Fara í efni

GEFIÐ YKKUR NOKKRAR MÍNÚTUR TIL AÐ SKOÐA ÞESSAR MYNDIR

Miðvikudaginn 22. júní var haldinn svokallaður hliðarviðburður, „side-event“ á þingi Evrópuráðsins í Strasborg um málefni Kúrda og þá sérstaklega einangrunarvist helsta forystumanns þeirra, Abdullah Öcalan, á Imrali eyju í Tyrklandi. Þar hefur hann verið innilokaður síðan 1999, lengst af í fullkominni einangrun. Undantekning var á árunum 2013 til 2015 en þá fékk hann aðgang – úr fangelsinu að vísu – að friðarviðræðum tyrkneskra stjórnvalda og Kúrda. Þær viðræður lofuðu góðu en síðan var skellt í lás að nýju.

Á fundinum í Strasborg greindi ég frá skýrslu svokallaðrar „Imrali sendinefndar“ um stöðu mannréttindamála í Tyrklandi. Í ár og í fyrra fór heimildavinna þessarar nefndar í Tyrklandi fram á netinu en áður hafði ég farið í þrjár slíkar ferðir til Tyrklands. Alltaf höfum við rætt við mannréttindasamtök, samtök fanga og samtök lögfræðinga, stjórnmálamenn, fulltrúa kvennasamtaka og fleiri aðila. Nafn sitt dregur nefndin hins vegar af þeim ásetningi að vekja athygli á hlutskipti fangans á Imrali eyju.

Niðurstaða þessarar síðustu Imrali sendinefndar var skýr og afdráttarlaus: Ástand mannréttindamála fer versnandi í Tyrklandi.

Auk mín töluðu á fundinum í Strasborg Dilek Öcalan, þingmaður HDP flokksins, þriðja stærsta stjórnmálaflokks Tyrklands sem Erdogan Tyrklandsforseti vill nú banna en Dilek er jafnframt systurdóttir Abdullah Öcalans og gat sem slík talað fyrir hönd fjölskyldu hans. Þá talaði Raziye Öztürk, frá Asrin lögfræðistofunni sem fer með mál Öcalans.

Á þessum kynningarfundi rakti ég niðurstöður Imrali sendinefndarinnar sem má finna hér: https://www.freeocalan.org/news/english/internatinal-peace-delegation-to-imrali-2022

Í ljósi þess að tyrkneski stjórnarherinn herjar nú daglega á byggðir Kúrda í norðanverðu Sýrlandi og austan landamæra Tyrklands við Írak með skelfilegum afleiðingum þá rifjaði ég upp að hið sama væri að gerast þar nú og gerðist í árásum Tyrkjahers á bæi og borgir Kúrda innan landamæra Tyrklands á árunum 2015-16. Þá eins og nú þagði heimurinn þunnu hljóði. Myndirnar sem fylgja voru sýndar í réttarhöldum „People´s Tribunal“ í París í mars 2018.

Ég sótti þessi réttarhöld og svo sleginn var ég yfir ofbeldinu sem þarna hafði átt sér stað og þá ekki síður þögn fjölmiðla og stofnana heimsins að ég bauð fulltrúum sem þarna töluðu til Reykjavíkur í byrjun árs 2019 að tala á fundi í fundaröðinni Til rótækrar skoðunar í Þjóðmenningarhúsinu. https://www.ogmundur.is/is/greinar/vitnisburdur-kurda-fra-fyrstu-hendi-i-reykjavik   https://www.ogmundur.is/is/greinar/fundur-kurda-kominn-a-vefinn

Mér er það enn umhugsunarefni hve þöglar þær stofnanir heimsins eru sem eiga að láta sig stríð og frið varða svo og mannréttindi. Þær þegja allar sem ein um ofbeldið á hendur Kúrdum, stórfellda eyðileggingu í byggðum þeirra, þar á meðal á menningarverðmætum á „heimsminjaskrá“ Sameinuðu þjóðanna.
Sur, gamli bærinn í Amid eða Diyarbakir er/var einn slíkur „verndaður“ staður enda höfuðsetur í gömlu Mesópótamíu. Þegar 80% Sur var jafnað við jörðu árið 2016 heyrðist lítið ef þá nokkuð frá Sameinuðu þjóðunum – eða öðrum í opinberu stofnanakerfi heimsins. Ég skoðaði gömlu borgina þegar ég kom þangað í ársbyrjun 2014 og hreifst af og síðan sá ég eyðilegginguna í heimsókn minni á þessar slóðir í ársbyrjun 2019. Þegar ég hafði komið árið 2017 var mér og samferðamönnum meinað að skoða ummerki eyðileggingarinnar. En nú gátum við séð stór auð svæði auglýst fyrir háhýsabyggð. Auglýsingunum var greinilega beint til fjárfesta í Tyrklandi sem þarna gætu átt góðan leik. https://www.ogmundur.is/is/greinar/horft-yfir-verndarsvaedi-unesco

Sama gerist nú þegar Kúrdar saka Tyrki um að beita efnavopnum í árásum á byggðir þeirra og biðja um rannsókn eru viðbrögðin ENGIN.

Þegar hagsmunir NATÓ ríkisins Tyrklands eru annars vegar er réttlætið skilið eftir utandyra. Eitthvert mjálm heyrist hér og þar en ekkert sem máli skiptir. Ég skildi ekki betur en Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefði komið nýlega til Ankara að klappa Erdogan á kollinn og þakka honum fyrir að senda drápsdróna til Úkraínu. Væntanlega sams konar dróna og nú er beitt til að myrða Kúrda á degi hverjum í Kúrdabyggðum á svæðum nærri landamærum Tyrklands í Sýrlandi og Írak. Þetta er að gerast NÚNA á meðan þetta er skrifað og hefur þessi árásarhrina staðið yfir í þrjá mánuði.

Ég birti örfáar þeirra mynda sem sýndar voru í París við fyrrnefnd réttarhöld og bið lesendur um gaumgæfa þær og spyrja sjálfa sig hvernig geti staðið á áhugaleysi umheimsins.
kurds2.PNG

 kurds5.PNGkurds6.PNGkurds11.PNGkurds10.PNGkurds14.PNGkurds13.PNGkurds12.PNGkurds3.PNG
kurds4.PNG                 Að neðan Nusaybin  ...  eftir og fyrirKurds9.PNGKurds8.PNG