Fara í efni

ERU FJÖLMIÐLAR OG FRAMBJÓÐENDUR AÐ STANDAST PRÓFIÐ?

Að sjálfsögðu er engan veginn hægt að alhæfa um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda þessara kosninga.

Ekki heldur um framkomu frambjóðenda gagnvart fjölmiðlum.

Þannig mismuna fjölmiðlar frambjóðendum mismikið og frambjóðendur mismuna fjölmiðlum mismikið. Heiðra suma en hunsa aðra.

Ríkisútvarpið hefur gert sumt ágætlega en misstígur sig illilega þegar það útilokar suma frambjóðendur, eða býr til deildaskiptar umræður, efri deild og neðri deild, eftir því hvernig frambjóðendur hafi mælst í skoðanakönnunum. Þetta gerist nú þegar mest á reynir í umræðu undir lokin. Stöð 2 og fleiri fjölmiðlar eru sama markinu brenndir, láta stjórnast af skoðanakönnunum. Það getur Ríkisútvarpið ekki leyft sér. Eftir að frambjóðandi hefur fengið tilskilinn fjölda meðmælenda þá á hann allt til loka að standa öðrum frambjóðendum jafnfætis í stofnun sem segist vera - og ber að vera - stofnun allra landsmanna.

Heimildin hélt skemmtilegan fund í Tjarnarbíó með ýmsum óvæntum spurningum. En línuna á milli þess að efna til fróðlegra og skemmtilegra umræðna annars vegar og skemmtiprógramms hins vegar má aldrei stíga yfir. Hætt er þá við því að skemmtunin og grínið verði á kostnað frambjóðenda. Og nákvæmlega það hefur gerst.

Það er einmitt þarna sem mér finnst fjölmiðlarnir sumir hverjir falla á prófinu. Spyrlarnir virðast nefnilega farnir að gera sér grein fyrir því að fólki er farið að leiðast staglið í þeim sjálfum. Þá er ýmislegt gripið til bragðs sem hreinlega ekki gengur upp, frambjóðendur látnir engjast við að svara spurningum úr sögu Íslands og bókmenntum sem fólki finnst óþægilegt að geta ekki svarað á svipstundu, kemst úr jafnvægi sem eðlilegt er og man ekki það sem því annars er tamt að muna; láta frambjóðendur taka þátt í alls kyns keppnum, borða ofkryddaðan mat og drekka ólyfjan, keppa í fiskflökun sýndist mér það vera einhvers staðar og er þá hreinn barnaskapur á við þetta partí Ásdísar Ránar á rauðum dregli þar sem haldin var gripasýning fyrir ljósmyndara.

En hafi fjölmiðlarnir brugðist þarna þá gera frambjóðendur það líka. Þeir eiga einfaldlega að segja stopp, að þeir taki ekki þátt í neinum fíflagangi, engum fáránlegum og ósanngjörnum spurningleikjum. Baldur Þórhallsson brást rétt við með því að svara til um skoðun sína á kvótakerfinu á íslensku þegar einn fjölmiðillinn gerði honum að svara á ensku, örugglega hraðmælskur maðurinn á ensku og öðrum erlendum tungumálum en ekki á því að láta koma svona fram við sig.

Er þá ótalið dómgreindarleysi fjölmiðla að þráspyrja frambjóðendur um málefni sem koma embættinu ekkert við, hver sé afstaða þeirra til manna og málefna sem aldrei myndu koma til kasta forseta að glíma við í nafni forsetaembættisins.

Tvennt vitum við eftir þessa mánaðartörn, í fyrsta lagi hvernig frambjóðendur fóta sig á prófi í viðbragðsflýti og yfirborðsmennsku og öðru lagi þá höfum við lært sitthvað um íslenska fjölmiðla, hversu sanngjarnir hver og einn þeirra er og hve traustri dómgreind þeir búi yfir.

Spurt var hvort fjölmiðlar hafi staðist prófið. Sumir prýðilega að mínu mati, aðrir varla og enn aðrir kolféllu. Fallistarnir voru þeir sem beittu útilokunarreglunni og hins vegar þeir sem vildu umfram allt vera skemmtilegir – en því miður á annarra kostnað.

----------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.