Fara í efni

LOKADÓMUR Í BROTTVÍSUNARMÁLI JULIAN ASSANGE Í LONDON – HLUTUR ÍSLANDS RIFJAÐUR UPP

Þessa mynd hér að ofan tók ég af heimasíðu Kristins Hrafnssonar, aðalritstjóra Wikileaks, en hann fylgist nú með tveggja daga “réttarhöldum” í London þar sem látið er á það reyna hvort lögfræðingum Julian Assange verði heimilað að áfrýja að nýju uppkveðnum úrskurðum um að Julian Assange skuli fluttur nauðungarflutningum til Bandaríkjanna þar sem hann ætti yfir höfði sér 175 ára fangelsisdóm fyrir að hafa gerst brotlegur við bandarísk lög þegar hann upplýsti um stríðsglæpi Bandaríkjanna og annarra NATÓ ríkja svo og íhlutun þeirra í málefni sjálfstæðra ríkja.

Julian Assange hefur setið í bresku fangelsi án ákæru sem pólitískur fangi í fimm ár og vel að merkja samkvæmt undirituðum samningi á milli Bretlands og Bandaríkjanna hafa bæði ríkin skudbundið sig að afhenda ekki hvort öðru pólitíska fanga. Julian Assange er tvímælalaust pólitískur fangi, ástralskur ríkisborgari, fyrrum ritjóri Wikileaks, upplýsingaveitu sem rekin var utan landsteina BNA.

Þetta mál er grafalvarleg aðför að tjáningarfrelsi í heiminum.

Belgíska blaðið Le Soir birti í gær heilsíðuviðtal við mig um tilraunir bandarísku alríkislögreglunnar FBI að fá Íslendinga til að gerast samsekir henni um að skálda upp glæpakæru á Julian Assange. Það var árið 2011 en þykir nú fréttnæmt og ástæða til upprifjunar.
Fyrir þá sem ekki muna eða þekkja til, þá var óskum FBI um samstarf hafnað og lögreglumennirnir bandarísku og saksóknararnir. tæplega tíu talsins, sem hingað voru komnir óboðnir, beðnir um að hafa sig á brott.

Því má bæta við að FBI voru aftur mættir til Íslands vorið 2019. Fengu þeir þá alla þá hjálp frá íslenskum stjórnvöldunm sem leitað var eftir.

Umfjöllun Le Soir

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.