EIGUM VIÐ AÐ ÞJÓÐNÝTA MORGUNBLAÐIÐ?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22/23.11.25.

Ég man ekki betur en að þessari hugmynd hafi einhvern tímann verið hreyft. Kannski í gamni. En nú finnst mér að megi hins vegar ræða hana af meiri alvöru.
Auðvitað krefst þessi óvenjulega nálgun nokkurra formálsorða: Á öldinni sem leið voru rekin nokkur flokksblöð í landinu - málgögn starfandi stjórnmálaflokka – og nutu þau ríkisstyrkja. Þessir fjölmiðlar tryggðu að nokkru marki að gagnstæð sjónarmið kæmust til umræðu. Eitt blaðið var með NATÓ, annað á móti, eitt vildi samvinnurekstur og annað bæjarútgerðir og síðan var það þriðja í andstöðu við hvort tveggja. Um allt þetta og margt fleira var rifist i leiðurum og úr þeim var síðan skilmerkilega lesið í Ríkisútvarpi.
Og í Ríkisútvarpinu voru reglulega flutt erindi um brennandi mál á eins konar málfundi. Um daginn og veginn hét sá dagskrárliður.
Endalaust var deilt um fjölmiðlana, hvort þeir væru nægilega opnir almenningi, hvort þeir svöruðu eftirspurn um efni, í tónlist, fréttum eða öðru og svo fór að gerast ágeng spurningin um það hvort þeir væru nægilega faglegir sem kallað var án þess þó að það væri nokkurn tímann skilgreint í þaula hvað það merkti.
Eitt var þó óumdeilt og það var að fjölmiðlaflóran var á sinn hátt sameinandi. Við fengum öll okkar skammt af poppi, of takmarkaðan þótti yngri kynslóðum, en klassík fengum við öll líka, öll heyrðum við fjallað um daglegt mál og öllum bauðst að sitja málfundinn um daginn og veginn.
Öllu þessu er vissulega enn sinnt en nú hefur allt sundrast. Popprásir sinna sínu og klassíkerinn finnur sína rás, innlenda eða erlenda. Spjallrásum hefur fjölgað og þar með hliðvörðum sem hleypa fólki að hljóðnemanum. Enn er hins vegar beðið eftir boðaðri fagmennsku í fréttum og er þar eflaust komin skýringin á því að fólk segir skilið við fréttatímana í línulegri dagskrá og leitar í þætti sem er að finna á netinu um afmörkuð efni. Ég er einn þeirra sem þetta gera og þykir ágætt.
Og einu má ekki gleyma. Vefmiðlarnir gera fólki auðveldara að fá birt eftir sig efni auk þess sem það getur valsað um á netinu með skoðanir sínar.
En þar er komið að því áhyggjuefni sem ýmsir hafa viðrað upp á síðkastið. Netinu stýra nefnilega eigendur þess, peningamenn sem þjóna tilteknum hagsmunum. Ef við þykjum ganga gegn þeim hagsmunum er okkur vísað á dyr eins og dæmin sanna. Svo er það hitt að greinar okkar á vefmiðlunum birtast í dag en eru horfnar sjónum á morgun. Vissulega má grafa þær upp en þær eru síður varanlegar í huga okkar en það sem birtist á pappír.
Á netinu getum við spjallað út í eitt svo lengi sem peningavaldið bregður ekki fyrir okkur fæti en hópnum sem við náum til er engu að síður ekki saman að jafna við lesendafjölda flokksmálgagnanna eða hlustendur Ríkisútvarpsins þegar þess naut við sem einokunarrisa.
Ekki erum við á leið þangað aftur. En kannski að einhverju leyti. Það er spurningin. Ég var lengi vel í forsvari fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins og barðist með kjafti og klóm gegn því sem mér þótti vera niðurbrot á þeirri stofnun. Ég minnist þess að Hrafn Gunnlaugsson, um skeið dagskrárstjóri, talaði fyrir því að Ríkisútvarpið ætti að vera eins og bókasafn sem dreifði aðfengnu efni. Ég sagði á hinn bóginn að svo ætti vissulega að vera í bland en ef stofnunin hætti að framleiða efni kæmi að því að henni héldist ekki á færu fólki og gæti þá ekki sinnt krefjandi verkefnum þegar á þyrfti að halda. Síðar kom Illugi Gunnarsson í menntamálaráðuneytið og talaði á sömu lund og Hrafn hafði gert, vildi menningu og efla íslensku, það áttum við sameiginlegt þótt okkur greindi á um leiðir.
Nú gerist það að formaður stjórnar RÚV, Stefán Jón Hafstein, segir að dreifiveitur auðkýfinganna á netinu gætu reynst lýðræðinu varasamar og bæri að huga að því að samfélagið sameinaðist um slíkan rekstur.
Hvað er maðurinn að fara spyr leiðarahöfundur Mogga, vill hann ef til vill að fjölmiðill á borð við Morgunblaðið verði ríkisrekinn?
Já, það er nú það. Morgunblaðið er eini prentaði fjölmiðillinn á Íslandi sem dreift er á landsvísu. Á sinn hátt er hann sameinandi í vandaðri umfjöllun sinni um menningarmál, hann birtir greinar gagnstæðra sjónarmiða og síðan en ekki síst söfnumst við saman við lát ástvina og minnumst þeirra á síðum blaðsins og eru þessar minningargreinar auk þess einstök heimild um líf þjóðar.
Greinum þyrfti vissulega að fjölga í ríkisreknu Morgunblaði, heiminn þyrfti að skoða frá fleiri sjónarhólum en nú tíðkast í fréttaskrifum og fleiri þyrftu að halda um penna við leiðaraskrif.
En ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn að endurskoða sitthvað í eigin afstöðu í ljósi gerbreyttra aðstæðna í fjölmiðlun á landsvísu og í sundruðum heimi. Þessi pistill hefði alveg eins mátt heita, ákall um samfélag.
Væri ekki ágætt að við opnuðum öll hugann, hleyptum fordómum út og fersku lofti inn?
---------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)