Fara í efni

VITNISBURÐUR KÚRDA FRÁ FYRSTU HENDI Í REYKJAVÍK


Síðastliðinn mars voru vitnaleiðslur í París frammi fyrir dómurum mannréttinda/stríðsgælpadómstóls, sem formlega tók til starfa í Bologna á Ítalíu árið 1979 í beinu framhaldi af sams konar dómstól sem starfað hafði frá sjöunda áratugnum að fumkvæði heimspekinganna Bertrands Russells og Jean-Paul Sartre.

Viðfangsefnið var að ganga úr skugga um hvort tyrknesk yfirvöld ættu sök á mannréttindabrotum og stríðsglæpum gagnvart Kúrdum á undanförnum árum og misserum.

Frumkvæði að þessari rannsókn áttu (ég nota ensku heitin:) The International Association of Democratic Lawyers (IADL), The European Association of Lawyers for Democracy and World Human Rights (ELDH), The Association for Democracy and International Law (MAF-DAD) og The Kurdish Institute of Brussels.

Dómstóllinn horfir til alþjóðalaga og skuldbindinga og þá ekki síst Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Niðurstaðan lá fyrir í maí og var hún afdráttarlaus. Tyrknesk yfirvöld voru fundin sek um hrikaleg mannréttindabrot og stríðsglæpi.

Þess má geta í ljósi atburða síðustu daga og vikna í Norður-Sýrlandi, að fyrsta krafa dómaranna var að tyrkneski innrásarherinn þar yrði þegar í stað kallaður heim og að Tyrkir hættu öllum harnaðaraðgerum gegn Kúrdum þegar í stað.

Næstkomandi laugardag verða þrír Kúrdar (þar af þýðandi yfir á ensku sem jafnframt ere einn helsti talsmaður Kúrda í Evrópu) á opnum fundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík.

Fyrirlesararnir voru á meðal þeirra sem báru vitni frammi fyrir stríðsglæpastólnum í París og segja þeir sína sögu á fundinum á laugardag.  
Fundurinn hefst klukkan 12 og lýkur eigi síðar en klukkan 13:30.

Ég hvet alla sem er annt um mannréttindi að mæta á fundinn og hlýða á frásagnir þessa fólks.  

http://permanentpeoplestribunal.org/