Fara í efni

Bandaríkjaforseti: fífl eða fól?

Ég hlustaði á Bush Bandaríkjaforseta í gærkvöld bregðast við morði á Bandaríkjamanni í Saudi Arabíu. Allir siðaðir menn fordæma þetta morð. Enda hefur ekki staðið á yfirlýsingum í þá veru frá öllum hornum heimsins, líka frá Sýrlandi en þar í landi hafa menn verið einna gagnrýnastir á framferði Bandaríkjamanna.

Georg og villimennirnir

Yfirlýsingar Georgs Bush Bandaríkjaforseta skáru sig úr. Hann túlkaði morðið strax á þröngan hátt. "Þetta eru villimenn" og þeir ógna "bandarískum hagsmunum" sagði hann. Vissulega er meðferðin á Paul M Johnson, Bandaríkjamanni sem búsettur hefur verið í Saudi Arabíu í áratug og nú myrtur af hryðjuverkamönnum, villimannleg. Orðalagið hefði hins vegar átt að vera á annan veg frá Georg Bush, æðsta manni hersveita sem á allra síðust vikum hafa gerst sekar um fjöldamorð og hryllilegar pyntingar. Hvorki fjöldamorðin né pyntingarnar sá Bandaríkjaforseti ástæðu til að gagnrýna á nokkurn hátt annan en þann sem flokka verður undir algeran kattaþvott. Gæti verið að þessi samstarfsmaður og leiðtogi þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar í NATO sé mestur villimaður af þeim öllum þegar allt kemur til alls?

Daufir eða samdauna?

Vel á minnst. Þeir Davíð og Halldór eru sannarlega í hópi þeirra manna sem allra minnsta meðvitund hafa um það sem er að gerast í kringum þá nema þeir séu algerlega samdauna valdaklíkunni í Washington, einhverri harðsvíruðustu ofstækisklíku heimsvaldasinna, sem þar hefur ráðið um langt árabil. Nú hefur rannsóknarnefnd á vegum Bandaríkjaþings komist að þeirri niðurstöðu að engin tengsl hafi verið á milli al-Queada og Saddams Husseins en þessi tengsl voru ein höfuðréttlætingin á árasinni á Írak.
Bush Bandaríkjaforseti átti ekki í miklum vandræðum við að bregðast við þessari skýrslu. Hann sagði einfaldlega: "Ástæðan fyrir því, að ég held því fram, að tengsl hafi verið á milli Saddams og al-Queda, er sú að það voru tengsl á milli þeirra".
Þetta er náttúrlega einstaklega greindarleg yfirlýsing, nema hitt þó heldur. Eðlilegt er að menn spyrji hvort þetta sé heimska eða fólska? Sennilega blanda af hvoru tveggja. Bandaríkjaforseti verður þó ekki afsakaður með því að vera lítilla sanda. Allan feril sinn hefur hann og fylgilið hans verið reiðubúið að beita mjög óvönduðum meðölum. Bæði Dick Cheney varaforseti og Colin Powell, utanríkisráðherra, hafa ítrekað haldið því fram að leiðtogi hryðjuverkamanna al-Queda hafi hitt íraskan leyniþjónustumann í Prag skömmu fyrir árásirnar 11. september. Þetta hefur nú verið ítrekað að nýju af hálfu vladaklíkunnar í Washington.

Holl upprifjun

Af þessu tilefni langar mig til að minna á grein sem ég birti hér á síðunni um þetta efni. Í þeirri grein koma hinir skeleggu og vakandi talsmenn íslensku þjóðarinnar við sögu á NATO fundi, þeir Davíð Odsson og Halldór Ásgrímsson. Gott ef þetta var ekki sami fundur og þeir lofuðu að lána íslenskar farþegaþotur til hergagnaflutninga. Gjörið þið svo vel: HÉR.