Fara í efni

TEKIÐ UNDIR MEÐ ÖRYRKJABANDALAGINU

Birtist í Morgunblaðinu 15.09.06.
Öryrkjabandalagið hefur farið þess á leit við þá lífeyrissjóði, sem eru að endurskoða greiðslur  til öyrkja, að þeir fresti því um sinn að breyta greiðslunum ef þær eru til skerðingar. Á það er bent að þeir sem yrðu fyrir skerðingu eru í flestum tilvikum tekjulægsta fólkið í landinu en upplýst var á nýlegum fundi með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna og Örykjabandalagsins í Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem yrðu fyrir skerðingu, væru einstaklingar sem fá einvörðungu greiðslur úr lífeyrissjóði og Almannatryggingum og hafa því engar launatekjur.
Hvernig má það vera að þetta fólk þurfi nú að sæta skerðingu? Lífeyrissjóðirnir hafa um það reglur að sjóðsfélagar fá framreiknaðan lífeyri, verði þeir fyrir þeirri ógæfu að missa starfsorku. Ákvæði eru um að í slíkum tilvikum skuli öryrkjanum tryggður lífeyrir sem þó verði ekki hærri en hann aflaði með launavinnu sinni fyrir orkutapið. Þessar greiðslur úr lífeyrissjóðunum eru síðan reglulega uppfærðar  því hugmyndin er sú, að þrátt fyrir verðbreytingar haldi öryrkinn óbreyttum kjörum. Sá hængur er á að þessir útreikningar byggja á neysluvísitölu, það er almennri veðlagsþróun en ekki launavísitölu. Það hefur það í för með sér að verði kaupmáttaraukning, þ.e. laun hækki umfram almennt verðlag, einsog gerst hefur á undanförnum árum, dregst öryrkinn kjaralega aftur úr launamanninum. Þá erum við komin að því sem nú er að gerast. Viðkomandi lífeyrissjóðir hafa lagst í þá vinnu að skoða réttindi hvers og eins lífeyrisþega, sem fær örorkubætur úr sjóðnum. Eins og reglur sjóðanna gera ráð fyrir, horfa þeir einvörðungu til neysluvísitölunnar. Og niðurstaðan verður sú að stór hópur verður fyrir skerðingu. Sú niðurstaða er umdeilanleg og röng miðað við fyrirheit um tekjutryggingu öryrkjanum til handa. Þess vegna þykja þessar reglur orka tvímælis.
Að mínu mati ber lífeyrissjóðunum tvímælalaust að haga reglum sínum á þann veg að framreikningurinn byggi á launavísitölu en ekki neysluvísitölu. Aðeins með því móti fæst samsvörun við launakjörin, sem fyrirheit voru um að tryggja.
Almannatryggingakerfið þarf að koma betur til móts við öryrkja en nú er gert. Þetta þarf að gera gagnvart öryrkjanum beint en einnig óbeint með stuðningi við lífeyrissjóðina. Hvað þá áhrærir er að mínu mati réttmætt að grípa til sértækra aðgerða gangnvart þeim lífeyrissjóðum sem bera mestu örorkubyrðarnar en þess eru dæmi að örorkubætur eru yfir 40% heildargreiðslna úr sjóðum. Það gefur auga leið að slíkar útborganir án iðgjalda geta orðið sjóðunum erfiðar þegar til langs tíma er litið.
Um þessar mundir fer fram endurskoðun á samspili ríkissjóðs, lífeyrissjóða og Almannatrygginga og hefur þegar fengist viðurkenning á þessum vanda og fyrirheit um úrbætur í áföngum. Margt er ógert í þessari endurskoðun. Þannig þarf t.d. að horfa til þeirrar staðreyndar að breytingar á reglum almannatrygginga eru iðulega ávísun á auknar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Slíkar breytingar hljóta að vera óviðunandi frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna án þess að þær séu gerðar í sátt við þá.

Hvað sem þessu líður réttlætir erfið staða lifeyrissjóða ekki þær reiknireglur sem koma öryrkjum í koll eins og hér er rakið. Þess vegna er tekið undir með Öryrkjabandalaginu: Lífeyrissjóðirnir fresti aðgerðum á meðan þeir breyta reglum sínum, og þá ekki síst með því að hverfa frá neysluvísitölu og taka upp launavísitölu þegar örorkubætur eru annars vegar.  

                                                                                    Ögmundur Jónasson,

                                                                                    höf. er alþingismaður og form. BSRB