Fara í efni

EFTIRLAUNAFRUMVARPIÐ VINDUR UPP Á SIG

Á sínum tíma fylgdist fólk agndofa með hinu fræga (að endemum) eftirlaunafrumvarpi þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem var sérsniðið fyrir ráðherra og alþingismenn. Þegar fjölmiðlar vöktu nú nýlega máls á því að samkvæmt lögunum geta fyrrverandi ráðherrar og alþingismenn verið á eftirlaunum, jafnframt því að gegna launaðri vinnu fyrir ríkið, stekkur Halldór Ásgrímsson fram á sjónarsviðið og segir að breyta þurfi lögunum, menn hafi hreinlega ekki áttað sig á að svona væri þessu varið! Las hann ekki frumvarpið? Eftirlaunafrumvarpið var einfalt og auðskilið og þetta hlaut öllum að vera ljóst sem kynntu sér málið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingar, sagði í sjónvarpsviðtali að þetta væri afleiðing af flýtimeðferð frumvarpsins, nær hefði verið að gefa sér betri tíma svo sníða mætti agnúa af og ná sátt um þessar breytingar. Þessu er ég algerlega ósammála. Valið sem menn stóðu frammi fyrir var að setja ráðherra og þingmenn í lífeyrissjóð almennra starfsmanna ríkisins eða sérsníða sjóð sérstaklega fyrir þá. Um sérsniðið hefði aldrei náðst nein sátt. Um það er ég sannfærður. Valið sem alþingismenn stóðu frammi fyrir var því einfalt og skýrt og þurfti engra rannsókna við. Þetta mátti vera hverjum manni auðskilið. Afnema átti lífeyrisdeild ráðherra og þingmanna eins og lagt var til af minni hálfu.

Ömurlegastur er þó hlutur Alþýðusambands Íslands í þessu máli og get ég fullvissað félaga mína á þeim bænum um að nú er farið að þykkna í okkur sem stöndum að hinum opinberu sjóðum. ASÍ leyfir sér að spyrða saman sérsniðinn lífeyrissjóð ráðherra og þingmanna annars vegar og lífeyrissjóði ríkis- og bæjarstarfsmanna hins vegar, sem BSRB og önnur samtök innan almannaþjónustunnar hafa barist fyrir áratugum saman, og heimtar að þegar lagabreyting verði gerð á fyrrnefnda sjóðnum verði einnig tekið á hinum síðarnefndu. Og hvað skal gert? Réttindin rýrð! Augljóst er að þetta felst í kröfu Alþýðusambandsins. ASÍ og samtök atvinnurekenda hafa að undanförnu haldið uppi andróðri gegn sjóðum opinberra starfsmanna; þar séu menn oftryggðir og baktryggðir, slíkt sé af hinu illa. Samræming þýðir þess vegna í huga félaga minna í ASÍ að réttindin skuli rýrð hjá opinberum starfsmönnum. Þetta er undarlegur málflutningur innan úr samtökum launafólks og kaldar kveðjur til tugþúsunda launafólks sem áratugum saman hefur kappkostað við samningaborðið að bæta og styrkja lífeyriskerfi félagsmanna sinna! Þessari aðför verður að sjálfsögðu ekki tekið þegjandi. 

Nýleg skrif um þetta efni eru HÉR