Fara í efni

TIL HAMINGJU ÍSLAND !

Silvía Nótt kom, sá og sigraði í forkeppni Eurovision – með miklum yfirburðum. Af lítillæti sínu þakkaði hún samkepp-
endum sínum , "upphitunar-
hljómsveitunum"
, fyrir þeirra framlag. Silvíu Nótt er ekki fisjað saman. Hún óskar Íslandi til hamingju með hve stórfengleg heppni það hafi verið fyrir landið að hún skuli hafa fæðst á Íslands foldu.

Auðvitað er Silvía Nótt, með lífverði sína, þá Homma og Namma sér við hlið, að gera grín, henda gaman að sjálfsupphafningu samtímans.
Það eru þeir hins vegar ekki að gera sigurvegarar prófkjöranna sem nú, hver á fætur öðrum, stíga sveittir út úr prófkjörsslagnum, smurðir og sponsoreraðir í bak og fyrir, og að sjálfsögðu yfir sig ánægðir með niðurstöðurnar: "Stórkostleg baráttusveit hefur verið valin!", "fyrir valinu urðu firnasterkir einstaklingar!!", "þarna raðaðist upp afburðafólk!!!". Fyrst var það Vilhjálmur Þ. hjá Íhaldinu í Reykjavík, hann var ánægður með það einvalalið, sem kjósendur höfðu sett á frontinn, svo kom Dagur Eggertsson, sem sagði ákvörðun prófkjörskjósenda Samfylkingarinnar hefði skilað flokknum mjög sterkum frambjóðendum í forystuna, og átti þar við sjálfan sig, Steinunni Valdísi og Stefán Jón! Og  í kvöld var það svo Eyþór Arnalds í Árborg, sjálfstæðismenn þar hefðu sett mjög sterka frambjóðendur á oddinn, að mati Eyþórs og á Akureyri skilaði prófkjör Framsóknarflokknum mjög sterku fólki í framvarðasveit, að sögn sigurvegarans, Jóhannesar Gunnars Bjarnasonar! Með öðrum orðum, VIÐ ERUM ROSALEG! ÓGEÐSLEGA TÖFF!! TIL HAMINGJU ÍSLAND!!!

Auðvitað er alltaf gaman þegar fólk er ánægt með sjálft sig. En getur verið að það rugli menn í ríminu þegar þeir fletta dagblöðunum dögum og vikum saman með heilsíðuauglýsingum um eigið ágæti; mæta eigin andliti í umferðinni á flettiskiltum með yfirlýsingu um hve frábær viðkomandi sé? Getur verið að það sé nokkuð til í því, sem Svandís Svavarsdóttir, efsti maður á lista VG í Reykjavík, sagði í fréttaviðtali í lok liðinnar viku, að auglýsingaskrumið í prófkjörsbaráttu flestra stjórnmálaflokka væri að skila okkur þokukenndri pólitík, þar sem hugsjónir og málefni væru víkjandi fyrir yfirborðskenndu skrumi. Ég held að þetta sé hárrétt hjá Svandísi. Hitt er svo leiðigjarn fylgifiskur prófkjörsstjórnmálanna, að flestir koma sigurvegararnir út úr slagnum, ölvaðir af sjálfsupphafningu: Ég er æðislegur, þú styður mig, til hamingju, skiliru?