ER RÉTTARRÍKIÐ AÐ BROTNA NIÐUR?
Látum liggja á milli hluta hvað mönnum finnst um Hvammsvirkjun. Hugleiðum það eitt hvað það þýðir þegar yfirvöld hunsa lög og reglur og dómsniðurstöður. Þetta á við um Hvammsvirkjun og þetta á við um ólöglega áfengissölu.
Þótt úrskurðanefnd umhverfis og auðlindamála hefði gefið út bráðabirgðakröfu um að framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar yrðu stöðvaðar tafarlaust þá birtust fréttir eins og þessi í Morgunblaðinu 30. júlí um að verulegur kraftur væri nú kominn í framkvæmdir í tengslum við virkjunina.
Að því marki sem Landsvirkjun yfirleitt telur sig þurfa að réttlæta gjörðir sínar er viðkvæðið það að framkvæmdirnar snúi ekki að virkjuninni í þröngum skilningi heldur séu þær aðeins óbeint tengdar henni. Þetta kallast á íslensku útúrsnúningur eða orðhengilsháttur. Orku/umhverfisráðherrann (sem er einn og sami aðilinn og hlýtur það að vera ein undarlegasta ráðstöfun síðari tíma að sameina þessi ráðuneyti í eitt eins og gert var 2021) segir að þessi úrskurður muni ekki valda röskun sem nokkru nemi. Þar talaði greinilega orkumálaráðherra en varla umhverfisráðherrann.
Á sama tíma og þessu vindur fram auglýsa ólöglegir vínsalar sem aldrei fyrr. Yfirvöldin leyfa þessu að gerast, þora ekki að hrófla við gróðaöflunum.
Þessi mál eru tengd. Bæði snúa að niðurbroti á réttarríkinu.
Um helgina birtist hér á síðunni grein eftir Björgu Evu Erlendsdóttur framkvæmdastjóra Landverndar um lögbrotin við Þjórsá. Mæli með lestri. Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/lands-virkjun-hafin-yfir-log
-----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/