Fara í efni

GESTRISNI EINKENNANDI FYRIR KÚRDA

Þessi mynd er tekin í sumarbústað í um klukkutima fjarlægð frá Erbil, höfuðborg Basúr, sjálfstjórnarhéraðs Kúrda í Írak. Eins og áður hefur fram kmið á þessum vettvangi var ég þarna á ferð á vegum regnhlífarsamtaka Kúrda, KNK, í síðustu viku, frá föstudegi til föstudags, ásamt Jürgen Klute, þýskum stjórnmálamanni sem hefur staðið framarlega í báráttu fyrir málstað Kúrda á þingi Evrópusamdsins og víðar um langt árabil. 

Bústaðurinn stendur allhátt í fjallshlíð og er þar fagurt um að líta. Mér skildist að bústaðinn hefðu gestgjafar okkar byggt sjálfir og jafnframt brotið land til ræktunar og hlaðið mikla grjótveggi til að halda jarðvegi í skefjum. Þar hefði þurft að notast við vinnuvél en ummerki hinnar högu handar var einnig hvarvetna að sjá.

Þegar leið á kvöldið var grillað, sagðar sögur og sungið. Sögurnar voru margar frá fyrri tíð en allir höfðu karlmennirnir verið skæruliðar í fjöllunum um árabil í baráttusveitum Kúrda fyrir sjálfstæði og söngvarnir að því er mér skildist einnig í þessum anda. Konurnar voru einnig nátengdar þessari baráttu en ákveðin verkaskipting hafði verið með kynjunum. 

Það sem mér hefur þótt merkilegt í samskiptum mínum við Kúrda, og það átti svo sannarlega við um þetta fólk, er hve opið það er og fordómalaust þrátt fyrir allt það sem það hefur þurft að þola í tímans rás – og gerir enn.

Til marks um það voru hlaðnir Kalashnikov rifflar við útidyrnar og í buxnastrengnum mátti sjá þegar að var gáð að byssuskefti gægðist þar upp hjá einhverjum mannanna. Þarna vildu menn vera við öllu búnir. Tilfinningin var engu að síður aldrei óttablandin í þessari ferð. Við okkur blasti friðsælt samfélag og sérlega vinsamlegt. Það voru bara öryggisventlana sem var að sjá í buxnastrengnum og Kalsinakov-byssunum. Greinilega hugsun löngu orðin inngróin.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa um heilar þjóðir, þær samanstanda af einstaklingum sem stundum eiga fátt sameiginlegt einsog við þekkjum. Hins vegar getur eitthvað legið í loftinu sem framkallar og styrkir tiltekna umgengnishætti. Þannig er um gestrisnina, sumum er hún vissulega í blóð borin en að auki leggur kúrdískt samfélag mikið upp úr gestrisni og því fengum við ferðafélagarnir áþreifanlega að kynnast.

Á myndinni að neðan erum við Jürgen Klute með gestgjöfum okkar í fyrrnefndum sumarsbústað, þeim heiðurshjónum Nishtiman og Goran.

 

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.