Fara í efni

Verslunarráðið brillerar aftur – og aftur

Birtist í Morgunblaðinu 07.04.04
Verslunarráð Íslands er iðið við kolann. Hvað sem tautar og raular skal það hafast í gegn að almannaþjónustan verði einakvædd. Til þess að knýja þetta fram hefur verið reynt að beita þjóðina, og þá sérstaklega ráðamenn, fortölum, oft með hjálp erlendra manna. Við þetta er að sjálfsögðu ekkert að athuga og meira að segja prýðilegt að Verslunarráðið beiti sér í þjóðmálaumræðunni, þótt ég hafi margt við boðskapinn frá ráðinu að athuga, bæði fyrr og síðar.

Boðorðin 10

Í endurminningunni er dr. Pirie í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann kom hingað til lands í boði Veslunarráðsins fyrir um hálfum öðrum áratug. Dr.Pirie boðaði einkavæðinguna sem hver önnur trúarbrögð og setti kenningar sínar fram sem boðorð. Í boðorðum dr. Piries var tilgreint hvernig menn skyldu bera sig að við einkavæðinguna. Ekki hraða sér um of sagði í einu boðorða. dr.Piries, venja þarf fólk við tilhugsunina. Ég hafði alltaf á tilfinningunni að dr. Pirie hefði ekki ætlast til þess að boðorðin yrðu birt eins víða og gert var. Þau hefðu frekar verið hugsuð sem leiðavísir fyrir valinn hóp.

Spámenn boða trú sína

Enn er svo í fersku minni dr. Eammon Butler, sem kom hingað síðastliðið sumar. Hann var frá Adam Smith Institute í London. Dr. Eammon fór á kostum í fyrirlestrum og viðtölum við fjölmiðla. Hann sagði einkavæðingu allra meina bót. Á spítölum væri t.d. hægt að stórhækka laun starfsfólks og jafnframt ná kostnaði niður um 20-40 %. Starfsmenn sjúkrahúsanna ráku upp stór augu, vitandi að á sjúkrahúsum er launakostnaður 70-80% af rekstarksotnaði. Dr. Eammon láðist að segja okkur hvort einhver rannsókn hefði farið fram á Adam Smith Institute um hver reynslan væri af einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, að öðru leyti en því að fræðilega væri margsannað að fyrr eða síðar, myndu slíkar kerfisbreytingar leiða til stórfelldra hagsbóta.

Þrír flokkar um stefnu eins Verslunarráðs

Nú síðan kom skýrsla  í haust um að fækka mætti ríkisstofnunum um 30! Þetta þótti ekki í frásögur færandi, enda menn orðnir ýmsu vanir. En viti menn þessi skýrsla Verslunrráðsins dúkkar nú upp á Alþingi sem þingsályktunartillaga, flutt af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu, með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar. Ekki er okkur sagt hvaða stofnanir eigi að leggja niður eða sameina öðrum, heldur virðist beitt því sem kalla mætti regslustikuaðferð, sem var mjög vinsæl í Sovétríkjunum á sínum tíma. Fyrst er gerð áætlun um hvað eigi að gera, síðan er reynt að finna út hvers vegna. Margrét Thatcher beitti þessari aðferð óspart við landstjórnina á Bretlandseyjum í valdatíð sinni, eins og reyndar þeir flestir gera, sem láta stjórnast af mjög þröngri hugmyndafræði. Slíkir aðilar eiga það sammerkt, að þeim kemur reynslan ekkert við. Aðeins hugmyndafræði og þröngir hagsmunir skipta máli.

Mótsögn – eða pilla á Geir

Verslunarráðið má þó eiga það, að það tilgreindi stofnanir, sem mætti leggja niður eða einkavæða. Reglustikumennirnir eru hins vegar á almennari nótum og nefna engar stofnanir. Þeir segja að samlegðaráhrifin séu miklivæg. Stórar stofnanir séu betri en smáar. Ég veit ekki hvort Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, tekur þetta sem sneið til sín. Hann sker nefnilega niður við Landspítala Háskólasjúkrahús með þeim afleiðingum, að þjónusta sem lögð er af, færist til einkaaðlia, sem starfa  – í smáum fyrirtækjum. Getur þingmálið verið annað en gagnrýni á þessa stefnu? Hvað segjum við um þetta, Bjarni? Nema náttúrlega að menn sjái það fyrir sér, að öll litlu fyrirtækin sameinist þegar fram líða stundir til að ná samlegðaráhrifum og slái sér þá saman í eitt stórt, sem gæti t.d. heitið Landspítali Háskólasjúkrahús hf.

Sjálfseignarstofnanir á dagskrá

Næsta mál, sem kemur inn á þingið frá frjálshyggjudeildum fyrrnefndra flokka, verður sjálfsagt tillaga um að leggja niður sjálfseignarstofnanir. Verslunarráðið er búið að gefa það út að þetta sé afskaplega varasamt rekstrarform, og að sjálfsögðu miklu lakara en hlutafélög. Um þetta tjáir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins í Morgunblaðinu sl. laugardag. Hann segir, að "ekki sé hægt að færa nein rök fyrir því að sjálfseignarformið sé hagkvæmara en hlutafélagaformið, enda mætti þá allt eins halda því fram að ríkisstofnanir væru hagkvæmari en einkafyrirtæki". Það skyldi þó aldrei vera, Þór, að sú sé einmitt raunin þegar um grunnþjónustu samfélagsins að ræða, alla vega fyrir þá sem eiga að njóta þjónustunnar og þá sem eiga að greiða fyrir hana? Það er ekki þar með sagt að það þjóni hagsmunum skjólstæðinga Verslunarráðs Íslands.  Reyndar held ég að svo sé hreint ekki. Um það getum við Þór Sigfússon alla vega verið sammála.