Fara í efni

Hvers vegna Fjórða heimsstyrjöldin?

Hvernig stendur á því að öfgafyllstu stríðsæsingamennirnir í kringum Bush Bandaríkjaforseta tala um að Fjórða heimsstyrjöldin sé hafin? Skýringin er sú að fyrst hafi orðið tvær heitar styrjaldir og síðan sé Kalda stríðið þriðja heimsstyrjöldin. Hin fjórða sé hafin og standi hún á milli Bandaríkjanna og Breta annars vegar og strangtrúaðra Múhameðstrúarmanna hins vegar. Eins og oft hefur verið bent á, m.a. hér á heimasíðunni, hófust þessir aðilar handa um áróður fyrir hernaði á hendur Írökum fyrir mörgum árum, löngu áður en hryðjuverkaárásin var gerð á Bandaríkin 11. september árið 2001. Þá árás notuðu þessir aðilar síðan í áróðursskyni fyrir hernaðaráformin sem þeir beittu sér fyrir. Þau áform voru ekki einskorðuð við Írak, heldur fleiri ríki svo sem Sýrland. Þar er nú heldur betur farið að hitna undir eins og við sjáum og heyrum í fréttum.

Einn úr hópi þessara ofstækisfullu manna, James Woolsey, mun gegna lykilhlutverki við stjórn Íraks. Upplýsingar um hann eru nú að koma fram í fjölmiðlum vestan hafs og austan og byggi ég eftirfarandi m.a. á Foreign Policy in Focus sem finna má á eftirfarandi vefslóð:

http://www.fpif.org/commentary/2003/0304woolsey.html

Woosley var yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA um tveggja ára skeið og hefur verið iðinn við að spinna lygavefi málstað sínum til framdráttar. Ein "sönnun" þess að Írakar stýrðu Al Quaida hryðjuverkasamtökunum var sú, að Woolsey kvaðst hafa heimildir fyrir því að ónefndur maður hefði tjáð tékkneskum leyniþjónustumanni að hann hefði séð til foringja hryðjuverkahópsins sem stóðu að 11.september árásunum, ræða við íraskan leyniþjónustumann í Prag nokkrum mánuðum fyrir árásina. Leyniþjónustur Breta, Frakka og jafnvel Ísraels, gátu ekki stutt fullyrðingar af þessu tagi frá Woolsey. Þetta er hins vegar dæmigert fyrir  vinnubrögð Woolsey og félaga sem spunnu áfram þar til í fyrra að skoðanakannanir í Bandaríkjunum voru farnar að sýna að meirihluti þjóðarinnar trúði því að Saddam Hussein hefði staðið að baki árásunum 11.september 2001.

Woosley hefur tekið undir fyrrnefndar hugmyndir um Fjórðu heimstyrjöldina. Það gerði hann meðal annars í ræðu sem hann flutti á Nató ráðstefnunni í Prag síðastliðið haust. Ekki virðast ummæli Woolseys þar hafa raskað ró þeirra Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sem sátu ráðstefnuna. Woolsey lýsti því yfir að Fjórða heimsstyrjöldin yrði háð í Miðausturlöndum og stríð um yfirráð í Írak yrði upphaf hennar. Ekki var síður ógnvekjandi og ógeðfelld yfirlýsing Woolseys í Washington Post þar sem hann segir "aðeins ótti mun skapa Bandaríkjunum virðingu."