Fara í efni

INNVIÐIR Á HLAÐBORÐI

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.09.25.
Í nær þrjá áratugi var ég í forsvari fyrir samtök launafólks. Þar lærði ég margt, ekki síst þegar gengið var til samninga.
Þá kom ég auga á hvernig klókir samningamenn báru sig að. Þeir lögðu allt upp úr því að vera fyrri til, eiga frumkvæðið. Eins fljótt og þeir komu því við stilltu þeir upp sinni kröfu, sínum rökstuðningi, sinni sýn, allt í þeim tilgangi að um þá nálgun yrði síðan tekist.

Þetta kunna þeir ágætlega enn hjá atvinnurekendasamtökunum og hjá Samtökum iðnaðarins eru þeir beinlínis brilljant í þessari tækni.

Hvort það voru þeir eða aðrir sem fundu upp “innviðaskuldina” þori ég ekki að fullyrða, en þar var kominn byrjunarreiturinn sem Samtök iðnaðarins hefja viðræðu sína á við stjórnvöldin þessa dagana. Og ekki þarf að ræða málin lengi þar til í ljós kemur hve afleit málefnastaða stjórnvalda er í stórfelldri skuld upp á mörg hundruð milljarða. Og ekki bætir úr skák þegar bent er á að þessi skuld sé dulin, hvergi færð til bókar, ekki til í ríkisbókhaldinu sem veki spurningar um bókhaldsbrellur og svik. Það hlýtur hins vegar að vera óumdeilt að skuldin sé fyrir hendi því við finnum öll fyrir henni. Hvernig? Jú, í holóttu vegunum sem við ökum á, byggingum sem þarfnast viðhalds, og ekki megi gleyma virkjana- og vindorkuskuldinni. Við höfum vanrækt að byggja vindmyllur og virkja fleiri hveri og fossa til að grynnka á þeirri skuld.

En ekki láta hugfallast, sagði Sigurður Hannesson hjá Samtökum iðnaðarins i Kastljósi Sjónvarpsins nýlega, fyrirtæki og fjárfestar væru reiðubúnir að koma til bjargar, reisa vindmyllur og virkja, leggja frábæra vegi og gera göng og síðan að sjálfsögðu hlúa að öllum vanræktum byggingum auk þess að reisa nýjar. Með öðrum orðum, ef innviðirnir yrðu færðir upp á hlaðborð yrði öllu þessu gerð góð skil.

Daði fjármálaráðherra var sagður hafa góðan skilning á hve erfið innviða-skuldastaðan væri og íhugaði að setja á laggirnar sérstakan innviðasjóð, væntanlega með aðkomu Sigurðar og félaga. Fram kom í þessum sama þætti hjá Ólafi Sigurðssyni, formanni nefndar um „fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna“, að unnið hefði verið ötullega að því að skapa lífeyrissjóðunum aðkomu að þessari bráðaaðgerð ríkissjóði til bjargar vegna “innviðaskuldarinnar”. Ólafur taldi almenna sátt vera um að lífeyrissjóðirnir gerðu sig gildandi við björgun á innviðum landsmanna með fjárfestingarfé.

Þáttastjórnandi keypti allan pakkann. “Innviðaskuldin” væri vandamálið sem þyrfti að leysa og jafnframt þyrfti að svara ýmsum spurningum: Hve mikið ætti að borga fjárfestum í arðgreiðslur, hvað myndu lífeyrissjóðirnir sætta sig við, hve há ættu notendagjöld að vera og svo framvegis. Að sjálfsögðu yrði þetta ekki ókeypis.

En hinkrum við. Er þetta ekki gömul umræða sem hófst fyrir alvöru undir stjórn hans Tonys Blair í Bretlandi á tíunda áratugnum? Þetta var svokallað Private Finance Initiative, PFI, og reyndist skattborgurum gríðarlega afdrifaríkt. PFI gerði nefnilega út á vasa þeirra. Og talandi um bókhaldsbrellur, þá voru þær einmitt ein höfuðmeinsemd einkaframkvæmdar eins og fyrirbrigðið var kallað þegar það hóf innreið sína hér á landi með slæmum afleiðingum. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var þetta kallað „nýja samvinnustefnan“ en við þá nafngift munu gengnir framsóknarmenn allir sem einn hafa snúið sér við í gröf sinni.

Dæmið er þá svona: Ríkissjóður og sveitarsjóðir eru með takmörkuð fjárráð. Í stað þess að bæta stöðu sína með fjáröflun er brugðið á það ráð að fá einkafjárfesta til framkvæmda, þeir byggja og leigja síðan út, jafnvel reka starfsemina, en skuldbindingar hinna opinberu aðila koma hins vegar ekki fram á framkvæmdastigi, heldur aðeins þegar fram í sækir og farið er að greiða fyrir leigu og afnot. Þá kemur að sjálfsögðu í ljós að þetta tiltæki var skattgreiðendum verulega óhagstætt.

Þess vegna er nú spurt hvort ekki væri ráð að skilgreina byrjunarreitinn upp á nýtt, segja sem er, að víða sé pottur brotinn, laga þurfi sitt hvað í samgöngukerfinu, opinberum byggingum og ýmsu öðru sem nú orðið kallast innviðir samfélagsins.

Í stað þess að skilgreina holóttan veg sem skuld sem Sigurður Hannesson og Ólafur Sigurðsson vilji aðstoða skattgreiðendur við að borga upp, þá segjum við einfaldlega að við ætlum að verja nauðsynlegum fjármunum í það að laga veginn. Ef við þurfum að taka fé að láni til þessara framkvæmda gætum við snúið okkur til Ólafs og félaga hjá lífeyrissjóðunum og fengið þá til að veita okkur lán með sanngjörnum vöxtum en án þess að þeir kæmu til með að eignast veginn og rukka notendur.

Ríki og sveitarfélög eiga að reisa og reka sjálf, afla til þess fjár með sanngjörnum sköttum og vilji þau selja aðgang að tiltekinni starfsemi geri þau það sjálf án aðkomu milliliða. Þeir eru nefnilega byrði á samfélaginu þegar allt kemur til alls. Fjármagnið á með öðrum orðum ekki að ráða og milliliðir eiga ekki að hagnast á innviðum samfélaga.

Opið hlaðborð væri þá að sjálfsögðu úr sögunni en samfélagið eflt og treyst á sínum eigin forsendum.

----------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)