Fara í efni

DÓMUR UPP KVEÐINN?

Lif -lsr
Lif -lsr

Út er komin skýrsla um íslensku lífeyrissjóðina í aðdraganda hrunsins. Sjálfur þekki ég nokkuð til málefna lífeyrissjóðanna því lengi sat ég í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR,  sem fulltrúi BSRB og lét ég málefni lífeyrissjóðanna talsvert til mín taka í ræðu og riti um langt árabil.  Oft blandaði ég mér í umræðu um lífeyirsmálin við kjarasamningaborð, í riti og ræðu á vettvangi verkalýðshreyfingar og innan veggja Alþingis. Fá mál voru jafnmikið rædd og einmitt lífeyrismál innan BSRB enda grundvallarkjaramál og á Alþingi fór fram mikil umræða í tengslum við lagabreytingar á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar.

Miklar breytingar urðu á lífeyriskerfinu í ársbyrjun 1997. Eftir að þær voru um garð gengnar byggði allt lífeyriskerfið á sjóðsmyndun (að undanskilinni B-deild LSR og sambærilegu kerfi hjá starfsmönnum sveitarfélaga)og var sjóðunum þá jafnframt gert að lagaskyldu að leita eftir fjárfestingum sem hámörkuðu gróða. Ekki studdi ég þá breytingu og talaði alla tíð fyrir því að lífeyrissjóðunum yrði beint inn í samfélagslega uppbyggilegar fjárfestingar og vildi ég að þeir hefðu forgöngu um vaxtalækkanir sem stærstu fjárfestar á markaði.
Í atkvæðagreiðslu á Alþingi hinn 20. desember 1996 var  fest í lög um LSR samsvarandi ákvæði og lögfest hafði verið gagnvart öðrum lífeyrissjóðum um að sjóðurinn skyldi jafnan sækjast eftir ávöxtum sem hæst væri hverju sinni. Þessu andmælti ég og var einn um það: „Hæstv. forseti. Hér eru greidd atkvæði um ákvæði þar sem lögbundið er að jafnan sé leitað eftir hæstu ávöxtun sem völ er á á markaði. Ég tel rangt að lögþvinga hámarksvexti með þessum hætti. Ég tel hins vegar rétt að sjóðstjórn gæti þess jafnan að leita eftir ávöxtun fjármuna sjóðsins á ábyrgan hátt. Ég get því ekki stutt þessa brtt.(20. des. 1996)."

Þetta og sitthvað annað kom upp í hugann þegar Sjónvarpið kvað upp sinn myndræna dóm í fréttum kvöldsins þar sem sýnt var tap LSR með tilvísan í stjórnarformennsku mína á árinu 2007. Fréttaflutningur Sjónvarpsins þótti mér sannast sagna ekki upp á marga fiska og á það við um ýmsa aðra fjölmiðla sem sagt hafa frá umræddri skýrslu.

Staðhæft er að LSR hafi tapað mest allra íslenskra lífeyrissjóða í hruninu. Þetta er rangt. Hlutfallslega var tap LSR svipað og meðaltap allra lífeyrissjóða eins og það er reiknað í skýrslunni, minna en þeirrasem mestu töpuðu, meira en þeirra sem minnst töpuðu. Ef notaðar eru þær forsendur sem úttektarnefndin gefur sér var tap lífeyrissjóða að meðaltali tæplega 30% og það sama á við um LSR. Að sjálfsögðu voru tapaðar, eða eftir atvikum,  græddar krónur fleiri í stórum sjóðum en smáum. Þannig tapaði lífeyrissjóður verkfræðinga mest samkvæmt skýrslunni eða um 50% þótt í krónum talið væri tapið tiltölulega lítið miðað við krónutap LSR sem er stærsti sjóðurinn!

Staðreyndin er náttúrlega sú að heimur kapitalismans er heimur breytileika. Við hrun fjármálakerfisins varð LSR þannig fyrir áfalli á árinu 2008. Frá 2003 til ársloka 2006 höfðu tekjur sjóðsins af fjárfestingum hins vegar numið 119 milljörðum!

Í myndrænni framsetningu í fréttum sjónvarpsins var greint frá formennsku minni á árinu 2007 og yfir myndina sett tap sjóðsins rúmlega 100 milljarðar króna. Vegna þessarar framsetningar er rétt að geta þess að hver einasta króna af þessari tapstöðu kom fram eftir að formennsku minni lauk, enda voru tekjur sjóðsins á árinu 2007 af fjárfestingum,16.3 milljarðar króna eða sem svarar til 5% ávöxtunar!

Ef skoðuð er ávöxtun LSR síðustu 10 ár þá hefur meðalraunávöxtun verið nálægt 2% í plús, þrátt fyrir að inn á því tímabili höfum við upplifað versta fjármálahrun sögunnar. Margir erlendir lífeyrissjóðir mundu vera sáttir við þá ávöxtun.

Nauðsynlegt er að skoða það áfall sem lífeyrissjóðakerfið varð fyrir í samhengi við hrunið  sem hér varð og þá efnahagskreppu sem heimsbyggðin hefur verið að ganga í gegnum. Bankakerfið á Íslandi fór allt á hausinn. Sama á við um flesta sparisjóði. Fjárfestingafélög fóru flest í þrot og sama gilti um sum tryggingafélög. Erlendis urðu lífeyrissjóðir fyrir miklu áfalli. Á árinu 2008 var meðalávöxtun lífeyrissjóða innan OECD 23% í mínus. Sama ár tapaði norski olíusjóðurinn fjórðungi af eignum sínum.

Staðreyndin er náttúrlega þessi: Íslensku lífeyrissjóðirnir voru lögþvingaðir til að leita alltaf eftir hæstu ávöxtun, mestum gróða. Ríkið bauð ekki upp á fjarfestingar fyrir lífeyrissjóðina. Þeir urðu því að fjármagna sig á markaði. Þeir máttu fara með tiltekið hlutfall fjárfestinga sinna úr landi, afganginn fjárfestu þeir innanlands. Þar hafa valkostir verið takmarkaðir. Stærstu fjárfestingakostirnir voru á þessum árum bankar, fjárfestingarfélög og nokkur stórfyrirtæki. Eins og við vitum nú voru þessi fyrirtæki meira og minna krosseignatengd. Þegar fjármálakerfið hrundi, urðu öll þessi fyrirtæki og þá lífeyrissjóðirnir einnig að sjálfsögðu fyrir miklu tapi. Það eru engar fréttir.
Útreikningar fréttastofu Sjónvarpsins á meintu tapi hverrar fjölskyldu vegna eignahruns lífeyrissjóðanna segir okkur aðeins hálfan sannleikann. Þess vegna hefði eins verið ástæða til að reikna hvað hver fjölskylda græddi á árunum 2003 til 2006 - eða hvað? Spurningin er hvað gerist á hinum breytilega markaði. Þessu var ég farinn að velta fyrir mér með vaxandi áhyggjum reyndar á árunum í aðdraganda hruns eins og til dæmis má lesa hér frá árinu 2004 https://www.ogmundur.is/is/greinar/asmundur-og-sparigrisinn
og síðan frá fyrri hluta árs 2008:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-kominn-timi-til-ad-selja-thoturnar
Verkefni okkar núna er að hyggja að framtíð íslenska lífeyriskerfisins á miklu róttækari hátt en mér sýnist rannsóknarskýrslan reifa.