DREKKINGARHYLUR OG ÖXI BÖÐULSINS TEKUR Á SIG ÝMSAR MYNDIR
Birtist í Morgunblaðinu 30.04.25.
Tvær greinar hef ég fengið birtar í Morgunblaðinu með nokkru millibili þar sem ég hef viðrað vangaveltur um dómstóla og réttarfar. Langar mig enn til þess að bæta í og þá ekki síst vegna viðbragða, meðal annars á síðum Morgunblaðsins.
Fyrri grein mín birtist í október árið 2023 og bar titillinn, Er tíðarandinn nær tökum á réttarkerfinu. Þar tók ég kynferðisbrotamál sem dæmi um málaflokk þar sem þörf væri á að lagfæra brotalamir sem augljóslega væri að finna hjá þeim stofnunum og aðilum sem að slíkum málum koma. Umfjöllun mín var almenns eðlis en ekki um tiltekið mál þótt það væri engu að síður kveikjan að skrifum mínum.
Í síðari grein minni, sem birtist nú í aprílmánuði, vildi ég andæfa þeim sem skömmuðust út í stjórnmálamenn sem gagnrýndu dómstóla og réttarfarið í landinu; sögðu slíkt grafa undan réttarkefinu.
Sú grein bar titilinn, Það má og á að gagnrýna dómstóla. Snöggur til að taka undir í eins konar svargrein var sá lögmaður sem af hve mestri eindrægni hefur gengið fram í gagnrýni á það sem honum hefur þótt fara miður í réttarfarinu. Þetta var að sjálfsögðu Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari.
Jón Steinar ósáttur
Hann samsinnir mér þó ekki að öðru leyti en því sem fram kom í fyrirsögn greinar minnar; dómstólana megi vissulega gagnrýna sé það gert á málefnalegan hátt en að ekki sjái hann betur en að ég vilji láta lagabókstaf lönd og leið í samræmi við það hvernig blási hverju sinni. Af skrifum mínum megi ráða að ég vilji “að svonefndur tíðarandi eigi að skipta meira máli við úrlausnir dómstóla en verið hefur”… dómstólar eigi jafnvel “að víkja frá lagareglum í vissum tilvikum, þegar tíðarandinn mæli með slíku.”
Þetta er misskilningur á því sem ég vildi koma áleiðis inn í þjóðfélagsumræðuna. Megin þráðurinn í málafylgju minni í báðum fyrrnefndum greinum byggði einmitt á því að vara við tíðarandanum, að hann mætti ekki taka völdin.
Vísað í tíðarandann til sögulegs skilnings
Það má hins vegar til sanns vegs færa að ég vísaði í tíðarandann; sagði að vildu menn öðlast sögulegan skilning þyrfti að horfa til þess að breytt viðhorf hefðu í tímans rás iðulega þokað réttarfarinu fram á við og þannig orðið til góðs. Ef ekki væri vegna breyttra viðhorfa stæðum við enn við Drekkingarhyl og með öxi í hönd vegna brota sem á sinni tíð þóttu varða líf og dauða en væru nú litin öðrum augum. Vísaði ég til upplýsingar 18. aldarinnar en hún hefði sagt til sín í breyttum lögum og upp kveðnum dómum víða um vestanverða Evrópu, einnig hér á landi.
Upplýsingin hafi með öðrum orðum leitt til þess að lögum hafi verið breytt en samt ekki þannig að lagabókstafurinn hafi verið hunsaður og að engu hafður.
Til þess eru lögin að farið sé eftir þeim
Dómar Magnúsar Stephensen dómstjóra voru þannig ekki þvert á lagabókstafinn en tóku hins vegar síður mið af refsigleði en áður tíðkaðist því nú var spurt hvað ætla mætti að skilaði sér best í breyttri og bættri breytni. Þessi afstaða upplýsingarmanna þótti í senn hagnýt og sanngjörn. Þannig var ekki nóg með að lagabókstaf væri breytt heldur sáu menn nú breyttan tilgang í refsiréttinum, andinn í lögunum varð nú annar. Tíðarandinn og andi laganna eru þannig náskyldir og markalínan stundum háskalega óljós. Á það benti ég rækilega í skrifum mínum og vísaði í sefasýki sem alltaf væri handan við hornið hvarvetna þar sem manneskjuna væri að finna. Þá væri eins gott að missa ekki sjónar á lagabókstafnum. Til þess væri hann að mark væri á honum tekið.
Það er því misskilningur hjá Jóni Steinari að ég hafi talað fyrir því að sviptivindar tískunnar mættu ráða þegar glæpur og refsing væru annars vegar. Þvert á móti!
En svo eru það aðrir þættir
En setjum nú sem svo að við Jón Steinar séum á einu máli um að lagabókstafurinn eigi að vera ráðandi í dómsal þá spyr ég hvort við getum ekki einnig orðið sammála um að fleira þurfi að koma til svo að réttmætur og sanngjarn dómur verði upp kveðinn. Það hljómar mjög klippt og skorið - og eftir því einfalt - að dæmt skuli samkvæmt lagabókstafnum. En sá bókstafur stendur varla einn. Hann á sér samhengi.
Í skrifum mínum nefndi ég dóma í kynferðisbrotamálum sem dæmi um furðulega sveiflukennt réttarfar. Engu væri líkara en dæmt væri eftir mismunandi lögum, lagabókstafurinn þýddi eitt í þessu máli en annað í öðru. En látum þennan þátt þó liggja á milli hluta að sinni og horfum til þess hvað dómarar fái í hendur til að byggja niðurstöður sínar á. Yfirleitt nýtur ekki annarra framburða í kynferðisbrotamálum en framburð meints geranda og brotaþola.
Kemur þar að rannsakendum. Þar ber fyrst að nefna vitnisburð heilbrigðisstarfsmanna sem gefa álit sitt á kæru brotaþola. Lögmenn hafa staðhæft í mín eyru að svo þungt vegi þessi vitnisburður að heita megi að dómsvaldið sé komið inn á sjúkraganginn. Þetta getur varla talist óeðlilegt, dómarar hljóta að taka mið af mati sérfræðinga heilbrigðiskerfisins. En þeim mun meiri er ábyrgð þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem treyst er fyrir skýrslugerð um ofbeldisbrot. Þarna þarf að fara saman árvekni og dómgreind dómarans og áreiðanleiki og fagmennska hlutaðaeigandi heilbrigðisstarfsmanna.
Í öðru lagi kemur lögregla iðulega að rannsókn slíkra mála. Hennar hlutur er einnig mikilvægur til þess að rétt sé staðið að málum, nákvæmni sé gætt og öllum málavöxtum haldið til haga. Að þessu hljóta dómarar að þurfa að huga.
Afleiðingarnar ævilangt
Samfélag sem gerir sér raunverulega grein fyrir því hve alvarlegir kynferðisglæpir eru vill að hart sé brugðist við slíku ofbeldi og í samræmi við það hafa dómarar stundum verið gagnrýndir fyrir linkind, þó síður nú en áður. Því hefur barátta í þágu brotaþola skilað. Sú barátta hefur vakið þjóðfélagið til aukinnar vitundar um hve alvarlegt ofbeldi af þessu tagi er.
En þetta á sér þá einnig aðra hlið. Hún er sú að menn sem dæmdir eru fyrir slík brot eiga sér fáa málsvara, verða nánast útskúfaðir, missa iðulega vinnuna og eiga varla inngengt í þjóðfélagið að nýju. Um þetta eru mörg dæmi.
Örlagaríkt að vandað sé til réttarkerfisins!
Það þarf því ekki að hafa mörg orð um það hve örlagaríkt það er að í réttarkerfinu séu viðhöfð yfirveguð og vönduð vinnubrögð þannig að dómar verði hafnir yfir vafa. Réttur meints fórnarlambs er ekki einn í húfi heldur einnig réttur meints geranda. Fórnarlamb ofbeldis getur átt við afleiðingarnar að stríða allt sitt líf. Fangelsisdómur fyrir kynferðisbrot er að sama skapi oftar en ekki í reynd lífstíðardómur.
Þótt Drekkingarhylur og öxi böðulsins sé langt að baki þá má ekki gleyma því að líf fólks má eyðileggja með ýmsum hætti. Og það gerist.
Það þarf því varla um það að fjölyrða hve mikilvægt það er að réttarkerfið og þá einnig allar stoðir þess geri sér grein fyrir ábyrgð sinni. Ef okkur finnst að þetta kerfi rísi ekki undir ábyrgð þá ber að gagnrýna það.
-------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/