Fara í efni

ER ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN AÐ NÁ SÉR?

strandvarslan 1
strandvarslan 1


Mikið var róandi að lesa um nýafstaðana heimsókn fulltrúa AGS til Íslands. Minnti svolitið á gamla daga - rétt fyrir hrun. Sjaldan hef ég fyrirhitt ánægðara fólk en fulltrúa sjóðsins sem ég hitti einhverju sinni á fundi um stöðu Íslands á þeim tíma. Aldrei höfðu þeir kynnst annarri eins efnahagsparadís og Ísland var í þeirra huga á góðri leið að verða á þessum tíma. Og hvílíkir stjórnmálamenn! Ásetningur ráðandi stjórnmálamanna á Íslandi var að gera landið „einfalt",  án eftirlits og regluverks.

Með stjörnur í augum

Mér er minnisstætt hvernig þetta hafði hrifið sendinefnd AGS. Þegar ég hitti nefndina var hún nýkomin úr Gullna hringnum. Þreytt en sæl og slök. Lét sig hafa að afplána hálftíma með mér að útlista hætturnar af markaðsvæðingu grunnþjónustunnar og hömluelysis í fjármálaheiminum. Bara eitt var ekki nógu gott, man ég að fulltrúar AGS sögðu. Það væri Íbúðalánasjóður. Það þyrfti endilega að losna við hann og fela bönkunum okkur til ráðstöfunar með húð og hári. Þeir væru  jú svo traustir.
Sjá m.a. frá 2005: https://www.ogmundur.is/is/greinar/1-mai-skiptir-mali

Endurtekin saga: AGS gegn Íbúðalánasjóði 

Og nú heyrum við sama sönginn. Það er ekki gott að samfélagið beri ábyrgð á húsnæðiskerfinu segir AGS sendinefnd sem hér hefur verið síðustu daga. Það eiga bankarnir að gera. Eins og í síðasta partíi.

Við munum hvernig það fór. Bankarnir lánuðu yfir 100% af verðgildi eigna og hirtu ekkert um greiðslugetu. Fóru með marga í þrot og kenndu síðan Íbúðalánasjóði um, Fóru síðan sjálfir á hausinn og tóku með sér allt íslenska samfélagið. Bankarnir eru nú að rísa að nýju í sinni gömlu mynd. Efra launalagið í bönkunum á helmingi hærri launum en efra lagið á spítölunum. En eftir liggur samfélagið meira og minna lamað - alla vega heilbrigðiskerfið.

AGS gaf lítið fyrir heilbrigðiskerfið

Þá ég var í ríkisstjórn í kjölfar hrunsins  heyrði ég aldrei, ALDREI, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins spyrja hvernig gengi á sjúkrahúsunum vegna niðurskurðar. En oft var lýst áhyggjum yfir bönkum og að örugglega yrði hvergi gengið á einka-eignarréttinn með almennri skuldaniðurfærslu.

Í kjölfar hrunsins lét AGS ekki fara mikið fyrir aðdáun sinni á auðhyggju. En mér sýnist hins vegar Eyjólfur vera að hressast því nú spyr AGS hvers vegna í ósköpunum bankarnir megi ekki hafa húsnæðismálin á sinni könnu. Í heimilum fólks sé að finna traustustu veðin. Það sé ósanngjarnt að Íbúðalánasjóður fái að sitja að slíkum gersemum. Nú er ég farinn að kannst við okkar menn. Mér sýnist AGS vera að finna sjálfan sig.

Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/12/19/leysa_tharf_upp_ibudalanasjod/

Líka OECD!

Það voru náttúrlega fleiri en AGS sem fóru á kostum í aðdraganda hrunsins. OECD átti margar eftirminnilegar innkomur. Árið 2006 gekk skýrsla  OECD um Ísland í stórum dráttum út á að mæra íslenska hagkerfið og hvetja ti áframhaldandi markaðsvæðingar: "Continue financial sector liberalisation so as to foster growth and stability" var einn frasinn sem OECD notaði 2006. "The successful liberalisation of the financial sector could be completed in various ways. First, distortions in the housing market need to be removed...Finally ... consideration should be given to whether goverment-sponsored investments funds should be run along private-sector lines." Lagt var til að Íbúðalánasjóður yrði lagður niður, og umsvif banka á íbúðalánamarkaði aukin! ... Lengi mætti áfram halda ....

Það eina sem er breytt frá þessum tíma er að Framsókn er hætt að standa vörð um Íbúðalánasjóð og þar með komin í lið með þeim sem vilja eyðlieggja sjóðinn. Það er dapurlegt. 
Strandvarsla