Fara í efni

ER EVRÓPURÁÐIÐ AÐ GLEYMA HLUTVERKI SÍNU?

Evrópuráðið - small
Evrópuráðið - small

Á þingfundi Evrópuráðsins á miðvikudag var ákveðið að svipta Rússland enn atkvæðisrétti í Evrópuráðinu og framlengja með því  ástand sem varað hefur síðan í apríl á síðasta ári. Niðurstaðan verður endurskoðuð á næsta þingi Evrópuráðsins í apríl. Þetta er vegna þess að Rússar innlimuðu Krímskagann og eru ennfremur sakaðir um hlutdeild í stríðinu í austur Úkraínu.

Ofsafengið kaldastríðstal

Ljóst er að þeim fjölgar sem hafa efasemdir um þessa ráðstöfun af hálfu Evrópuráðsins.  En kaldastríðstal sem einkenndi umræðuna um útilokun Rússa i apríl síðastliðnum er enn ofsafengið af hálfu margra þingmanna. Þar fara fremstir í flokki ýmsir austanmenn sem voru á sínum tíma undir sovéthælnum. Þeirra afstaða er að mörgu leyti skiljanleg af sögulegum og tilfinningalegum ástæðum. Málflutningur þeirra er hins vegar ekki til að vekja samúð því hann er einstrengingslegur og stundum meira að segja ógnandi í garð þeirra sem ekki eru  þeim sammála: „Ef þið ekki samþykkið tillögur okkar eru þið ábyrg fyrir dauða fjölda fólks!", sagði þingmaður á fundi sem ég sat um tillögusmíðina.

Mismunandi áherslur breskra og franskra hægri manna

Verstir voru Bretarnir, nánast sama hvar í flokki þeir stóðu. Bókstaflega að springa úr sjálfsupphafningu og heilagleika. Á því voru vissulega undantekningar. Íhaldsmaðurinn Balfe lávarður flutti þannig frábæra ræðu í anda þess besta sem stundum  heyrist úr breskum sjórnmálum. Málflutningur hans var yfirvegað ákall um að láta ekki reiði og einsýni víkja skynseminni til hliðar. Sams konar ákall kom frá Frökkum, ekki síst frönskum hægri mönnum sem kváðu það vera fráleitt að reka rússneska þingmenn á dyr í stað þess að ræða við þá, heyra þeirra sjónarmið og þess vegna gagnrýna þá og freista þess að vinna á sitt mál.

Einstaklingar og ríki verði samkvæm sjálfum sér

Rússneska ríkið er ekki eitt um yfirgang, önnur ríki innan ráðsins hafa ráðist á önnur ríki sem aðild eiga að Evrópuráðinu og jafnvel haft af þeim land og síðan hafa verið framinn ótölulegur fjöldi  mannréttindabrota í ríkjum Evrópuráðsins, í Tyrklandi gagnvart Kúrdum svo alvarlegt dæmi sé tekið, Armenía hertók Nagorno-Karabakh og hrakti fólk á flótta frá heimkynnum sínum. Og fyrst Bretar eru annars vegar þarf ekki að fara lengra aftur en til innrásarinnar í Írak ef ræða á um virðingu fyrir landamærum ríkja, sem ég  gef reyndar lítið fyrir þegar mannréttindabrot eru annars vegar eða íbúum neitað um grundvallarmannréttindi og þá ekki síst réttinn til að ákveða framtíð sína sjálfir! Ég bið um það eitt að ríki og fulltrúar ríkja passi upp á að vera samkvæm sjálfum sér.

Kratar og sósíalistar vildu málamiðlun

Kratar og sósíalistar stóðu saman um að finna málamiðlun. Þegar ljóst var að við yrðum undir jafnvel með málamiðlunina var ákveðið að reyna enn málamiðlun sniðna að þeirri nöpru staðreynd. Hún gekk út á að Rússar misstu atkvæðisréttinn enn um sinn en viðræðum yrði engu að síður haldið áfram á vettvangi stjórnarnefndar Evrópuráðsins. Samkvæmt þingsköpum geta tíu þingmenn komið í veg fyrir að tillaga verði  borin undir atkvæði ef hún er seint fram komin. Þetta nýttu sér áköfustu harðlínumenn úr hópi Breta og Georgíumanna, stóðu upp og lýstu andstöðu sinni og minntu á þingsköp. Þar með komu þeir  í veg fyrir að við fengjum að greiða atkvæði um málamiðlunartillögu sem við mörg hver vorum ósátt við en hefðum engu að síður stutt sem það skásta í ómögulegri stöðu.
Þetta er ekki hægt að kalla annað en óvirðingu við lýðræðið.

Greiddi atkvæði gegn því að útiloka Rússa

Á endanum greiddi ég atkvæði gegn því að svipta Rússa réttindum innan Evrópuráðsins eins og ég gerði einnig í apríl síðastliðnum (sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/kaldastridstonar-i-evropuradnu )

Til stuðnings baráttufólki í Rússlandi

Evrópuráðið á að standa vörð um mannréttindi og lýðræði, iðulega gegn ríkisvaldinu heima fyrir. Verði Rússar hraktir úr Evrópuráðinu verða allir þegnar Rússlands þar með sviptir réttinum til að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Evrópuráðinu og  Evrópudómstólnum er ætlað að standa vörð um réttindi einstaklinga og hópa, síður ríkja. Þetta er grundvallaratriði. Gagnvart aðildarríkjunum er þessum stofnunum ætlað að hafa áhrif í þá átt að skapa löggjöf sem tryggir sem best grundvallaréttindi. Þegar þeirri löggjöf er síðan ekki fylgt, geta einstakir borgarar leitað til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins.

Ofbeldi á báða bóga

Ef Rússland verður hrakið úr Evrópuráðinu verðum við sem sækjum þing ráðsins svipt réttinum til að heyra sjónarmið rússneskra þingmanna - þeir tala ekki allir einu máli, því fer fjarri. Og ef einhver stendur í þeirri trú að yfrivöldin sem tóku við stjórn Úkraínu eftir að lýðræðislega kjörinni stjórn þar var vikið frá með valdi, séu alheilög, þá er það mikill misskilningur. Að sama skapi hefur margoft fengist staðfest að utanaðakomandi afskipti Evrópusambandsins, Nató og Bandaríkjanna hafa verið fyrir hendi og eru enn í Úkraínu. Þá hafa sjálfstæðar sveitir stríðsmanna fengið að ganga nær hömlulaust til ofbeldisverka til hliðar við hinn eiginlega her Úkraínu  og minnir það nokkuð á aðfarir Bandaríkjahers í Írak sem iðulega studdist við ofbeldishópa sem frömdu illvirki til að skelfa fólk til hlýðni áður en sjálfur herinn lét til skarar skríða.

Ráðist á þingmenn í Strasbourg

Þá setti það ljótan svip á þingið að þessu sinni að ráðist var á formann og varaformann Kommúnsistaflokks Rússlands í grennd  við þinghúsið, þá Gennady Zyuganov og Ivan Melnikov.
Í forestakosningum í Rússlandi hefur Gennady ítrekað hafnað  í örðu sæti, 1995 gegn Yeltsin með 40.3% atkvæða og árið 2012 fékk hann 17%, aftur í öðru sæti, gegn Medvedev,  frambjóðanda Pútíns.  
Skyldu þetta vera óhrein atkvæði, ekki einu sinni umræðunnar virði þegar handhafi þeirra er beittur ofbeldi þegar hann sækir þing mikilvægustu mannréttindastofnunar Evrópu? Enga umræðu heyrði ég fara fram um þetta atvik nema það sem ég heyrði þessa tvo Rússa segja sjálfa.
http://www.panorama.am/en/popular/2015/01/26/russia-mps-attacked/

Gleymum ekki hlutverki Evrópuráðsins

Ég spái því að verði framhald á þessari útilokunarstefnu Evrópuráðsins eigi kaldastríðstal eftir að magnast, að þessu sinni á alla bóga. Það væri ekki til góðs. Ef ekki á að eyðileggja Evrópuráðið verða menn að gera sér grein fyrir því að Evrópuráðinu er ætlað annað hlutverk en Nató eða Evrópusambandinu ef því er að skipta. Aðkoma hinna tveggja síðarnefndu að Úkraínu er ekki til eftirbreytni að mínu mati. Það verður þó að segjast að þessum samtökum ríkja er ætlað annað hlutverk en Evrópuráðinu, sem fyrst og fremst er samráðs- og umræðuvettvangur þingmanna um mannréttindi.
Ef dæma skal af nýafstöðnu þingi Evrópuráðsins fer þeim nú fjölgandi sem virðast hafa gleymt upphaflegu hlutverki þess.