BJÖRGUM LÝÐRÆÐINU MEÐ LÝÐRÆÐI
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.07.25.
Þingveturinn 2012 til 2013 fluttu þrettán þingmenn undir forystu Sivjar Friðleifsdóttur þingmál sem stefnt var gegn málþófi á Alþingi. Málið náði ekki fram að ganga.
Ég var í ríkisstjórn á þessum tíma en þingreynsla mín var þegar hér var komið sögu að mestu leyti þingmanns í stjórnarandstöðu. Þar hafði ég iðulega tekið þátt í maraþonumræðum um umdeild mál sem ríkisstjórnir reyndu að keyra í gegn. Við sem töldum okkur sjá á þeim alvarlega hnökra gerðum allt sem við gátum til að teygja lopann og ná með því móti umræðu um málin í fjölmiðlum og á meðal almennings. Ég minnist slíkra deilna um eignarhald á auðlindum í jörðu, þar á meðal vatninu, markaðsvæðingu raforkunnar (fyrstu orkupakkarnir komu fram um aldamótin), einkavæðingu fjármálastofnana og Pósts og síma, hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins, lagabreytingar vegna virkjanaframkvæmda og einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja. Allt grundvallarbreytingar.
Í mörgum tilvikum varð frestun á afgreiðslu máls til góðs frá okkar sjónarhóli séð og nefni ég þar sem dæmi niðurstöðu um vatnalögin (þótt þar væri engan veginn gengið nógu langt í breytingu á upphaflegu stjórnarfrumvarpi) og lög um heimild til að markaðsvæða vatnsveitur sveitarfélaga.
Það er umhugsunarvert að í flestum þessara mála átti minnihlutinn á þingi, að því er ég tel, samleið með meirihluta þjóðarinnar. Og kem ég þá aftur að þingmáli Sivjar Friðleifsdóttur og félaga um takmörkun á lengd málsmeðferðar í þinginu. Þar segir eftirfarandi í greinargerð frumvarpsins:
„Flutningsmenn telja að samhliða þessari breytingu á þingsköpum verði að útbúa eins konar neyðarhemil, þ.e. að stjórnarandstaðan geti hindrað að afar umdeild grundvallarmál verði kláruð í þinginu í krafti meirihlutavalds, svo sem með því að minni hluti þingsins gæti knúið á um að umdeild mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu, ... t.d. að 1/ 3hluti þingmanna að lágmarki gæti krafist þess með þingsályktun að leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram.“
Ef Siv og félagar hefðu gert þessa ábendingu sína að tillögu að breyttum lagatexta má vel vera að ég hefði orðið þeim sammála. Væri þetta ákvæði í lögum er ekki nóg með að mörg umdeild mál hefðu hafnað hjá þjóðinni heldur hefðu þau sennilega aldrei náð fram að ganga. Ég efast um að við byggjum þá við framsalskerfi á fiskveiðikvótanum þar sem erfingjar kvótahafa geta fengið milljarða í vasann, Hitaveita Suðurnesja væri eflaust enn í okkar eigu, markaðsvæðing raforkunnar hefði verið stöðvuð og við sætum ekki uppi með sífjölgandi rándýra milliliði þar; auðmenn, innlendir og erlendir, væru ekki í þeirri stöðu sem þeir eru í nú að komast yfir land og vatnslindir og norskir fjárfestar væru varla að eignast firðina á Íslandi með varanlega kvóta í laxeldi. Og þannig mætti áfram telja það upp sem ekki hefði orðið ef þjóðin hefði fengið að ráða.
Hvernig væri að vinda sér í það að virkja þjóðaratkvæðisákvæðið á þann hátt sem Siv og félagar viku að í greinargerð sinni?
Hvort núverandi stjórnarandstaða hefði treyst sér í þjóðaratkvæði um veiðigjöld veit ég ekki en grunar samt hvert svarið væri. Þetta hefði hins vegar opnað á þjóðaratkvæðagreiðslu um vindmyllugarðana og milljarðana sjötíu í vopnakaup og svo margt annað þar sem þjóðin virðist vera á allt öðru róli en Alþingi við Austurvöll.
Vandinn er hins vegar sá að inni á þingi þyrfti þriðjungar þingmanna að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er nú það.
Ég gleymdi alveg rofinu á milli þings og þjóðar.
Ég gleymdi með öðrum orðum vanda fulltrúalýðræðisins.
Hann er nefnilega ekki lítill.
En er þá ekki leiðin til að bjarga lýðræðinu sú að virkja lýðræðið?
Auðvitað á þjóðin að ákveða sjálf hvenær hún nýtir rétt sinn til þess að ráða sér sjálf.
Þá verða milliliðir óþarfir.
-----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/