Fara í efni

GOTT HJÁ LÍFEYRISSJÓÐUNUM ! - NÚ ER TÍMI LAUSNA – EKKI ÁSAKANA

Í dag tóku lífeyrissjóðirnir ákvörðun um að fresta til áramóta að skerða greiðslur til öryrkja úr lífeyrissjóðum  eins og til hafði staðið að gera nú um mánaðamótin. Með þessu eru lífeyrissjóðirnir að koma til móts við kröfur Öryrkjabandalags Íslands. Í reynd er um að ræða lengri frest en til áramóta því lífeyrissjóðirnir greiða eftir á þannig að nær lagi væri að tala um frest til þriggja mánaða eða til mánaðamótanna janúar/febrúar.

Vissulega hefði verið betra að fresturinn hefði verið til lengri tíma en við hljótum engu að síður að fagna því að lífeyrissjóðirnir skuli hafa ákveðið að verða við kröfum ÖBÍ að fresta framkvæmdinni.

ÖBÍ berst fyrir félagsmenn sína og gerir það vel. Það sama á við um forsvarsmenn lífeyrissjóðanna. Ég þekki afstöðu fulltrúa verkalýðsfélaganna mæta vel. Þeim, engu síður en forsvarsmönnum öryrkja, er umhugað um að finna réttlátar lausnir.

Nú ríður á að nota tímann vel, hefja sig upp úr skotgröfum og freista þess að ná samkomulagi um framhaldið. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og öryrkja eiga að setjast yfir málið nú þegar,  svo og löggjafinn sem ber mesta ábyrgð á bágri stöðu öryrkja á Íslandi í dag. Að þessu sögðu vil ég þó leggja áherslu á að næstu mánuðir eiga ekki að vera tími ásakana heldur lausna.

Um mína afstöðu í þessu máli vísa ég til blaðagreinar sem ég ritaði í Morgunblaðið fyrir nokkru og er að finna HÉR.