ER HÆGT AÐ HUGSA SÉR AUMARA HLUTSKIPTI?
Netið logar í auglýsingum frá ólöglegum áfengissölum, okkur er sýnt inn í lagera fulla af bjór, léttvíni og sterku. Heimsending í boði. Ódýrast, hraðvirkast, frábærast er okkur sagt en þess látið ógetið að allt er þetta ólöglegt - svindl.
Og Gallup spyr í skoðanakönnun hvernig mönnum líki viðskiptin hjá nýju vínsölunum; Moggi segir okkur með velþóknun frá velgengni þeirra, sala dvíni hjá ÁTVR en nýju salarnir blómstri.
Sprúttsalar samtímans þurfa greinilega ekki að hafa áhyggjur með ónýta löggæslu og meðvirk stjórnvöld.
Smám saman er lögleysan normalíseruð.
Þessu er leyft að gerast gegn varnaðarorðum og óskum ALLRA heilbrigðisstétta landsins og þvert á samþykkta lýðheilsustefnu.
Er hægt að hugsa sér aumara hlutskipti en það sem ríkisstjórn landsins hefur valið sér með aðgerðaleysi sínu?
--------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/