Fara í efni

GERVIGREIND GENGUR EKKI ÁN GÆSLUMANNA

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20/21.12.25.

Nýlega fjallaði ég um gervigreind undir fyrirsögninni: Enginn í fýlu en þörf er á fílu. Skýringin á þessari óvenjulegu fyrirsögn var sú að álitsgjöfum sem ég leitaði til mér til ráðgjafar um gervigreind bar saman um að tilgangslaust væri að taka á móti henni hrædd eða fúllynd. Ekki mætti gleyma að horfa til þeirra gríðarlegu möguleika sem gervigreindin byði upp á. Er þar komin skýring á fyrri hluta fyrirsagnarinnar. Fílan með einföldu í-i vísar hins vegar í hugtakið fílósófíu, sem er runnið frá Grikkjum og þýðir ást á visku. Þar vildi ég finna mótvægið við tæknifrekjunni sem allt vill nú gleypa. Svarið við henni hlyti að liggja í sjálfstæðri og gagnrýninni hugsun.

Ekki voru álitsgjafar alls kostar ánægðir með framsetningu mína. Sögðu að vísu allt hafa verið rétt sem sagt var en síðan hefði vantað allt hitt. Og hvað var þetta hitt? Til dæmis mætti nýta gervigreind til þess að hafa eftirlit með þjóðfélagsþegnunum og grafa þannig undan frelsi þeirra. Svo væri hernaðargeirinn að þróa búnað sem gervigreind stýrði; svo þróaða dróna að þeir gætu leitað uppi allt líf sem þeim væri gert að tortíma og jafnvel þótt stjórnstöðin væri eyðilögð væri þeim búið „vit“ til að halda ætlunarverki sínu áfram á eigin spýtur. Með öðrum orðum: gervigreindin gæti tekið yfir í tortímingarstríði – háð það hjálparlaust. Þar með væri sú hætta fyrir hendi að hún réðist gegn skapara sínum.
Af hinu höfum við líka heyrt að mörgum þætti gervigreindin traustsins verð langt umfram það sem venjulegur mannsheili geti boðið upp á. Samt er þekking hennar öll á forsendum mannsheilans. En þegar unnið er á milljónföldum hraða venjulegs mannsheila úr gögnum frá milljón mannsheilum er ekki ofsögum sagt að mannkynið sé stigið inn í aðrar og nýjar víddir.

Og það er einmitt þangað sem álitsgjafar mínir vildu leiða mig, að ég yrði að gera mér grein fyrir því að nú gæti leiðir verið að skilja með fortíð og framtíð. Um væri nefnilega ekki lengur að ræða stigsmun heldur eðlismun og að gervigreindinni með öllum sínum miklu kostum yrði að taka á sama hátt og okkur bæri að taka erfðavísindunum og kjarnorkunni. Hætturnar væru af þeirri stærðargráðu.

En víkjum þá að íslenskunni. Málvísindamaðurinn Jón G. Friðjónsson hefur nýlega skrifað umhugsunarverðar greinar í Morgunblaðið um gervigreind. Þar er að finna varnaðarorð frá manni sem hefur á starfsævi sinni fært þjóðinni hvert rannsóknarritið á fætur öðru – sannkallaða fjársjóði íslenskar tungu og menningar.

Jón hefur nú sýnt með dæmum úr eigin rannsóknum hve blekkjandi gervigreindin geti verið með skilningsríku orðfæri og stöðugum viðurkenningarorðum um fyrirspyrjandann sem þó hafi sýnt fram á að málfarsdæmi hennar séu iðulega hreinn tilbúningur og ljóst sé að hún geti ekki betur.

Jón segir að vissulega geti gervigreind verið „öflugt máltól, um sumt jafnvel byltingarkennt.“ En hinu megi ekki gleyma að „spjallmennið ChatGPT“ hafi „auðvitað engan áhuga á nokkrum sköpuðum hlut, hvorki málstefnu, órofnu samhengi í tungu okkar og bókmenntum né öðru því er tunguna varðar.“ Það vinni aðeins úr þeim gögnum sem það sé fóðrað á og geri sérkennum íslenskrar tungu engan veginn viðhlítandi skil.

Hér hljótum við að staðnæmast við þá ábendingu Jóns að gervigreindin vinni úr því efni sem hún er fóðruð á þótt á því sé einnig alvarlegur misbrestur sem áður segir. En við það vakna spurningar um hversu framsýnir þeir rithöfundar eru sem samkvæmt nýjustu fréttum vilja reisa skorður við því að rit þeirra verði notuð í þágu gervigreindar. Er ekki einmitt sameiginlegt verkefni allra færustu ritsnillinga að fóðra skepnuna á öllu því besta sem völ er á? Væri þar ekki komin enn ein ástæðan fyrir ríkulegum rithöfundalaunum sem ég mælti með í fyrri pistli mínum?
Framþróun vísinda á tuttugustu öldinni byggði á frjálsu aðgengi að niðurstöðum rannsókna, í það minnsta mun frjálsara en nú tíðkast. Vísindamenn bjuggu almennt við meira starfsöryggi en nú gefst auk þess sem allt er nú metið til fjár. Menn haldi fyrir bragðið spilunum þéttar að sér.

Þrátt fyrir varnaðarorð sín segir Jón G. Friðjónsson að augljóst sé „að í þessu efni sem öðru fái enginn stöðvað tímans þunga nið,“ og að trúlega hafi gervigreindin “náð að festa rætur á sviði íslenskrar tungu og menningar þrátt fyrir augljósa ágalla.“

Hvað er þá til ráða? Ofar öðru þarf að hafa í huga að gervigreindin getur aldrei komið í stað kennara sem skilur tungumálið, eðli þess og menningarlegt og sögulegt samhengi og kann þar af leiðandi að nýta sér gervigreindina sem tæki. Í raun verður hlutverk kennarans enn mikilvægara með tilkomu tölvugreindar sem reynslan kennir að er ekki alltaf greind, oft mistæk og skilningsvana og stundum lygin! Það reynir á hann sem aldrei fyrr.
Ef við gefum okkur að gervigreindin hafi fest sig í sessi, þá finnst mér liggja beint við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera hana þannig úr garði að hún nýtist sem best og er ég hér með tillögu: Úr ríkissjóði verði varið umtalsverðum fjárhæðum til þess að fara inn eftir fóðurgangi netsins með allt það efni sem nært geti gervigreindina.

Þar með yrði ekki allur vandinn leystur, langt því frá. En það sem þá tæki við væri ekki til að sýta. Á aðhaldsvaktinni gagnvart gervigreindinni geta menn nefnilega, ef rétt er á haldið, öðlast innsýn í gagnsæi tungumálsins, rökvísi tungunnar, blæbrigði hennar og uppruna orða og orðtaka.

------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)