Fara í efni

LEIÐTOGAR OG VIÐ HIN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01/02.06.24.
Karl Marx sagði einhvers staðar að á byltingartímum yrði sú hagsmunabarátta sem sífellt væri háð í samfélaginu hvað sýnilegust. Þá skildu allir hvað væri í húfi ef núverandi skipulagi yrði hafnað, eða alvarlega við því hróflað, en aðrir eygðu þar með von um betra hlutskipti.

Í ljósi hagsmuna tækju menn afstöðu og eftir því sem ógnin eða vonin, eftir atvikum, væri sýnilegri, þeim mun harðari afstöðu tækju einstaklingar og þjóðfélagsstéttir. Þá mætti sjá samfélagið í hnotskurn.

Ekki skrifa ég upp á þessa stífu hagsmunahyggju að öllu leyti en tel þó mikið vera til í henni.

Almennar kosningar eru ekki bylting, fjarri því, og því síður eru íslenskar forsetakosningar bylting. Leiða má rök að því að þær skipti harla litlu máli þegar allt kemur til alls.

Engu að síður koma ýmis hagsmunaöfl í ljós þegar umræðan og baráttan vindur upp á sig. Í helgarpistli sem birtist að morgni kosningadags er varla við hæfi að leggjast í vangaveltur um slík öfl að verki í þessari kosningabaráttu, hvað sem síðar verður. En til staðar eru þau augljóslega.

Hitt er ekki úr vegi að ræða, hvað einkenni þessar forsetakosningar umfram fyrri slíkar kosningar. Þar er það tvennt sem stendur upp úr. Í fyrsta lagi hvort verið sé að kjósa leiðtoga, greinilegt er að ýmsir telja að svo sé. Í öðru lagi er mikið rætt um málskotsréttinn.

Um leiðtoga höfum við ótal greinar og yfirlýsingar að horfa til. Upp úr stendur þegar þrír eldri menn lásu upp texta þar sem einn frambjóðandinn var sagður geta leitt þjóðina í gegnum erfiðleika á vegi hennar, hamfarir og sjúkdómsfaraldra og ýmsar villur á vegi vegalauss fólks. Allt voru þetta sterkir einstaklingar, að því er almennt var talið, og kom því nokkuð á óvart hve umkomulitlir þeir birtust okkur í ávarpi sínu.

Sjálfur vil ég ekki vera leiddur og enga slíka raun get ég ímyndað mér sem forseti gæti leyst umfram það sem við getum sjálf. Það er samfélagið sem við eigum að leggja áherslu á og rækt við. Samheldnin þar ræðst ekki af „leiðtogum“ heldur því hve sanngjarnt samfélagið er gagnvart öllum þegnum sínum. Réttlátu samfélagi vegnar vel en þjóðfélögum sem upphefja foringja vegnar alltaf illa. Upphafning einstaklinga er til ills því slíkt smitar út í allt samfélagið, þar með inn á vinnustaðina þar sem stjórnendur fara að líta á sig sem „yfirmenn“, yfir aðra hafna.

En þótt ég frábiðji leiðtogadekur - eins fullkomlega hjákátlegt og mér finnst allt það tal vera - þarf forseti Íslands engu að síður að vera vel frambærilegur einstaklingur sem nýtur velvildar sem flestra í þjóðfélaginu og kemur fram af reisn – fyrir minn smekk helst látlausri reisn.

Svo er það málskotsréttur forseta og þá hvort og hvernig honum skuli beitt. Sá tími er vonandi ekki langt undan að þjóðin geti farið fram á þjóðartkvæðagreiðslu beint og án milligöngu forseta. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að því fleiri grundvallarmál sem gangi til þjóðarinnar, þeim mun betra.
En frumkvæðið verður að koma frá þjóðinni; að forsetinn bregðist við kalli drjúgs hluta hennar en ekki að þjóðin bregðist við kalli forsetans. Forsetaræði vil ég ekki. En forseti, og það er lykilatriði, verður að virða lýðræðislegan rétt þjóðarinnar til þess að taka ákvörðunarvaldið til sín, kjósi hún svo. Víst er að við byggjum ekki við kvótakerfið í sjávarútvegi í núverandi mynd ef þjóðin hefði fengið um það ráðið og einkavæðing fjarðanna í hendur norskra fjárfesta myndi aldrei ná fram ef þjóðin fengi lokaorðið, svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.

Sjálfum finnst mér að í þessari kosningabaráttu hafi verið gert of mikið úr hlutverki forseta bæði við stjórnarmyndun, sem er fjarri því að vera eins flókið viðfangsefni og margir virðast telja, og hins vegar hlutverki forseta á alþjóðavettvangi. Ég sé forseta fyrst og fremst vera talsmann íslenskrar tungu, menningar og náttúru í ásælnum auðvaldsheimi. Hann tali máli réttlætis og friðsamlegra lausna og gleymi aldrei þeim sem standa höllum fæti, ekki síst þeim sem ekki fá áheyrn hjálparlaust. Þetta eigi að vera hlutverkið, fyrst og fremst heima – fremur en heiman.

Frambjóðendur hafa eðlilega mismunandi skoðanir en það sem ég held að margir gætu sameinast um að vilja sjá á Bessastöðum er heiðarleiki - ofar öllu öðru.
Sennilega er það prinsipfestan sem hvað sárast er saknað í samtímanum.
Prinsiplausir leiðtogar eru hins vegar á hverju strái.

-------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.