöxt með tilheyrandi orkunotkun og virkjunum?

Þetta er greinilega lítið mál í heimi stjórnmálamanna sem bjóða upp á valkvæð prinsip. Þeir ná sér einfaldlega í nýtt prinsip sem nú heitir kolefnisjöfnun. Það er töfrasprotinn sem gerir allt gott. Þannig að þegar umhverfissinnarnir og virkjunarsinnarnir taka höndum saman um að þenja út hagkerfið með túrisma á fjórbreiðum vegum, nýju hóteli í viku hverri, herþotur hringsólandi í háloftunum, kjarnorkuárásárvélar orðnar aufúsugestir, allt á fullu, stærra og meira, þá er bara að planta milljón trjám og hókus pókus allt verður gott. Með milljón nýjum öspum má gefa aftur í – um sinn í það minnsta.

Nú er í undirbúningi að ríkisstofnanir kaupi kolefnisvottun frá nýju fjárfestunum sem eru í óða önn að græða upp Ísland í meira en einum skilningi. Þeir kaupa land eða taka það á leigu, trjám er svo plantað til að binda koltvísýring í loftinu og ríkinu og fyrirtækjum síðan seld vottorð um kolefnisjöfnun vegna mengunar af þeirra völdum.

Í hvers þágu skyldi þetta vera gert? Ekki er þetta í þágu náttúrunnar, að henni er sótt af stöðugt meiri þunga, ekki hagnast íslenskir skattgreiðendur, þeir borga brúsann þótt fyrst í stað hafi óheiðarleikinn fært tekjur til Íslands,

En ekki nóg með þetta því að gera má betur. Það má beinlínis græða á mengun! Að vísu kostar það enn tilslökun á prinsipum og það meira að segja nokkuð mikilvægum prinsipum, það er að segja heiðarleika og sannsögli. En stjórnvöld sem eru orðin ýmsu vön hafa látið sig hafa þetta sem annað enda engir smá hagsmunir í húfi.

Fyrir rúmum áratug var farið að versla með svokallaðar upprunavottanir. Það þýddi að þeim sem notuðu orku sem framleidd væri með mengandi jarðefnum eða kjarnorku var nú heimilað samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins að kaupa vottorð um að í raun væri framleiðslufyrirtæki þeirra knúið með “grænni” orku. Þetta var náttúrlega hrein himnasending fyrir Ísland þar sem orkuframleiðslan var 100% vistvæn og græn. Landsvirkjun hugði því gott til glóðarinnar og tók að selja slík upprunavottorð suður til Evrópu og viti menn, mestu umhverfissóðar þar gátu nú sýnt sínum kúnnum skírteini til marks um að þeir væru hreinir sem englar.

En tvær grímur fóru að renna á ýmsa þegar í ljós kom að orkan á Íslandi væri aldeilis ekki græn lengur, það er að segja í bókhaldinu. Á vefsíðu Orkustofnunar stendur nú skýrum stöfum að 24% íslenskrar orku séu framleidd í kjarnorkuverum (með tilheyrandi geislavirkum úrgangi), 63% með kolum og olíu (með tilheyrandi koltvísýringslosun) en græna endurnýjanlega íslenska orkan er komin niður í 13%. Veruleikinn er hins vegar er sá 70% innlendrar orku kemur frá vatnsaflsvirkjunum og 30% frá jarðvarma.

En svo kemur að skuldadögunum. Í fyrsta lagi geta íslensk fyrirtæki, sem keppa meðal annars við evrópsk, ekki lengur stært sig af því að byggja á hreinni orku – nema að þau kaupi vottorð. Þar standa keppinautarnir þeim nú jafnfætis því þeir geta líka náð sér í tilheyrandi vottorð, einnig verstu mengunarsóðarnir.

Nýjustu fréttir eru þær að nýtilkomnir milliliðir á íslenska “orkumarkaðnum” séu byrjaðir að bjóða “viðskiptavinum” sínum upp á upprunavottorð. Og nú spyrja menn agndofa, til að fá hvað staðfest? Og svarið er þetta: Til að fá það skjalfest að orkan sem þú kaupir sé græn en ekki framleidd í kjarnorkuveri eða með kolum og olíu. Já, en hér eru engin kjarnorkuver! Það skiptir engu máli – það segir í opinberum gögnum að staðreyndin sé önnur.

Landsvirkjun bendir á það á vef sínum að upprunavottorðin hafi margfaldast í verði og stefni í að Íslendingar geti selt falsbréf fyrir um tuttugu milljarða. Fyrir þá fjármuni segist Landsvirkjun geta virkjað meira og svo ennþá meira. Þarna sé með öðrum orðum kominn hvati inn í kerfið til frekari virkjana sem án efa gleður Guðaug ráðherra en síður Landvernd sem vill ekki að íslenskum náttúruperlum verði fórnað til að grænþvo mengunariðnað í Evrópu.

Eitt er ljóst. Erlend stórfyrirtæki eru tilbúin að greiða háar fúlgur fjár svo þau komist upp með að ljúga til um orkuöflun sína.

Svo má líka skoða þessa fjármuni í öðru samhengi, hvernig skuli verðleggja sjálfsvirðingu þjóðar. Eða á kannski ekkert að verðleggja hana?
Ég hallast að því; að best fari á því að sjálfsvirðingin gangi ekki kaupum og sölum.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.