Fara í efni

FORSETA ASÍ SVARAÐ


Forseti Alþýðusambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, svarar hér á síðunni pistli sem ég birti í kjölfar gagnrýni ASÍ í minn garð nýlega. (Sjá slóðir að neðan.)
1) Fyrsta efnisatriði Gylfa snýr að eftirfarandi fullyrðingu minni: ,,Ég veit nefnilega mæta vel að aðilar vinnumarkaðar gengu síðastliðið vor jafnvel lengra en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í kröfum um niðurskurð hjá hinu opinbera - þar með innan almannaþjóðnustunnar - á sama tíma og þeir reistu kröfur um aukið framlag í Starfsendurhæfingarsjóð og aðra sjóði á eigin vegum.'' Þetta þykir Gylfa "makalaus ósvífni" og segir að það hafi einmitt verið aðilar vinnumarkaðar sem "höfðu frumkvæði" að því að fara hægar í sakirnar á uppbyggingu Starfsendurhæfingarsjóðsins til að draga úr niðurskurðarþörf hjá ríkinu. Staðreyndin er sú að skorið er niður hjá hinu opinbera í endurhæfingu (á Grensásdeild, Reykjalundi og víðar) en þessi nýi sjóður á sama tíma þaninn út. Hvað "frumkvæðið" snertir þá er umgjörðin sú að fjárútlát til þessa nýja sjóðs voru farin að mæta mikilli gagnrýni þegar umrætt "frumkvæði" kom frá aðilum vinnumarkaðar.
2) Hvað snertir þá fullyrðingu mína að aðilar vinnumarkaðar hafi viljað fara brattar í niðurskurð á ríkisútgjöldum en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, segir Gylfi að  "það (hafi) alfarið (verið) í formi meiri niðurskurðar á beinum opinberum framkvæmdum, sem þess í stað yrðu framkvæmdar utan ríkisreiknings með aðstoð lífeyrissjóðanna." Hvað þýðir þetta? Þetta er ávísun á svokallaða einkaframkvæmd sem hefur reynst dýrt úrræði fyrir greiðandann, hvort sem hann er skattborgarinn eða notandinn (sbr. vegatollar). Einkaframkvæmd er úrræði sem iðulega er notað til að fegra fjármál hins opinbera. Ráðist er í framkvæmdir fyrir lánsfé með ríki eða sveitarfélög að bakhjarli. Lánsféð, þ.e. skuldirnar, skrifast á framkvæmdaraðilann þótt hið opnbera borgi brúsann á endanum (nema greitt sé með notendagjöldum beint sem áður segir). Engar skuldir verða sjáanlegar hjá ríkinu eða sveitarfélaginu. AGS hefur margoft lýst hrifningu á þessari aðferð enda samkvæmt uppskriftinni: Þrengjum að og einkavæðum.
3) Í vor átti ég mjög sérkennilegan fund í Karphúsinu (sem Gylfi vísar til) með fulltrúum aðila vinnumarkaðar. Þar sátu menn ábúðarfullir og spurðu ráðherra út úr um niðurskurð í þeirra ráðuneytum. Enginn þeirra sem sat fundinn um heilbrigðismál hafði minnsta áhuga á afleiðingum niðurskurðar á störf og þjónustu. Þess í stað var ég spurður með nokkrum þjósti hvers vegna ég væri gagnrýninn á niðurskurðarkröfur AGS. Ég reyndi að færa rök fyrir því hvernig við gætum náð varanlegum sparnaði til frambúar með kerfisbreytingum í góðu samráði við starfsfólk ef farið væri hægar í sakirnar og vísaði í verulegan árangur sem þegar hafði náðst með því vinnulagi. Kvaðst ég furða mig á því að fulltrúar verkalýtyðshreyfingar væru ekki á tánum fyrir hönd sinna skjólstæðinga og velferðarþjónustunnar en raun bæri vitni. Þessa einkunnagjöf fæ ég hjá forseta ASÍ fyrir þessa afstöðu: "... í stað þess að upplýsa aðila vinnumarkaðarins um áform sín um framkvæmd stefnu þeirrar ríkisstjórnar, sem hann átti aðild að, reyndi hann að fá aðilana til að fara gegn stefnu ríkisstjórnar sinnar í ríkisfjármálum. Því var einfaldlega hafnað og hann krafinn svara hvernig hann hyggðist standa að málum - við því átti hann engin svör."  Er það forysta verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi sem talar?!!!
4) Í fjórða lagi fjallar Gylfi um Starfsendurhæfingarsjóð. Það skal tekið fram að hvað varðar þau markmið sem sjóðnum er ætlað að þjóna erum við sammála. Um fyrirkomulagið ekki. Við höfum margoft rætt þetta efni á opinberum og óopinberum vettvangi. Ég hef varað við því að smíða tvöfalt velferðarkerfi og viljað þess í stað efla almannaþjónustuna. Þótt markaðshyggjustjórnir undangenginna ára hafi vanrækt almannaþjónustuna skulum við ekki horfa fram hjá því sem þó hefur verið vel gert á þessu sviði og ættum við að sameinast um að þar verði gert enn betur. Hvernig væri að við gerðum það Gylfi? Ég vil vera í liði með verkalýðshreyfingunni - hef þar alið allan minn starfsaldur. En ég leyfi mér líka að gera kröfur til hennar þegar mér finnst hún fara út af sporinu.
5) Að lokum nefnir Gylfi aðkomu BSRB að nefnd um örorkumál, sem hann segir að hafi búið í haginn fyrir hinn nýja sjóð. Staðreyndin er sú að í þeirri nefnd kom fram ágreiningur um fyrirkomulag þessara mála og á þeim fundum sem forseti ASÍ vísar í og við sátum báðir, voru menn á öndverðum meiði. Á endanum sömdu SA og ASÍ sín í milli og var þar með mörkuð brautin fyrir aðra. Nú er verkefnið að stýra þessum málum í farveg sem gagnast okkur öllum sem best - hvort sem við erum á vinnumarkaði eða utan hans. Um það eigum við að sameinast. 
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gylfi-arnbjornsson-forseti-asi-skrifar-af-meintum-samhljomi-verkalyds-hreyfingar-og-ags
https://www.ogmundur.is/is/greinar/asi-leidrett