Fara í efni

DAVID OG DÓMSMÁLARÁÐHERRANN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.05.24.
Milton Friedman heitinn var nóbelshafi í hagfræði, lengi lagaprófessor við háskólann í Chicaco. Óhætt er að segja að Milton Friedman hafi verið lærifaðir margra harðdrægustu frjálshyggjumanna samtímans. Í samræmi við það má nefna að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor við Háskóla Íslands, hefur alla tíð þótt mikið til hans koma. Um það bera skrif hans vott. Þeir Milton og Hannes voru þannig samferða í andanum og hafa báðir þótt ganga langt í boðun peningafrjálshyggjunnar. Lengra en góðu hófi gegnir að margra mati, þótt fjöldafylgi þurfi ekki að vera góður mælikvarði á ágæti kenninga. En það er önnur saga.

Þeir tveir komast þó ekki með tærnar þar sem David, sonur Miltons Friedman, hefur hælana. Þeir vilja takmarkað ríkisvald, David vill helst ekkert ríkisvald. Bara auðvald. Markaðurinn sé fær um allt, líka að búa til lögin, sjá um þá löggæslu sem á annað borð þörf er á og að sjálfsögðu allt annað.

David Friedman var hér nýlega á ferð enn einu sinni, kom hér fyrst fyrir hálfum fimmta áratug að halda fyrirlestur sem vakti athygli fjölmiðla. Ýmsir urðu til að kveðja sér hljóðs í umræðum eftir þann fyrirlestur, þar á meðal Hannes Hólmsteinn eins og við var að búast. Gárungarnir sögðu eftir á, að David hafi spurt, eftir að Hannes hafði lokið máli sínu, hvaða kommúnisti hefði þarna talað.

Þá er spurningin hvar í hinu pólitíska litrófi David Friedman myndi staðsetja dómsmálaráðherrann íslenska. Sá ráðherra lætur það viðgangast að hafin sé hér ólögleg verslun með áfengi. Þetta er netverslun, en aðeins til málamynda, því að smásalan er að öllu leyti á staðnum, en enginn véfengir að hún er ólögleg. Dómsmálaráðherrann hefur margoft látið á sér skilja að á leiðinni sé frumvarp sem lögleiði netverslun með áfengi og geri þannig lögleysuna löglega. Fram til þessa virðist lögleysan þó ekki hafa raskað ró ráðherra.

Þessi brot á lögum hafa margoft verið kærð til lögreglu í ýmsu formi. Einn ágætur maður greip til þess ráðs þegar hann var orðinn úrkula vonar um að nokkuð yrði að gert, að hann keypti áfengi í ólöglegri áfengisverslun og kærði síðan sjálfan sig í kjölfarið í þeirri von að það gæti orðið til að hreyfa við lögreglu og ákæruvaldi. Lögreglan hefur nefnilega ekkert aðhafst þrátt fyrir augljós lögbrot, saksóknari haldið að sér höndum svo og ráðherrann.

Sama er uppi á teningnum hvað varðar auglýsingar á áfengi. Þær eru bannaðar á Íslandi sem kunnugt er. Það bann hefur hins vegar verið margbrotið og jafn oft hefur það lögbrot verið kært af hálfu Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum. Aftur engin viðbrögð af hálfu lögreglu, saksóknara, dómsmálaráðherra, ríkisstjórnar, Alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins rumskar ekki einu sinni þótt henni beri skylda til að hafa eftirlit með því að framkvæmdavald og stjórnsýsla fari að lögum og geri athugasemd ef landslög eru ekki virt.

En þá er aftur komið að minni spurningu. Hefði David Friedman ekki dásamað dómsmálaráðherra sem er tilbúinn að horfa fram hjá lögbrotum ef þau þjóna markaðnum? Væri þetta ekki til marks um að markaðsöflin væru sjálf látin um að smíða lögin og þá þannig lög að þeim hentaði sem best? Og þegar dómsmálaráðherra segir í sjónvarpsviðtali um fjáröflun félagasamtaka með fjárhættuspilum, að sér komi ekki við hvernig frjáls félög afli tekna, þá má ætla að þar með hafi ráðherrann komist ofarlega í einkunnakladda Davids Friedman; þarna væri afskiptaleysi sem bragð væri að!

Fram hefur komið að David Friedman hafi hrifist mjög af íslenska þjóðveldinu. Þar hafi lögin verið skýr en ekkert ríkisvald. Það er vissulega ástæða til að hrífast af dugnaði manna á þessum fyrstu árum Íslandsbyggðar við lagasmíðina. Ekki má þó horfa fram hjá illvígum átökum og blóðhefndum Sturlungaaldar. Þá var friðurinn úti sem á endanum kostaði ófrelsi og sjálfstæðismissi.

Verkefni okkar samtíðar er svo að huga að réttlætinu í þjóðfélaginu og velferð þegnanna, horfa til almannatrygginga, aðgengis að velferðarþjónustu, umhyggju fyrir lýðheilsu; að velferð allra komi okkur öllum við, að afskiptaleysi frammi fyrir ranglæti sé aldrei forsvaranlegt, hvað þá eftirsóknarvert.

En með þessum mælikvörðum breytist líka einkunnagjöfin, dúxar þeirra Davids og dómsmálaráðherrans verða fúxar á prófi.
------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.