Fara í efni

FRÉTT ÁRSINS

Kristján Þór Júlíusson - okt. 2015
Kristján Þór Júlíusson - okt. 2015

Samningur íslenska ríkisins við lyfjafyrirtækið Gilead um að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi er í mínum huga frétt ársins. Samningurinn var frágenginn í haust og bíður aðeins formlegrar staðfestingar í byrjun komandi árs.

Lyfrarbólga C er illvígur og í mörgum tilvikum lífshættulegur sjúkdómur. Talið er að á heimsvísu séu um 180 milljónir manna með sjúkdóminn. Sé sýkingin ekki meðhöndluð getur hún leitt til vaxandi örmyndunar í lifur, skorpulifrar, lifrarkrabbameins og lifrarbilunar. Á Íslandi er áætlað að um 800 til 1000 manns séu smitaðir af lifrarbólgu C en árlega greinast á bilinu 40 - 70 einstaklingar.

Fréttin er að sjálfsögðu mikilvægust þeim sem bera þennan erfiða sjúkdóm en hún er líka mikilvæg íslenska heilbrigðiskerfinu sem ella hefði þurft að bera gríðarlegan kostnað af lyfjagjöf við lyfrarbólgu C til þess að sinna þeirri skyldu, sem við gjarnan viljum fullnægja sem best, að sjá fólki með alverlaga sjúkdóma eða kvilla fyrir bestu mögulegu líkn eða lækningu.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld eiga hrós skilið fyrir að hafa náð að semja við lyfjafyrirtækið Gilead um að fyrirtækið leggi í rannsóknarskyni til lyfið Harvoni fyrir allt að 1200 sjúklinga, sem í 94 - 99% prósent tilvika getur læknað lyfrarbólgu C á 8-12 vikum. 

Metinn í krónum og aurum má ætla að verðmæti þessa samnings sé allt að 12 milljarðar króna. Til samanburðar má geta þess að deilurnar á Alþingi undir þinglok snerust um þrjá milljarða.

Fréttin er merkileg fyrir þá sök að við sjáum fram á að geta útrýmt í landinu - alla vega um stundarsakir - alvarlegum sjúkdómi.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/til-hamingju-island