Fara í efni

HVERNIG Á AÐ LEIÐRÉTTA MISRÉTTIÐ?

Sannast sagna verð ég hugsi við ýmis skrif sem nú eru að birtast um lífeyrismál. Fyrst staldraði ég við nýlegan leiðara í blaði Verslunarmannafélags Reykjavíkur,  síðan við pistil sem birtist á vefriti Framsóknarflokksins. Þá verð ég hugsi yfir heimsókn blaðamanns frá bresku tímariti sem fjallar um lífeyrismál. Hann átti við mig viðtal en hafði áður komið við hjá ýmsum álitsgjöfum, bæði atvinnurekendamegin og launamannamegin. Þessi ágæti maður var uppfullur af ranglætinu sem tröllriði lífeyriskerfinu: Opinberir starfsmenn byggju við umframrétt gagnvart öðrum. Það misrétti yrði að leiðrétta. Ekki með því að bæta réttindi annarra heldur með því að draga úr réttindum opinberra starfsmanna! Þetta er sami tónninn og kemur fram í VR leiðaranum og hjá Framsóknarmanninum G. Valdimar Valdemarssyni. Reyndar eru leiðarahöfundur og pistlahöfundur nokkuð myrkir í máli. Svo er að skilja að opinberir starfsmenn búi við fráleit réttindi, "óþolandi forréttindi", sem eðlilegt væri að afnema, "nær væri að greiða opinberum starfsmönnum hærri laun." Hins vegar hljóti það að vera verkefni komandi kjarasamninga að koma svipuðu fyrirkomulagi hjá öðrum. G. Valdimar er á svipaðri slóð. Það sem þessum aðilum þykir svívirðilegast er að öryggi lífeyrisþegans skuli tryggt með þeim hætti að iðgjöldin beri að hækka í stað þess að draga réttindi lífeyrisþegans niður. Þetta þykir mér vera hið besta mál og vildi hafa sem almenna reglu. Ekki viljum við láta lækka kauptaxtana þegar kreppir að, sama viljum við að gildi um kjör lífeyrisþega – allra lífeyrisþega.

Nú er mér spurn. Getur verið að mönnum þyki of mikið lagt til hliðar í lífeyrissparnað? Ég veit að margir gagnrýnendur lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna eru þessarar skoðunar. Þetta eiga þeir að segja opinberlega í stað þess að naga í kjör sem sem fjölmennir hópar launafólks hafa barist fyrir um áratuga skeið. Við þessa aðila segi ég, talið hreint út og vífilengjulaust: Eruð þið að krefjast þess að lífeyrisréttur sjúkraliða, lögreglumanna, strætisvagnastjóra, skrifstofufólks, tollvarða, læknaritara, fangavarða og fl. og fl. verði skertur – eða viljið þið sambærilegan rétt til allra? Hinu síðara er ég fylgjandi og tel ég að þar tali ég fyrir opinbera starfsmenn almennt.

Eitt veit ég að innan BSRB er það viðhorf almennt ríkjandi að styrkja beri og efla lífeyriskerfið í þágu allra. Það verður hins vegar ekki liðið að grafið verði undan lífeyrisréttindum starfsfólks í almannaþjónustu eins og því miður örlar á nú um stundir jafnvel af hálfu aðila sem síst skyldi.

 

Svo ekkert fari á milli mála læt ég hér að neðanfylgja ívitnuð skrif:

 

24.11.2004  Steinunn Böðvarsdóttir

Óþolandi misrétti - leiðarinn í 6. tbl. VR blaðsins

Í síðustu kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, sem undirritaðir voru síðasta vor, var samið um aukið mótframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð. Um næstu áramót fer mótframlagið úr 6% í 7% og síðan í 8% eftir 2 ár. Þegar við vorum að undirbúa kröfur okkar fyrir ári vissum við að almennu lífeyrissjóðirnir ættu erfitt með að standa undir skuldbindingum sínum miðað við óbreytt iðgjald, einkum vegna þess að lífaldur er að lengjast og tíðni örorku að aukast. Því var sett fram krafa um aukin framlög til lífeyrissjóða. Jafnframt vildu menn freista þess að ná fram réttindaauka til að nálgast réttindi eins og þau eru í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna.


Nýjar tölur um ævilengd og örorkulíkur sýna að meðalævi Íslendinga er að lengjast með síauknum hraða. Síðan 1970 hefur ólifuð meðalævi 65 ára karla lengst um 18%, rúmlega þriðjungur hefur komið til á síðustu þremur árum. Jafnframt leiðir ný könnun á íslenskum örorkulíkum í ljós að örorka hér á landi er mun meiri en gert var ráð fyrir í þeim aðlöguðu dönsku örorkutöflum sem notaðar hafa verið til þessa. Þessi þróun hefur það í för með sér að umsamin hækkun á mótframlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóð nú um áramót fer að öllu leyti til að tryggja núverandi loforð og meira til, ekkert er eftir til að auka réttindi launafólks.

Þessi staða leiðir hugann að því óþolandi misrétti sem fólk á almennum vinnumarkaði býr við, það verður eitt að standa undir sínum örorku- og eftirlaunaskuldbindingum á meðan opinberir starfsmenn þurfa engu að kvíða, hvorki hvað varðar áhrif lengri ævi, aukinnar örorku né hugsanlega lægri ávöxtun lífeyrissjóða í framtíðinni. Þeir hafa um 30% hærri eftirlaunarétt en launafólk á almennum markaði og búa við þau forréttindi að fyllt verður á bensíntanka lífeyrissjóða opinberra starfsmanna úr sameiginlegum sjóðum ef innborgað iðgjald dugar ekki fyrir þeim réttindum sem lofað er. Almenningi er sendur reikningurinn í formi hærri skatta. Þetta samráð opinberra starfsmanna og löggjafavaldsins er með öllu óþolandi. Nær væri að greiða opinberum starfsmönnum hærri laun og láta þá búa við sömu aðstæður í lífeyrismálum og aðrir skattborgarar.

Það er augljóst að ef forsendur kjarasamninga halda ekki og samningar verða lausir á almennum vinnumarkaði næsta haust, verður uppi á borðum að huga að leiðréttingu á þessum grundallarmun á lífeyriskerfum á almennum markaði og hinum opinbera.
gpp

 

29. desember 2004

Það búa tvær þjóðir í landinu

Undanfarnar vikur og misseri hafa verið í gangi kjaraviðræður sveitarfélaga og ríkisins við opinbera starfsmenn.   Opinberir starfsmenn bera sig gjarnan saman  við stéttir á almennum markaði og telja sig liggja eftir í launum.  Kröfugerð þeirra gengur oftar en ekki út á að ná sambærilegum kjörum og einhver stétt sem þeir hafa valið sér sem viðmiðunarstétt.  Þetta er allt saman gott og blessað og auðvitað þarf að halda ákveðnu jafnvægi í kjörum milli svipaðra stétta svo ekki verði atgervisflótti úr einni  starfstétt yfir í aðra.

Grunnskólakennarar miðuðu við kjör framhaldsskólakennara þegar þeir mótuðu sínar kröfur fyrir samningaviðræðurnar sem stóðu lungann úr árinu og leiddu til hatrammra verkfallsátaka.   Leikskólakennarar miða sig við grunnskólakennara og svona leiðir eitt af öðru.  Þegar framhaldsskólakennarar náðu fram leiðréttingu á sínum kjörum, fyrir örfáum árum, hlaut það óhjákvæmilega að hafa áhrif á kröfugerð annarra hópa og í því ljósi ber að skoða kröfu grunnskólakennara um aðkomu ríkisins að kjaraviðræðum kennara og sveitarfélaga.

En ég ætlaði ekki að ræða kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna núna heldur þá staðreynd að það búa tvær þjóðir í landinu.   Önnur þjóðin eru opinberir starfsmenn sem búa við óþolandi forréttindi í lífeyrismálum og hin þjóðin eru launþegar á almennum markaði sem taka á sig margvíslegar lögboðnar skerðingar í sínum lífeyrissjóðum meðan sveitarfélög og ríkissjóður safna skuldum í formi lífeyrisskuldbindinga, skuldum sem þessir sömu launþegar bera hitann og þungann af að borga.

Alþingi hefur sett lög um starfssemi lífeyrissjóða á almennum markaði sem felur þeim þær skyldur á herðar að standa undir lífeyrisskuldbindingum á hverjum tíma.  Lífeyrissjóðunum ber að framkvæma reglulega tryggingafræðilega úttekt á sjóðunum og skuldbindingum þeirra og leiðrétta áunninn réttindi sjóðfélaga þannig að sjóðirinr eigi fyrir skuldbindingum sínum eins og þær eru á hverjum tíma.   Nú um áramót mun mótframlag atvinnurekenda á almennum markaði hækka um eitt prósent og er það eitt lítið skref í þá átt að jafna þann aðstöðumun sem er á milli launþega á almennum markaði og starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.   Sá galli er bara á gjöf Njarðar að á sama tíma er flestum sjóðunum gert að skerða sín réttindi vegna aukinnar ævilengdar Íslendinga.   Þetta eina prósent gerir í flestum tilfellum ekki meira en að vinna upp þá lögboðnu skerðingu sem sjóðirnir verða að taka á sig vegna hækkaðs lífaldurs.

En hvað gera lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna til þess að mæta hækkuðum lífaldri Íslendinga, jú þeir senda reikninginn til ríkis og sveitarfélaga. Sjóðfélagar þeirra eru á fyrsta farrými og taka ekki á sig nokkra skerðingu.  Þeir eru forrétindahópur sem lögin ná ekki til.  Þeir senda samborgurum sínum reikninginn, þessum sömu og er verið að skerða lífeyrinn hjá. 

Á undanförnum árum hefur hvert ríkisfyrirtækið á fætur öðru verið einkavætt og það selt.  Þetta er sjálfsögð þróun og engin ástæða til þess að ríkið sé í atvinnustarfssemi sem almenni markaðurinn getur sinnt jafn vel eða jafnvel betur og oft með hagkvæmari hætti.  Nú stendur fyrir dyrum sala á Símanum og hafa menn verið að gera því skóna að það fáist kannski um 50 milljarðar fyrir símann þegar hann verður seldur.  En hvert renna þessir 50 milljarðar, jú kjarasamningar opinberra starfsmanna þetta haustið munu að öllum líkindum kosta ríkissjóð um 50 milljarða í formi hækkaðra lífeyrisskuldbindinga.   Andvirði Símans rennur því ekki til nema hluta þeirra sem eiga hann.  Það er bara til opinberra starfsmanna.  Við hin fáum ekkert fyrir Símann.  Verðmæti þeirra ríkisfyrirtækja sem hafa verið seld undanfarin ár hefur runnið til greiðslu á lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs og það er er langt í frá að það hafi dugað til.

Nýlega kom einn talsmaður opinberra starfsmanna fram í sjónvarpsfréttum og talaði um að sá hópur sem hann talaði fyrir lægi langt á eftir sambærilegum stéttum á almennum markaði í launum.  Talsmaðurinn talað ekkert um kjörin almennt það var ekkert minnst á lífeyrisréttindin og það virðast vera samantekin ráð þeirra sem um samninga opinbera starfsmanna fjálla að ræða ekki þessi lífeyriskjör.  Enda er það einusinni þannig að samningamenn ríkisins og sveitarfélaganna njóta líka þeirra forréttinda að vera í þessum baktryggðu lífeyrissjóðum og geta sent okkur hinum reikninginn.

Það er oft haft á orði að erlendar þjóðir öfundi Íslendinga af lífeyrissjóðakerfinu, en það gleymist að taka fram að þar er einungis verið að tala um almennu lífeyrissjóðina, ekki þessa opinberu.  Það öfunda engir íslenska skattborgara af þeirri hít sem þeir eru.   Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig stendur á því að þessi mál eru ekki rædd.  Afhverju kemur aldrei upp opinber umræða um lífeyrisforréttindi opinberra starfsmanna, afhverju eru þessi kjör ekki reiknuð út og borin á borð, hvað má meta það í mánaðarlaunum kennara að taka laun samkvæmt eftirmannsreglunni?  Ég er ansi hræddur um að það skipti tugum þúsunda á mánuði og að þegar allt kemur til alls þá séu kjör kennara á Íslandi fullkomlega sambærileg ef ekki miklu betri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.   Flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við  hafa farið í gegnum sársaukafullar skerðingar á lífeyrisréttindum og það er fyrirséð að þar þarf að ganga enn lengra í mörgum tilfellum.

Talsmenn opinberra starfsmenna bera aldrei saman lífeyriskjörin á Íslandi og erlendis, heldur einungis reiknuð mánaðarlaun.   Þetta heitir að bera saman epli og appelsínur og það eru aldrei gerðar athugasemdir við þennan samanburð þar sem samningsaðilar beggja vegna borðsins hafa af því hagsmuni að lífeyrisréttindin liggji í þagnargildi.  En afhverju taka sveitarstjórnarmenn ekki frumkvæði að því að ræða þessi mál?  Kannski vegna þess að þeir þiggja líka laun fyrir setu í sveitarstjórnum og eru jafnvel bæjarstjórar.  Þeirra persónulegu hagsmunir liggja í því að tala ekki um lífeyrissjóðina.

Alþingismenn og ráðherrar, þeir ættu þá að geta sýnt af sér frumkvæði og brett um ermarnar og séð til þess að þegnar landsins sitji nú allir við sama borð í lífeyrismálum.. Eða hvað?

En nei, þar er  á ferðinni sá hópur sem nýtur messtra forréttinda. Lífeyrssjóður Alþingismanna og ráðherra er sjóður sem um eru sérstök lög þar sem réttindi eru reiknuð með allt öðrum hætti en í öðrum sjóðum.  Það var lýsandi fyrir ári síðan þegar til umræðu var frumvarp um lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra svokallað eftirlaunafrumvarp.  Það frumvarp snerist um að hækka eigið framlag alþingismanna í lífeyrissjóð og síðan voru gerðar breytingar á því hvenær þingmenn eða ráðherrar geta hafið töku lífeyris.  Breytingar sem sumar hverjar voru löngu tímabærar.  En umræðan um eftirlaunafrumvarpið snérist ekki um að þingmenn og ráðherrar væru forréttindahópur sem hefðu lífeyrisréttindi langt umfram það sem þegnar þessa lands geta látið sig dreyma um, nei umræðan snerist um það aukaatriði, hvort frumvarpið væri sénsniðið að þörfum Davíðs Oddssonar eða ekki. Þarna var settur upp leikþáttur sem afvegaleiddi umræðuna. Enginn þingmaður ræddi það að kannski væri eðlilegt að hækka laun þingmanna og láta þá greiða í almennan lífeyrissjóð og kaupa sér síðan aukin lífeyrisréttindi á almennum markaði, eins og Pétur og Páll eru að gera í dag.

Reyndar kom einn þingamaður í gegn breytingu á frumvarpinu, breytingu sem hefur í för með sér að þegar þingmaður hefur setið á þingi í fjögur kjörtímabil og hefur áunnið sér full lífeyrisréttindi hættir hann að greiða í lífeyrissjóð. Þetta var Jóhönnuákvæðið, svokallaða. Þingmenn og ráðherrar eru eina stéttin á Íslandi sem getur orðið undanþegin lífeyrisgreiðslum.

Það er ótrúlegt að á meðan lífeyrissjóður alþingismanna á ekki fyrir nema broti af skuldbindingum sínum skuli þingmaður sem kennir sig við jafnaðarstefnu leggja fram jafn fráleita tillögu og þessa.  Og í raun jafn fráleitt að aðrir þingmenn hafi fallið í þá gryfju að  samþykka þessa vitleysu.   Þingmönnum væri nær að greiða til sjóðsins meðan þeir þiggja laun fyrir setu á alþingi og leggja þannig sitt af mörkum til þess að hann standi undir skuldbindingum sínum.

Það er nú ekki hægt að ræða um opinbera lífeyrissjóði án þess að halda því til haga að það væri kannski ekkert að í sjóðum opinberra starfsmanna ef ríkið hefði greitt inn í sjóðina jafnóðum og lífeyrisskuldbinginarnar uðru til.  Þar er ekki við opinbera starfsmenn að sakast heldur ríkisstjórnir sem tóku um það meðvitaða ákvörðun að lifa um efni fram frá ári til árs og senda framtíðinni reikningin.  Af því erum við að súpa seyðið í dag.    Þeir fjármunir sem ekki voru greiddir inn  í sjóðina voru ekki ávaxtaðir af þeim á sama hátt og hjá sjóðunum á almenna markaðnum heldur var þeim eytt stjórnmálamönnunum.

Mismunur á launum opinberra starfsmanna og launþega á almennum markaði hefur oft verið skýrður með mismunandi lífeyrisréttindum og eflaust réttilega.  Fyrir nokkrum árum var stigið skref í þá átt að jafna þessi kjör með því að skipta lífeyrissjóði opinberra starfsmanna í deildir.   Þetta var skref í þá átta að jafna kjörin, en það er samt ennþá langt í land að hægt sé að segja að lífeyriskjörin séu sambærileg.

Á meðan svo er geta opinberir starfsmenn ekki reiknað með að um það verði sátt að laun þeirra verði sambærileg við stéttir á almennum markaði.  Til þess er þessi munur allt of mikill.   Ef það er einlægur vilji opinberra starfsmanna að miða sig við almenna markaðinn hljóta þeir að horfa til þess að jafna lífeyriskjörin.  Þau verða aldrei jöfnuð með þeim hætti að almenni markaðurinn nái sambærilegum kjörum og opinberir starfsmenn hafa í dag.  Það verður ekki gert með öðrum hætti en að opinberir starfsmenn selji hluta af sínum forréttindum fyrir hærri laun.

Það verður tekist á um kaup og kjör á Íslandi svo lengi sem land byggist.  Ég skil vel óánægju margra opinberra starfsmanna með kjör sín.  Það er erfitt að sætta sig við lægri laun alla sína starfsæfi til þess eins að njóta góðra lífeyrisréttinda.  Það fjárfestir enginn í íbúðarhúsnæði út á væntanleg lífeyrisréttindi.   Svo er það nú einusinni þannig að ákveðinn hluti þjóðarinnar lifir það ekki einusinni að komast á lífeyri. Það er því ekki boðlegt að bjóða heilu starfsstéttunum upp á þau bítti að þiggja lág laun vegna þess að ef þeim endist aldur og heilsa þá komi þau til með að  hafa það svo gott í ellinni.

Það er löngu tímabært að ríkisvaldið og sveitarfélögin móti stefnu um það hvernig komið verði á einu samræmdu lífeyrissjóðakerfi hér á landi.  Kerfi þar sem allir greiða sambærilegt framlag í í lífeyrissjóð og atvinnurekandi sambærilegt mótframlag.  Kerfi þar sem þeir sem vilja leggja meira fyrir geri það með frjálsum sparnaði.  Það er sjálfsagt og eðiliegt að fresta skatttöku þeirra tekna sem lagðar eru fyrir sem lífeyrissparnaður.  Það hefur sýnt sig að sá hvati hefur stóraukið sparnað landsmanna Á undanförnum árum hefur orðið vakning á almennum markaði í þá átt að æ fleiri leggja fyrir og eru meðvitaðir um lífeyrisréttindi sín.

Samningsaðilar á almennum markaði hafa undanfarin ár tekið kjarasamninga opinberra starfsmanna í gíslingu.  Þeir semja um ákveðnar hækkanir og setja síðan í sína samninga endurskoðunarákvæði um það að ef einhver fær meira en þeir þá verði fjandinn laus.   Ekki veit ég hvernig Samtök atvinnulífsins eða ASÍ tækju því ef opinberir starfsmenn gerðu kröfu um sambærileg ákvæði í sína samninga sem bindur hendur samningsaðili með svona afgerandi hætti.  Ég er ansi hræddur um að Ari Edwald og Grétar Þorsteinsson myndu ekki sitja þegjandi undir slíkum ákvæðum.  Það er að sjálfsögðu mikilvægt að tryggja stöðugleikann.  Sérstaklega fyrir almenna markaðinn sem hefur ekki jafn traustan bakhjarl og ríkissjóð og skattgreiðendur til að standa undir óábyrgum samningum.  En þess ber þó að gæta að leiðrétting í kjörum opinberra starfsmanna getur átt fullkomlega rétt á sér, og ASÍ og Samtök Atvinnulífsins geta ekki tekið sér það vald að dæma um hvort þörf sé á leiðréttingu.  Það hlýtur að vera samningsaðila að vega það og meta.

Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að móta efnahagsstefnuna en ekki samningsaðila á almennum vinnumarkaði.  Ríki og sveitarfélög verða að hafa svigrúm til að semja sig frá því misrétti sem er á milli kjara á almennum markaði og hjá opinberum starfsmönnum.  Það segir sig sjálft að ef opinberir starfsmenn sem haldið hefur verið niðri í launum vegna lífeyrisréttinda eiga að gefa þessi réttindi eftir þá gerist það ekki án umtalsverðar launahækkunar umfram almenna markaðinn.  Þetta verða aðilar á almenna markaðnum að skilja.    En ríkisvaldið og sveitarfélögin verða líka að móta sér stefnu til lengri tíma um það hvernig við samræmum þessi kjör.  Það er mikilvægt að þessi vinna hefjist sem fyrst og að að henni komi stéttarfélög opinbera starfsmanna, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin í landinu.  Og auðvitað eiga alþingismenn og ráðherrar að ganga á undan og varða veginn og endurskoða bæði laun og lífeyrisréttindi sín í átt til þess sem tíðkast á almennum markaði.

Í Morgunblaðinu var nýlega frétt um væntanlegar viðræður ríkisvaldins og fulltrúa  almennu lífeyrissjóðanna um nýja verkaskiptingu milli þessara aðila.  Verkaskiptingu þar sem ríkið tæki við örorkuþættinum og lífeyrissjóðirnir tækju á sig auknar skuldbindingar vegna ellilífeyris.  Þetta eru góðar fréttir fyrir félagsmenn í almennu lífeyrissjóðunum, og vonandi tekur ríkið jákvætt í þær hugmyndir sem þarna eru ræddar.  Það væri stórt og mikilvægt skref í þá átt að tryggja að í þessu landi verði ein þjóð í framtíðinni sem nýtur sambærilegra lífeyriskjara.
G. Valdimar Valdemarsson