Fara í efni

1. MAÍ SKIPTIR MÁLI

Á sunnudag er 1. maí, baráttudagur verkalýðsins. Þá sameinast launafólk um heim allan um að hamra á baráttukröfum sínum um jöfnuð og réttlæti. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Alls staðar er auðhyggja í sókn. Hún beitir fyrir sig öflugustu herveldum heimsins og stofnunum á borð við Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðskiptastofnunina. Ég átti þess kost ekki alls fyrir löngu að hitta að máli hér á landi sendinefnd frá fyrstnefndu stofnuninni. Varla er hægt að kalla samskipti okkar samræður fremur en við myndum segja að skoðanaskipti ættu sér stað þegar talað er inn í múrvegg. Þessar stofnanir skilja ekkert annað en völd. Ef þeirra eigin völdum er ógnað hlusta þær, annars ekki. Þær fjöldahreyfingar sem tóku að myndast undir lok síðustu aldar og hafa verið að hnykla vöðvana í sívaxandi mæli hafa orðið þess valdandi að málsvarar auðvaldsins hafa gerst heldur hógværari í orðum sínum. Ekki gjörðum ennþá. Það þarf að hnykla vöðvana enn betur og miklu meira. Handhafar auðs og valda vita sem er að rísi almenningur í heiminum upp gegn auðhyggjunni er henni voðinn vís. Auðvitað á nákvæmlega hið sama við hér á landi og úti í hinum stóra heimi. Þegar fólk sýnir samstöðu fær það sínu framgengt. Óbilgjarnar ríkisstjórnir gerast þá blíðmálli og breyta hegðan sinni.

Á Íslandi stefnir í mikið óefni fari fram sem horfir og er orðin lífsnauðsyn að koma vitinu fyrir stjórnvöld. Á meðan sumir telja eignir sínar í milljöðrum hafa aðrir vart í sig og á. Biðlistar aldraðra eftir vistun á elliheimilum eru lengri en nokkru sinni, öryrkjum fjölgar og er það að hluta til rakið til vaxandi harðneskju á vinnumarkaði. Tilkostnaður við veikindi eykst og þannig mætti áfram telja dæmin um það hvernig róðurinn þyngist jafnt og þétt hjá tekjulitlu fólki á Íslandi, einkum því sem býr við veikindi eða aðra erfiðleika. Þetta gerist á sama tíma og ríkisstjórnin lætur þau boð út ganga að allir landsmenn bókstaflega baði sig í góðæri. Vel sóttir baráttufundir á degi verkalýðsins er krafa um breytta forgangsröð. Höfum það í huga.