Fara í efni

BOÐORÐ DR. PIRIES AFTUR Á DAGSKRÁ?

Dr. Mads Pirie
Dr. Mads Pirie

Það verður ekki beinlínis sagt um Matthew Elliot frá Samtökum skattgreiðenda í Bretlandi að hann hafi komið sem ferskur vindur hingað til lands að halda fyrirlestur í síðasta mánuði. Ég gef mér að hann hafi verið hér á vegum íslenskra systursamtaka og ekkert nema gott um það að segja að íslensk hagsmunasamtök flytji inn fólk með hugmyndir til að örva þjóðfélagsumræðuna. Og eflaust vel til fundið að leigja aðstöðu í Lögbergi Háskóla Íslands.

En hvers vegna ekki ferskur? Ef dæma skal af þeirri mynd af Mathew Elliot sem birtist okkur í fjölmiðlum dvaldi hann einkum við gamla tíð, dolfallinn yfir öllu því frábæra sem Thatcher gerði fyrir þjóð sína og heiminn allan að mati þessara samtaka: „ Það sem Thatcher gerði svo einkar vel", hafði Morgunblaðið eftir honum, 19. September, „var að einkavæða hin stóru opinberu fyrirtæki."
Og hvaða fyrirtæki skyldu það hafa verið sem heppnaðist svona „einkar vel" að einkavæða. Jú, þar tilgreinir Elliot sérstaklega opinberar vatnsveitur, gas- og orkufyrirtæki! Með öðrum orðum, Landsvirkjun og Gvendarbrunnana á Bretlandi.

Um hraklega reynslu af einkavæðingu þessarar starfsemi  í Bretlandi og annars staðar, hafa verið skrifaðir ótal skýrslur og greinar og úttektir gerðar þar sem fram hefur komið hvernig einkavæðingin hafi komið notendum og skattgreiðendum í koll. Verst hefur reynslan verið af vatnveitunum. Þar gerðist það í mjög mörgum tilvikum að út úr starfseminni var tekinn arður sem ella hefði farið í að laga úr sér gengnar og ónýtar leiðslur og bæta þjónustuna. Hvað áttu notendur að taka til bragðs þegar kerfið drabbaðist niður og prísar einokunarfyrirtækisins  ruku upp úr öllu valdi? Láta leiða vatn frá öðru vatnsveitufyrirtæki í húsið? Það stóð ekki til boða enda galið að efna til samkeppnisrekstrar þar sem engar forsendur eru fyrir honum; þar sem samkeppnin er ekki fyrir hendi og verður aldrei. Thatcer var að þjóna pólitískri trúarsetningu og hagsmunaaðilum sem vildu maka krókinn með einkavæðingu almannaþjónustunnar.

Röksemdir trufluðu ekki skemmtilegasta trúboða frjálshyggjunnar. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um hann dr. Pirie sem hingað kom í boði Verslunarráðsins í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Hann var eins konar Moses markaðshyggjunnar og setti boðskap sinn fram í boðorðum. Boðorðin tíu sem dr. Pirie kenndi , gengu út á að fara gætilega að fólki, gera þetta allt saman rólega og í mörgum skrefum þangað til, bingó, allt var um garð gengið.

Dr. Pirie var helsti stefnumótandi frjálshyggjustofunnar, Adam Smith Institute, sem í kjölfar heimsóknar hans til Íslands sendi hingað fjölmarga einstaklinga að boða fagnaðarerindið og komu þeir með reglulegu millibili þar til hrunhugmyndafræðin mátti teljast fullmótuð með ráðandi öflum hér á landi og farið var að framfylgja gömlu slagorði Sjálfstæðisflokksins, frá Orðum til athafna. Þar voru bankarnir náttúrlega efst á blaði. Öll þekkjum við eftirleikinn.

Hér að neðan eru slóðir inn á greinar sem ég skrifaði þar sem dr. Pirie og félagar koma við sögu. Greinarnar eru miklu fleiri, ekki síst um hrikalegar afleiðingar af einkavæðingu vatns- og orkufyrirtækja í Bretlandi og annars staðar.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/verslunarradid-brillerar-aftur-og-aftur
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vill-morgunbladid-ad-thjodin-sofi