Fara í efni

ESB VEGFERÐIN: VARASÖM OG ÓLÝÐRÆÐISLEG

Síðastliðinn laugardag efndi ég til fundar á KEA hótelinu á Akureyri undir hatti fundaraðarinnar Til róttækrar skoðunar. Fundurinn fjallaði um þróun Evrópusambandsins og var yfirskriftin ESB: Frá samvinnu til miðstýringar. Fundinn sóttu á fjórða tug og hef ég sótt fjölmennari fundi á Akureyri en sjaldan hef ég verið á góðmennari samkomu á Hótel KEA. Hef ég þó sótt marga skemmtilega fundi þar.

Fundurinn var með svipuðu sniði og fundur í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík hinn tíunda janúar síðastliðinn. Sjá mátti fólk úr öllu hinu pólitíska litrófi. Í samtölum fyrir og eftir fundinn varð ég þess var hve vaxandi áhyggjur manna eru yfir ákafa ríkisstjórnarinnar og þá helst ráðherra Viðreisnar, Þorgerðar utanríkisráðherra og Hönnu Katrínar matvælaráðherra, að skrifa undir alls kyns viljayfirlýsingar gagnvart ESB sem fela í sér aðlögun að sambandinu til þess að búa í haginn fyrir innlimun Íslands. Voru menn á einu máli um að þetta ferli sé í senn varasamt og ólýðræðislegt.

Síðar um daginn komu nokkrir vinstri menn saman til fundar og stofnuðu norðandeild samtakanna Til vinstri við ESB.

Ég sótti þann fund og tók þar þátt í spjalli um það sem framundan er. Þarna var mættur Þorsteinn Bergsson formaður Til vinstri við ESB en varaformaðurinn Guðbjörg Sveinsdóttir var þar einnig en hún hafði verið fundarstjóri á KEA fundinum.

Á myndunum að neðan má sjá nokkra þeirra sem sóttu fund norðandeildar Til vinstri við ESB.

----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometimes people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Usually this is because the reply has been directed to the trash bin. Be aware of this.)