Fara í efni

ASÍ LEIÐRÉTT

Í sjónvarpsfréttum síðastliðinn sunnudag setti ég fram gagnrýni (http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4497826/2009/11/29/3/ ) á nýjan Starfsendurhæfingarsjóð sem kemur til með að starfa undir handarjaðri aðila vinnumarkaðar. Gagnrýni mín er ekki ný af nálinni.

Í tíð minni sem formanns BSRB setti ég iðulega fram gagnrýni og varaði við tvöföldu kerfi í tengslum við nýjan Starfsendurhæfingarsjóð. Þrátt fyrir þetta varð niðurstaðan sú að öll hreyfing launafólks skyldi fara inn í þennan farveg þótt enn væri í lausu lofti hvert yrði umfangið. Síðan kom hrunið og peningaleysi því samfara ásamt niðurskurði innan velferðarþjónustunnar. Jukust þá efasemdir mínar sem ég hef margoft sett fram innan verkalýðshreyfingarinnar og utan. Það þekkja forsvarsmenn ASÍ, þeir hinir sömu og gagnrýna mig harðlega á vefsíðu sambandsins.

„Velferðarkerfi verkalýðshreyfingarinnar"
Þeir segja m.a.: "Fullyrðingar Ögmundar um að aðilar vinnumarkaðar beri ábyrgð á niðurskurði í heilbrigðiskerfinu eru ...úr lausu lofti gripnar. Hitt er merkilegra að Ögmundur er nú þeirrar skoðunar, að velferðarkerfi verkalýðshreyfingarinnar á borð við lífeyrissjóði, sjúkrasjóði og fræðslusjóði sé ekkert annað en dulbúin einkavæðing. Alþýðusambandið er algerlega ósammála Ögmundi um þetta mat hans og man ekki betur en að sá hinn sami hafi talið það meðal sinna mestu afreka að byggja upp og verja lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Í fyrrgreindri frétt er látið að því liggja að markmið verkalýðshreyfingarinnar með stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs sé eitthvað annarlegt - að þetta snúist um söfnun og vörslu fjármuna. Það er auðvitað alrangt og ósmekkleg aðdróttun. Að baki býr einfaldlega ósk okkar félagsmanna um að fá raunverulegt tækifæri til að geta snúið aftur til fyrra lífs eftir alvarleg veikindi og slys þar sem verkalýðshreyfingin hefur í samstarfi við viðsemjendur sína tekið frumkvæði að nýjum réttindum...Verkalýðshreyfingin hefur alltaf barist fyrir velferð fyrir alla, þó við höfum viljað ganga lengra með viðbótarréttindum fyrir okkar félagsmenn. Hins vegar hafa stjórnvöld oft og iðulega hirt slík viðbótarréttindi með tekjutengingum, oft króna á móti krónu. Það er því óþolandi þegar þingmaður úr meirihluta á Alþingi brigslar okkur um að vinna gegn þessum markmiðum í sömu vikunni og sú sama ríkisstjórn er að skerða mikilvæg réttindi sem náðst hafa með kjarasamningum og henni hefur verið falin að verja."
Sjá allan pistilinn: http://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-2118/

Síðbúin umræða
Ég fagna því að ASÍ skuli setja fram þessa gagnrýni opinberlega. Það geri ég vegna þess að það gefur tilefni til umræðu. Því miður gerist það allt of oft að samið er um stórmál án félagslegrar umræðu. Það átti við um Starfsendurhæfingarsjóðinn. Skyndilega var hann orðinn að veruleika, okkur í öðrum samtökum sagt að þetta væri nokkuð sem ekki ætti við um okkar félagsfólk nema fram kæmu óskir um slíkt. Síðan líður tíminn og þá kemur í ljós að veruleikinn er annar. Þegar sköpuð hafa verið réttindi á stórum hluta vinnumarkaðar segir reynslan að aðrir eiga ekki annarra kosta völ en bjóða upp á samvarandi rétttindi eða fyrirkomulag fyrir sína félagsmenn. Annað áþekkt dæmi eru samningar ASÍ og SA um aldurstengingu lífeyrisréttinda. Það mál fór einnig umræðulítið í gegn og varð til að stilla öllum öðrum upp við vegg frammi fyrir gerðum hlut. Þess vegna fagna í umræðu þótt kosið hefði ég að hún hefði farið fram fyrr.

Það er rangt að ég hafi andæft öllu sem er að finna í sjóðakerfi verkalýðshreyfingarinnar. Ég hef til dæmis ekki mótmælt sjúkrasjóðum eða fræðslusjóðum þótt ég hafi gert athugasemdir við umfang þeirra og hlutverk þegar þeir hafa tekið yfir almannaþjónustu sem er fyrir hendi. Þá verður úr tvöfalt kerfi - annað með umframréttindum einsog ASÍ bendir á í athugasemd sinni - og hitt með lakari réttindum fyrir þá sem standa utan vinnumarkaðar.

Starfsendurhæfing innan heilbrigiðskerfisins skert
Öll höfum við verið sammála um mikilvægi starfsendurhæfingar. BSRB hefur ekkert síður verið áhugasamt um hana en ASÍ og hef ég alla tíð reynt af alefli að beita mér fyrir henni og eflingu hennar. Ég hef líka fagnað því sem vel hefur verið gert í þeim efnum, hvort sem er á Grensásdeild, Reykjalundi eða annars staðar. Miklu betur má gera en vanmetum og vanvirðum ekki það sem vel hefur verið gert.

Þegar það nú gerist að skorið er niður ótæpilega við slíkar stofnair á sama tíma og nýtt sjóðskerfi undir handarjaðri aðila vinnumarkaðar er þanið út, þá læt ég í mér heyra. Og ég hef leyft mér að gagnrýna félaga mína í ASÍ og einnig öðrum samtökum í þessu sambandi.

Samhljómur verkalýðshreyfingar og AGS
Ég veit nefnilega mæta vel að aðilar vinnumarkaðar gengu síðastliðið vor jafnvel lengra en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í kröfum um niðurskurð hjá hinu opinbera - þar með innan almannaþjóðnustunnar - á sama tíma og þeir reistu kröfur um aukið framlag í Starfsendurhæfingarsjóð og aðra sjóði á eigin vegum. Spurt er um ósmekklegheit. Svari hver fyrir sig. Ég skal segja það hvar sem er að mér þótti samhljómurinn í áherslum íslenskrar verkalýðshreyfingar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðastliðið vor óhugnanlega mikill.
Allt þetta þekki ég af samningsgögnum sem ég hef undir höndum um Stöðugleikasáttmálann og sat auk þess fyrir svörum sem heilbrigðisráðherra í Karphúsinu síðastliðið vor að réttlæta andstöðu mína við of krappan niðurskurð. Ekki varð ég var við aðstoð frá þeim félögum mínum í ASÍ sem nú beina að mér gagnrýnisorðum.