Fara í efni

ÉG STAL ÞVÍ FYRST

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20/21.04.24.
Mér kom ný­lega upp í hug­ann saga sem vin­kona mín sagði mér fyr­ir um fjöru­tíu árum. Hún var flug­freyja. Ein­hverju sinni var hún send með sér­stöku teymi til þess að þjálfa áhafn­ir hjá flug­fé­lagi í landi þar sem mút­ur viðgeng­ust – voru nán­ast tald­ar eðli­leg­ar, varla orð á ger­andi.

Nema hvað, í fræðslu­pró­gramm­inu var verðandi flug­freyj­um kennt að selja varn­ing eins og tíðkast í lengri flug­ferðum, sæl­gæti, tób­ak og áfengi og ann­an smá­varn­ing. Í lok fyrsta flugs­ins á nám­skeiðinu hrósaði kenn­ar­inn hópn­um fyr­ir vel unn­in störf og sagði að nú væri komið að upp­gjöri. Flug­freyj­un­um verðandi bæri að af­henda pen­ing­ana sem feng­ist hefðu í söl­unni og sýna reikn­ings­yf­ir­lit.

Við þetta gaus upp mik­il reiði – sem hópn­um öll­um þótti greini­lega vera rétt­lát reiði. Þetta skyldi aldrei verða! Og þegar nám­skeiðshald­ar­inn rétti fram hend­ur sín­ar og krafðist þess að fá pen­ing­ana sem ein flug­freyj­an hafði í fór­um sín­um, sagði sú sam­an­bitn­um vör­um: „I stole it first,“ ég stal því fyrst.

Á dög­un­um var stolið pen­ing­um, ein­um þrjá­tíu millj­ón­um, frá ör­ygg­is­vörðum sem fóru á milli spila­kassa­sala að safna sam­an kassa­fénu. Ekki er mér ljóst til hvaða þjóðþrif­a­starf­semi pen­ing­arn­ir áttu að renna, sá þó ein­hvers staðar að talskona Há­skóla Íslands, sem nær­ir sig reglu­lega á pen­ing­um úr spila­köss­um, sagði að það væri bót í máli að all­ir væru tryggðir í bak og fyr­ir, þannig að þetta væri ekki tapað fé.

Sem kunn­ugt er hef­ur mörg­um þótt það vera álita­mál hvort fjár­hættu­spila­kass­ar séu með öllu lög­leg­ir. Ósiðleg­ir eru þeir í það minnsta, því með köss­un­um er haft fé af fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna, enda nefnt spilafíkl­ar. Ef svo er, þá er ekki fjarri lagi að segja að spilafíkl­arn­ir séu þeir sem stolið var af fyrst. Löngu síðar í ferl­inu voru þjóf­arn­ir sem stálu frá ör­ygg­is­vörðunum.

En ef það voru spilafíkl­ar sem fyrst var stolið frá, þurfa fjöl­miðlar þá ekki að spyrja alla málsaðila hvort þeim þyki eðli­legt að þeir sem upp­haf­lega var stolið frá liggi óbætt­ir hjá garði. Hvar sé þeirra trygg­ing ef all­ir voru tryggðir? Hlyti það ekki að taka til þeirra sem hafa tapað al­eig­unni og stund­um heils­unni í fjár­hættu­spil­um af þessu tagi?

Og hvar ligg­ur ábyrgðin? Er það kannski rík­is­stjórn­in og Alþingi sem þyrfti að svara þeirri spurn­ingu? Þetta eru þau sem setja lög­in og eiga að hafa eft­ir­lit með fjár­hættu­spil­um. Yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti þjóðar­inn­ar er and­víg­ur rekstri fjár­hættu­spila­kassa og vill ekki fjár­hættu­spil á net­inu. Þetta hef­ur komið fram í vönduðum skoðana­könn­un­um. Þrátt fyr­ir það læt­ur rík­is­vald og lög­gjafi sér þetta í léttu rúmi liggja. En það mega þau vita að at­hafna­leysi stjórn­valda get­ur verið sak­næmt ef það sann­an­lega veld­ur tjóni.

Þegar stofn­un­um, versl­un­um, veit­inga­stof­um og skemmtistöðum var lokað í covid-far­aldr­in­um, gilti annað lengi vel um spila­kassa­sal­ina. Þeir máttu vera opn­ir svo framar­lega að spritt­brúsi væri við hvern kassa. Þegar spila­söl­un­um var svo loks­ins lokað eft­ir margít­rekaða beiðni frá sam­tök­um spilafíkla var ákveðið að skatt­greiðend­ur skyldu bæta rekstr­araðilum spila­sal­anna tjónið með tug­um millj­óna króna. Með öðrum orðum, all­ir skyldu tryggðir.

En ekki al­veg all­ir, ekki þeir sem stolið var frá fyrst. En sá er mun­ur­inn á flug­freyj­unni okk­ar hér að fram­an og þeim öðrum sem hér hafa komið við sögu, að hún kom þó hreint til dyr­anna og kvað upp úr skýrt og skor­in­ort um ráns­feng­inn, sem hún taldi sig eiga rétt á, I stole it first.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.