Fara í efni

GÆTUM VIÐ ÞETTA?

Síðastliðinn sunnudagur var “bíllaus dagur” í Brussel. Ég var staddur í borginni og varð vitni að því hvernig til tókst. Og viti menn, borgin varð í alvöru bíllaus!
Leigubílar voru að vísu á ferðinni og að sjálfsögðu sjúkrabílar og lögreglubílar en til algerra undantekninga heyrði að sjá “einkabílinn“ á götum borgarinnar þennan dag. Þar fóru menn um á tveimur jafnfljótum eða hjólandi en bíllinn hafði verið skilinn eftir heima. Ég ætlaði vart að trúa mínum eigin augum.
Merkilegt hve allt breyttist við þetta. Það mátti nánast heyra þögnina og hvernig slaknaði á öllu. Þetta hafði að sjálfsögðu ýmislegt óhagræði í för með sér. Þannig stóð til að fá sendan mat á ráðstefnu sem ég sótti – en því miður, engar sendingar á bíllausum degi nema í göngufæri! Gætum við þetta?
Hví ekki?
Fram til þessa höfum við hins vegar ekki sýnt það í verki þegar kallað hefur verið eftir.
Þetta hafði þau áhrif á mig að ég fór að hugsa. Hvert þær hugsanir leiða veit ég ekki alveg. En það er alltaf gagnlegt að beina hugsunum sínum inn á nýjar brautir og þess vegna bíllausar. Í það minnsta með minni umferð á fjórum hjólum.


----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.